Laugardagur 15.01.2011 - 18:36 - Lokað fyrir ummæli

Megum ekki forpokast meir en orðið er

Við þurfum að uppfæra íslenska mannréttindalöggjöf og gefa mannréttindum meira stjórnskipunarlegt vægi. Við ættum að gefa alþjóðlegum sáttmálum sem við undirritum lagalegt gildi.  Innleiða viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar mismunun. Innleiða löngu tímabærarar tilskipanir í vinnurétti frá ESB.  Ganga í Evrópusambandið ekki síst vegna mannréttinda.  Við megum ekki einangrast og forpokast meira en orðið er. Við verðum að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að það standist kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna.  Við eigum að tryggja  eignarétt þjóðarinnar á orkuauðlindinni og ekki leigja nýtingarréttinn til meira en tíu ára. Við eigum mikið verk fyrir höndum að aðlaga okkar að því besta sem gerist i veröldinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hrafn Arnarson

    Stuttur og góður pistill. Sammála öllu!

  • Garðar Garðarsson

    Baldur af hverju vilt þú leigja nýtingarréttinn út? Og afhverju til 10 ára?

    Hefur farið fram athugun á því hvernig einkavæðing orkufyrirtækja í nágrannalöndunum hefur tekist til? Aðalatriðið er að tryggja hagkvæmustu lausn fyrir almenning og að arður auðlindarinnar skili sér sem mest til almennings.

    Hvar í nágrannalöndum okkar hefur almenningur grætt á því að orkufyrirtækin hafi verið einkavædd? Hvernig væri að skoða reynslu annara áður en við seljum frá okkur bestu og arðbærustu fyrirtæki framtíðarinnar á brunaútsölu af því að búið er að spilla lántrausti okkar og það vonandi bara tímabundið?

    Nýting og dreifing orku er mjög vandasöm hvað varðar allt öryggi gagnvart neytendum. Ef það er bilun í dreifikerfi orkunnar eða það kemur upp orkuskortur vegna bilana í virkjunum, þá getur það valdið mörgum fyrirtækjum og öllu þjóðfélaginu miklum skaða. Það má ekki láta misvitra einkaaðila arðræna þessi mikilvægu fyrirtæki þannig að öryggi framleiðslunnar verði í lágmarki og mikil hætta skapast á afhendingu orku vegna þessa.

    Orkufyrirtækin eiga að vera í höndum hins opinbera, enda hefur það sýnt sig að í þeim löndum þar sem orkufyrirtækin hafa verið einkavædd þar hefur orkuverð til almennings stór hækkað og öryggi framleiðslunnar minnkað.

  • Uni Gíslason

    Við þurfum að uppfæra íslenska mannréttindalöggjöf og gefa mannréttindum meira stjórnskipunarlegt vægi.

    64. gr. til 76. gr. stjskr. fjallar um mannréttindi. Vægi þeirra er mjög þungt, þyngra en annarra greina stjskr. – því spyr ég: af hverju? Eiga mannréttindi undir högg að sækja á Íslandi? Er ekki farið eftir þessum ágætu mannréttindaákvæðum stjskr. Íslands?

    Með öðrum orðum: hvers vegna þurfum við að „uppfæra“ íslenska mannréttindalöggjöf … og hvernig er hægt að gefa henni meira vægi en að tilgreina þær í stjórnarskrá eins og gert er og að Hæstiréttur sýni það í dómaframkvæmd að greinar þessar vegi jafnvel þyngra en aðrar greinar stjórnarskrár?

    Innleiða MSE í stjórnarskrá? MSE hefur nú þegar verið sett í lög og hefur ávallt hærri stöðu sem réttarheimild en önnur sett lög. Mannréttindaákvæði stjskr. vísa raunar í MSE hvort eð er. Svo hvað nákvæmlega kallar á þessa þörf sem þú nefnir.

    Við ættum að gefa alþjóðlegum sáttmálum sem við undirritum lagalegt gildi.

    Alþjóðlegir sáttmálar sem „við“ undirritum eru ekkert endilega undirritaðir af okkur, heldur af framkvæmdavaldinu – sem hefur ekki vald eða leyfi til þess að skuldbinda Ísland að nokkru leyti, ekki frekar en það hefur leyfi til að setja lög… en gott og vel, Alþingi gæti jú verið sætt og þægt og leitt þessa sáttmála í lög.

    En alla sáttmála? Hvað með þá sem stangast á eða fjalla um sama hlutinn? Hvað með þá sem líta vel út en eru hræðilegir, eins og Mannréttindayfirlýsingu SÞ sem er svosem okei yfirlýsing en mannréttindanefndin sjálf er setin „mannréttindafrömuðum“ eins og Sádi Arabíu og Pakistan, Kúbu og BNA. Ég teldi það glapræði að setja Ísland í nokkra beina lögbundna tengingu við þau lönd á sviði mannréttinda – enda MSE mun álitlegri sáttmáli.

