Miðvikudagur 27.10.2010 - 17:30 - Lokað fyrir ummæli

Um presta og immana og herforingja!

Meðan lína herforingjanna réði í Tyrklandi þ.e.a.s. að ríkisvald skyldi vera algerlega hlutlaust þá var amast við því að immanar (islamskir prestar) gengdu trúarbragðakennslu.  Núverandi stjórnvöld undir forsæti Recep Tyyip Erdogan eru ekki eins hörð á línunni, þykja höll undir Islam. Þeir telja sig þó halda uppi hlutleysi en minnihlutatrúarhópar t.d. kristnir kvarta sáran. Tyrkir kynna lýðveldi sitt sem verladlegt  ,,secular“ ríki.

Hér á landi er ekki kallað á presta til að kenna trúarbragðafræði. Stundum kenna þeir þó það fag. Prestar eru nefnilega líka oft kennarar og hafa margir próf i kennsluréttindum.  Þeir eru því ekki prestar að kenna heldur kennarar sem eru einng prestar.

Prestar í Lútherskum sið eru mjög veraldleg fyrirbæri.  Lifa fjölskyldulífi.  Eru á allan hátt eins og aðrir. Sumnir svolítið trúaðir í hátterni, aðrir ekki.  Það er ekki hægt að bera þá saman við immana eða kaþólska presta.

En mannréttindaráð Reykjavíkur virðist vera harðlínufyrirbrigði eins og herforingjarnir. Sé líkingunni haldið þá er ég mjúkur gagnvart meirihlutakirkjunni líkt og Erdogan og hans flokkur.  Fylgismenn hans benda á að Islam sé svo snar og lifandi þáttur í Tyrkneskri menningu mað framhjá henni verði ekki komist hvorki í skólum eða ríkisapparati. Herforingjarnir vilja ekki heyra slíkt. Það er margt skrítið í kýrhausnum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (43)

  • Sæll Baldur,

    vandinn við skrif þín er sá að þið klerkarnir eruð að reyta hár ykkar og skegg án þess að hafa humynd um hvernig tillagan voðalega verður endanlega orðuð, hvort þar verður yfirleitt minnst á presta eða kristindóminn. Enda eru þetta drög hennar sem þið eruð að rífa ykkur yfir. Og það er svo sem samkvæmt hefðinni að hinir trúuðu séu komnir fram úr sjálfum sér í píslarvættinu.

    En það er gaman að sjá hempuklædda hjörðina hlaupa. Sýnast mér þar ýmsir hafa gripið stein á hlaupunum og halda í kreptum hnefa sínum, albúnir að kasta í guðleysingjana í mannréttindaráðinu sem ætla að eyðileggja fyrir þeim bæði kristnina og þjóðmenninguna. Og gott ef ég hef ekki heyrt einn og einn hnullung hvína við eyra mér síðustu dægrin.

    En ætli það sé víst að þá sem kirkjan þarf að óttast mest sé að finna í okkar litla hópi?

    Lifðu heill,

    Sjón

  • Pétur Maack

    Einhver fullyrðir það hér að ofan að vestræn mannréttindi séu komin úr kristni.
    Þetta held ég að sé sérlega hæpin söguskýring. Mannréttindi eru afurð upplýsingarinnar í Evrópu, þegar menn brutust undan valdi kirkju og konunga og fóru að hugsa.

  • Gísli Ingvarsson

    Tyrkland er að mörgu leyti sér á parti. Tugir milljóna og fer fjölgandi. Meirihlutinn er „ómenntaður“ á vestræna vísu. Löng hefð fyrir íslömskum siðum . Atatyrk herforingi ákvað við stofnun lýðveldisins Tyrklands að framtíð þjóðarinnar yrði byggð á vestrænum gildum þar sem trúarbrögð fengju ekki að leika annað hlutverk en að vera trúarbrögð. Halda skyldi íslam utan stjórnmála og réttarkerfis og trúarbragðafræðsla ekki í opinberum skólum. Þetta virkaði ágætlega á meðan herinn gat haldið utanum þróunina. Lýðræðsilega var þetta þó erfitt enda meirihluti þjóðarinnar gamalgróinn í kenningum Múhameds. Þegar Íslam í dag hefur náð pólitískum undirtökum verður ekki langt í Sharialögin í réttarkerfinu og herforingjar með trúarlegar kvalifíkasjónir taka völdin. Þetta er nærri því óhjákvæmileg þróun. Svona ástand er ekki mögulegt á Íslandi. Mannréttindaráð er því úti að aka ef maður beitir þessum samanburði.

  • Halla Sverrisdóttir

    Ef þessi færsla er innlegg í umræðuna um ályktun Mannréttindaráðs átta ég mig ekki alveg á því hvað hún á að segja um það mál. Tyrkland hefur lengi verið í mikilli sjálfsmyndarkreppu hvað samband trúarlífs og veraldlegs lífs varðar, sem betur fer á það eða ætti það ekki að vera vandamál hér á landi og ég hygg að flestir foreldrar myndu skrifa undir það að skólinn eigi að vera veraldlegt rými, ekki trúarlegt.

    Ég hef ekki skilið ályktun Mannréttindaráðs sem svo að karl eða kona sem er prestur megi ekki sjást innan veggja skólans nema þegar svo vill til að hann eða hún ætli sér að heimsækja skólann SEM PRESTUR. Þar segir hvergi að kennari sem líka er prestur megi ekki kenna kristnifræði eða trúarbragðafræði. Ég hef heldur ekkert á móti því að prestur kenni barninu mínu, ef viðkomandi prestur er með kennarapróf eða leiðbeinandaréttindi. Ég treysti kennurum almennt til að vera kennarar í skólastofunni, jafnvel þótt þeir kunni að vera prestar í „hinu djobbinu“. En þá þurfa þeir sjálfir að vera færir um að greina á milli þessara hlutverka. Það er til dæmis geysilega mikill munur á því að kynna sköpunartrúna fyrir barni með því að segja annars vegar:

    Guð skapaði himinn og jörð á sjö dögum

    og hins vegar:

    Sumir/margir/kristnir menn trúa því að Guð hafi skapað himinn og jörð á sjö dögum.

    Er munurinn á þessu ekki augljós?

    Það eru til dæmi um það að prestur sem kennir kristnifræði hafi ekki áttað sig fyllilega á því hvar öðru hlutverkinu lýkur og hitt byrjar og ef barnið mitt hefði slíkan prest sem kennara vildi ég geta kvartað yfir því og vísað í ályktun þess efnis að ekki mætti ástunda trúboð innan veggja skólans.

Höfundur