Þriðjudagur 22.02.2011 - 10:58 - Lokað fyrir ummæli

Sætuefni í mjólkurvörum!?

Fyrrum kollegi, blaðamaður og fyrrum talsmaður Flugleiða, nú Mjólkursamsölunnar, Einar Sigurðsson, sagði að markaðurinn vildi sætuefni og sykur í mjólkurvörur.  Sjálfsagt hefur hann rétt fyrir sér. Markaðurinn er sjáldnast gáfaður. Mín vitbók segir að sætuefni sé krabbameinsvaldandi efni.  Það er í svo litlum mæli segja menn. Þannig er það: Allt er í svo litlum mæli.  Þess vegna hrúga menn gúmmídekkjakurli á sparkvelli barna, setja sætuefni í skyrið, litarefni í reykt kjötið og nammið.  Brenna sporp svo leggur yfir byggðir.  Allt er í svo litlum mæli að það kemur ekki að sök. Og við  seljum tóbak í matvöruverslunum.   Á meðan deyr fjórði hver úr krabbameini yfirleitt eftir þjáningarfullt og erfitt ferli.  það er eins og við sættum okkur við þetta eins og við sættum okkur við bílslysin.  Hvernig væri að skera upp herör gegn öllum þeim efnum í umhverfi og í matvælum sem mögulega geta verið krabbameinsvaldandi.  Veita auknu fé í krabbameinsrannsóknir og bæta aðstöðu þeirra sem berjast á þessum vígstöðvum.  Hér er smæð okkar styrkur. Hér gætum við orðið í farabroddi. Hér gætum við bjargað mannslífum. Aukið lífsgæði margra.  Snaraukið hamingju.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Elvar Þormóðsson

    Textinn hér að neðan er ritaður í ágúst 2004. Gaman að sjá hversu áhrifaríkur hann reyndist…

    ——————————–

    Í gegn um tíðina hef ég oft velt fyrir mér markaðsmálum mjólkursamsölunnar. Í stuttu máli þá hef ég iðulega verið ósammála stefnu þeirra og fundist þeir of duglegir að sækja vatnið yfir lækinn.

    Mér er í fersku minni þegar þeir settu á markað „Súkkulaðimjólk“ fyrir þó nokkrum árum síðan. Vinur minn var afar hrifinn af súkkulaðimjólkinni. Ég sagði honum að hún yrði minna en ár á markaði, af þeirri einföldu ástæðu að þarna væru þeir farnir í samkeppni við sjálfa sig þar sem varan sem fyrir var á markaði mundi sigra, átti þar við Kókómjólkina.

    Nú, úr þessu fæddist veðmál sem ég vann. Súkkulaðimjólkin var á markaði u.þ.b. 8 til 9 mánuði ef ég man rétt. Kókómjólkin er enn þann dag í dag jafn vinsæl og þá. En hvernig stendur á því að maður úti í bæ sér þetta undir eins, en forsvarsmenn MS eru ekki að kveikja á perunni fyrr en eftir dúk og disk? Af svona misheppnuðu markaðsátaki hlýtur að verða tap og það talsvert. Tap sem væntanlega leiðir til hærra vöruverðs á þeim vörum sem áfram eru framleiddar.

    Vörur MS

    Mjólkurvörur eru nefnilega fáránlega dýrar. Ef ég man rétt, þá fær bóndi u.þ.b. 20 kr. fyrir mjólkurlítrann. Neytendur eru svo að fá lítrann á u.þ.b. 90 kr, þannig að augljóst er að milliliðir eru að taka allt of stóran hluta til sín. Þar fara mjólkursamlögin örugglega lang fremst í flokki, milliliðir eru jú bara þau og svo matvöruverslanirnar. Merkilegt að allar mjólkurvörur aðrar en helstu þrjár „mjólkirnar“ – Nýmjólk, Léttmjólk og Fjörmjólk, eru dýrari en gosdrykkir. Meira að segja kókómjólkin. Algengt verð á kókómjólk í sjoppum er 75 kr. – hálfur lítri á 150 kr. sem er aðeins dýrara en hið þó háa sjoppuverð á gosi.

    Nú hafa markaðsmenn Mjólkursamsölunnar aðeins séð að sér, á markaðinn eru komnar vörur sem eru talsvert söluvænlegri en ýmsar vörur sem þeir hafa komið með á markað áður, og þurft að hætta framleiðslu á innan skamms. En eftir standa þrjú atriði sem þarfnast lagfæringar.

    1. Of hátt verð
    2. Flestar vörur eru ofsykraðar og rúmlega það
    3. Ekkert val um stærð á einingum

    (1) Verð á 33 cl. Drykkjarmjólk og svipuðum vörum er í kring um 120 kr. Það þýðir 180 kr. á 50 cl. og 360 á lítra. Þó má reikna með að verð væri hlutfallslega lægra í stærri umbúðum. (3) En það er jú akkúrat vandamálið, þær eru bara ekkert í boði. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að kaupa t.d. Léttmjólk eða Fjörmjólk í hálfs lítra drykkjarflöskum? Hvernig væri nú fyrir markaðsmenn Mjólkursamsölunnar að líta til samkeppninnar og sjá hvernig þeir gera þetta. Það er akkúrat það sem vantar ef að mönnum er alvara í því að reyna að stuðla að meiri mjólkurdrykkju á kostnað gosdrykkju. Það verður að vera aðgangur að mjólk í samskonar umbúðum og á þolanlegu verði.

    (2) Sykurleðjurökin þekkja allir, nóg er að lesa á umbúðir af einhverjum vöruflokka MS til að sjá að í langflestum tilfellum er sykri ausið út í vörurnar í ótæpilegu magni. Þar endum við aftur í ósk um léttmjólk í hálfs lítra flöskum.

    Svoleiðis pakkningar mætti líka setja í sjoppur.

    En nei, litlar ofsykraðar og of dýrar pakkningar, það er það eina sem markaðsmönnum mjólkursamlaganna dettur í hug.

  • Sammála því að of mikil sætindi í mjólkurvörum er vandamál. En hvernig færðu út að „sætuefni sé krabbameinsvaldandi efni“? Heldurðu að matvælaeftirlitið myndi leyfa þeim að selja vörur með viðbættum krabbameinsvalda? Sykur er vissulega orkugjafi og þarfaleiðandi orkugjafi fyrir krabbameinsfrumur, og fitandi og feitt fólk fær örugglega meira krabbamein en aðrir. En varðandi gerfisætuefni þá eru engar rannsóknir sem sýna að sætuefni séu krabbameinsvaldandi eða neins annars valdandi. Enda náttúrleg efni sem brotna niður í sameindir sem líkaminn notar dags daglega t.d. aminosýrur.

  • Sykursjúkur og tannlaus

    Bandarísk beittu miklum lobbíisma og þrýstingi til að fá gervisætuefnin lögleidd upp úr 1970. Minnir að Rumsfeld hafi farið þar fremstur í flokki.
    Sá í norska sjónvarpinu Sérfræðing benda á að sykurneyzla barna og unglinga brýtur niður fyrsta fíknar „varnarmúrinn“ og gerir eftirleikinn auðveldari fyrir tóbak alkahól osfrv.

  • Oh sorrí bandarísk stórfyrirtæki.

Höfundur