    Enn fremur þarf alls ekki alltaf að setja sáttmála í lög til að mark sé tekið á þeim, enda skulu dómstólar hafa sáttmála til viðmiðunar þó þeir séu ekki beinlínis bindandi réttarheimild. Sáttmálar snerta einnig oft aðeins svið framkvæmdavaldsins, þ.e.a.s. hvernig það hegðar sér gagnvart öðrum þjóðum, sbr. t.d. samninga um framsal fanga etc. .. þetta þarf ekki að setja í lög, þó um alþjóðlegan samning sé að ræða.

    Innleiða viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar mismunun.

    Þú leggur þetta fram eins og mismunun sé ekki bönnuð nú þegar. Raunar er mismunun bönnuð nú þegar, sbr. 65. gr. stjskr. sem segir alla vera jafna fyrir lögum – sem er *nákvæmlega* það sem 12. viðauki MSE talar um. Án 12. viðauka MSE er mismunun bönnuð aðeins á þeim sviðum sem MSE tekur til, en íslenska stjórnarskráin talar einmitt um það að allir séu jafnir fyrir lögum – hvers kyns lögum sem ríkja á Íslandi.

    Innleiða löngu tímabærarar tilskipanir í vinnurétti frá ESB.

    Satt, satt.

    Ganga í Evrópusambandið ekki síst vegna mannréttinda.

    ESB og MSE eru tveir ólíkir hlutir – en það má svosem færa rök fyrir því að ESB tryggi eins konar „efnahagsleg“ mannréttindi (sem hafa svosem ekki verið skilgreind sem slík), en að öðru leyti er ekki hægt að tengja ESB og mannréttindi svona beint. Kröfur ESB um mannréttindi eru helst um lýðræði, sem er jú skilyrði til að fá inngöngu í sambandið og annars að lönd séu aðilar að MSE og dauðarefsingar séu bannaðar.

    Status quo á Íslandi, með eða án ESB aðildar hvað varðar mannréttindi.

    Við megum ekki einangrast og forpokast meira en orðið er.

    Rétt athugað.

    Við verðum að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að það standist kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna.

    Tja það væri auðvitað ágætt, en helst yrði að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu til að það stæðist kröfur Íslendinga yfirleitt. Þetta er óvinsælasta kerfi nokkru sinni .. verðtryggingin er vinsælli. Það er hrópandi óréttlátt og þarf ekki spillingargosana og mannréttindasvívirðingana í „mannréttindanefnd“ SÞ til að segja okkur það.

    Það hefur þurft að breyta þessu fiskveiðistjórnunarkerfi lengi, löngu áður en nokkur úrskurður um það kom frá þessari nefnd SÞ. Um það er þjóðin sammála – en það er bara ekki vandamálið.

    Við eigum að tryggja eignarétt þjóðarinnar á orkuauðlindinni og ekki leigja nýtingarréttinn til meira en tíu ára.

    Sammála því, en það kemur jú alþjóðasáttmálum, SÞ eða lögleiðingu *allra* alþjóðlegra sáttmála ekki beinlínis við, ekki satt?

    Við eigum mikið verk fyrir höndum að aðlaga okkar að því besta sem gerist i veröldinni.

    Já, en það verður ekki gert ofan frá. Það þarf að koma frá okkar eigin hjörtum, „við“ verðum að vilja það. Minniháttar lagabætur er vel hægt að setja hverju sinni og sækja frá öðrum þjóðum, beint eða óbeint (gegnum alþjóðasamninga eða lögleiðslu með fyrirmynd í lögum annarra þjóða) – en að aðlaga okkur að því „besta“ í veröldinni er að biðja um breyttan hugsunarhátt.

    Hann verður ekki lögleiddur, amk. mundi ég ekki leggja mikið undir svoleiðis veðmál.

    Ég verð að viðurkenna að ég skil ennþá ekki inntak þitt – hvers vegna þarf að uppfæra íslenska mannréttindalöggjöf og gefa mannréttindum meira stjórnskipunarlegt vægi?

    Dæmi – önnur en SÞ úrskurðinn um fiskveiðar? Því kerfi mun verða breytt. Það er óhjákvæmilegt. Hvar er pottur brotinn í íslenskri mannréttindalöggjöf og hvar er fólki mismunað? Hvar eru mannréttindi þeirra að vettugi virt? Hvar er þörfin?

Höfundur