Sunnudagur 31.10.2010 - 17:17 - Lokað fyrir ummæli

Snilldarverk Gamla Testamentið!

Gamla Testamentið er frábært safn bóka -39 rit frá ýmsum tímabilum. Margt misjafnt að finna þar en hreinar perlur inn á milli. Sagan af Jósef og bræðrum hans í 1. Mósebók er þar framarlega í flokki.  Snilli um góðæri, kreppu, föðurást, öfund, fyrirgefningu og ábyrgð.  Prédikarinn er líka frábært spekirit, Rutarbók, mögnuð ástarsaga, orðskviðir Salómons uppfullir af viti og í öllum bókunum frábærir kaflar.  Gamla Testamentið er trúarbók Gyðinga og Kristnir tóku hana (í leyfisleysi?)inn í safn sitt.  Látum trúarlega gildið liggja á milli hluta en snilldarlegt bókmenntaverk er Gamla Testamentið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Ekkert rit hefur haft milli áhrif á heimsbókmenntirnar og GT og ýmsar af helstu bókmenntaperlum samtímans á Vesturlöndum bera þess óræk merki. Nægir að nefna Þrúgur reiðinnar. HKL var vel að sér í bilíutextum enda sennilega enginn almennilegur höfundur í veröldinni sem ekki hefur sótt eitthvað sér til halds og trausts í það mikla forðabúr innblásturs og stílsnilldar. Hitt er annað mál að ný þýðing GT á íslensku er stórkostlega gölluð – flatneskja, dauðyflisháttur og geldingslegt orðalag hefur víða komið í stað hins kraftmikla og hátignarlega orðfæris sem einkennir eldri þýðingar. Menn beri t.d. saman fyrstu málsgreinarnir í Jobsbók í gömlu útgáfunni frá 1908 við hina nýju. Þegar Drottinn allsherjar spyr Satan hvaðan hann komi svarar hann samkv. gömlu þýðingunni: „Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.“ Hér er brugðið upp í einni sjónhending stórfenglegri mynd af hinum mikla friðlausa anda, einsemd hans og firringu. Og þýðingin kemur heim og saman við helstu biblíuþýðingar allra Norðurlandanna. En hvað segir í nýju þýðingunni? „Ég hef verið á ferðalagi hingað og þangað…“ Eru menn að grínast? Hverskonar uppþornuð dauðyfli hafa verið hér að verki? Gerilsneyðing af þessu tagi á dýrmætum texta eflir vantrú í landinu, spillir siðum og er vatn á myllu þeirra sem hatast við hið fagra og háleita.

  • Sæll kollega. Ég má til að stinga því inn í þessa umræðu að kristnir menn geta ekki lotið þeim áburði að hafa Gamla testamentið í helgiritasafni sínu. Það var Biblía Jesú Krists, postula hans og lærisveina meðan hann var með þeim. Gamla testamentið geymir þá texta sem hann útlagði fyrir áheyrendum sínum á sinn spámannlega hátt. Eftir krossdauða hans tók ritsafn kennt við hið Nýja testamenti að mótast í formi ritaðra vitnisburða og bréfa sem á endanum var bætt við og nefnt þessum titili sem á íslensku er Hinn Nýji Sáttmáli. Það er líka rétt að minnast þess að fylgendur Jesú voru í upphafi eins og gyðinglegur flokkur fólks með séráherslu sem t.a.m. rækti bænahald sitt í musterinu í Jerúsalem. M.a. vegna þessa er ritsafnið sem við Gamla testamentið (sáttmálann – „berith“) alls ekki framandi kristnum sið og trúarhefðum og eiginlegur því, þótt nýtt teldist til skjalanna komið í persónu og þjónustu Jesú Krists. Þetta veist þú auðvitað kæri Baldur en ég vildi skjóta þessu að vegna samtalsins hér. Besta kveðja, ÞJÞ

  • Átti að vera: … að hafa Gamla testamentið í leyfisleysi i helgiritasafni sínu. Afsakið..

  • Baldur Kristjánsson

    Sæll Þórir Jökull. Þarna á að lágmarki að vera spurningamerki og hef ég bætt úr því. Var að vísa til skoðana um þetta. Þú gerir réttilega grein fyrir kjarna málsins. Takk fyrir. BKv. B

Höfundur