Fimmtudagur 13.01.2011 - 14:55 - Lokað fyrir ummæli

Af túlkamálum fyrir dómstólum!

Mér varð aðeins á í messunni í gær þegar ég talaði um rétt útlendinga í dómskerfinu þegar kæmi að túlkamálum.  Dæmið sem vakti viðbrögð mín var af vettvangi sýslumanna en þeir eru hluti af framkvæmdavaldinu nú orðið eins og við eigum að vita.  Formaður Dómarafélags Íslands, Ólafur Ólafsson,  áminnti mig um þetta af sinni elskusemi og benti á að vel væri fyrir þessu séð í  lögum um meðferð einkamála  (10. gr. laga nr. 91/1991)og lögum um meðferð sakamála 12. gr. laga nr 88 frá 2008.) Í þessum greinum er skýrt kveðið á um túlkaþjónustu og fullyrti Ólafur að dómarar fylgdu þeim eftir af stakri samviskusemi.  Rétt skal vera rétt og stendur gagnrýnisbeinið því einkum að framkvæmdavaldinu, sýslumönnum, sem láta það greinilega viðgangast í einhverjum tilvikum að útlenskar konur viti ekki hvað þær eru að skrifa uppá og túlkar þeirra séu eiginmennirnir sem þær eru að skilja við. Í gagnrýni ECRI er einmitt tekið fram að hún beinist ekki að dómstólum eða heilsugæslu, en að flestum öðrum sviðum.

Eftir stendur óbreytt að íslenska löggjöf sem lýtur að máefnum þeirra sem hingað koma eða flytja er ekki með því besta sem þekkist þó að vissulega sé þar margt gott.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Halla Sverrisdóttir

    Þakka þér fyrir að fjalla um þetta mál, sem ég er voðalega hrædd um að muni ekki fá sérlega mikla umfjöllun, enda virðist flestum Íslendingum skítsama um það hvernig farið er með konur af erlendum uppruna. Og oft einkennist umfjöllun í blöðum af nánast grímulausum fordómum, sbr. fyrirsögn á visir.is í gær þar sem fjallað var um þrjár konur sem eru nú ákærðar fyrir „málamyndagiftingu“. Fyrirsögnin var „Útlenskar konur sakaðar um málamyndahjónabönd“ og bæði fyrirsögn og frétt voru skrifuð eins og slíkt athæfi væri einnar manneskju verk, gerandinn væri „útlensk kona“ en ekki tvær manneskjur, konan og þá væntanlega íslenskur karlinn. Útlensku konurnar eiga að hafa „stofnað til málamyndahjónabanda“ með íslensku körlunum, eins og þeir hafi bara ekkert komið þar við sögu, og hvergi er minnst á það hvort það sé saknæmt athæfi skv. íslenskum lögum að íslenskur ríkisborgari eigi þátt í slíku hjónabandi, eða hver hugsanleg viðurlög kunna að vera. Þessi frétt var í skársta falli meiðandi fúsk og í versta falli birtingarmynd fyrirlitlegra fordóma.

    Hvað þetta túlkamál varðar þá er mér óskiljanlegt með öllu hvernig sýslumaður með nokkra sómatilfinningu getur setið í dómssal og hlustað á framburð konu í forræðismáli sem fluttur er í gegnum hinn aðilann í málinu, þ.e. eiginmanninn. Mál þar sem slíkt hefur átt sér stað ætti að taka upp aftur, lýsa fyrri málsmeðferð ógilda og gera þetta aftur, með óháðum túlk. Konurnar ættu að eiga skaðabótarétt á hendur viðkomandi dómsstól fyrir að láta slíkt viðgangast, enda hafa sumar þeirra eflaust (og raunar sannanlega í einhverjum tilfellum) borið mjög skertan hlut frá borði eftir slík dómsmorð.

Höfundur