Föstudagur 25.02.2011 - 09:47 - Lokað fyrir ummæli

ESB: Þá verður gaman að lifa….!

Eitt það augljósasta við ESB inngöngu er að kjör alls almennings munu batna.  Verð á matvælum mun lækka og framboðið verður miklu fjölbreyttara (hvar gróf menntamálaráðherra upp þennan aðstoðarmann sinn- hann hefur kannski verið grafinn upp i orðsins fyllstu merkingu?).  Kannski verður hægt að fá mjólkurafurðir án eitur sætuefna.  Þá verður gaman að lifa (Lára mín).  Þá förum við út í búð, ég og konan, og kaupum hollenska osta, danskar svíanlundir og spánska skinku og á ferðum okkar erlendis gæðum við okkur á íslensku lambakjöti og dísætu skyri sem hefur lagt undir sig evrópumarkaðinn.  Verst hvað maður er orðinn andskoti gamall.  Sennilega of seinn til að fá vinnu í Brussel.  Verð að láta mér nægja að vera byrði á skattborgurum í núverandi embætti, embætti ríkisklerks eins og þeir orða það svo virðulega vantrúarmenn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Sigfinnur Þór

    Var gaman þegar Danir réðu öllu hér? Ætli það verði ekki eitthvað svipað ef við álpumst í þetta bandalag fyrrverandi og núverandi nýlenduríkja/kúgara.

  • Bragi Páls

    Góður punktur, Sigfinnur Þór.

    Gangi Ísland í ESB verður Alþingi Íslendinga einungis afgreiðslustofnun fyrir tilskipanir frá Brussel.

    Einnig verður það svo, að ef við tökum upp Evru, þá verður vinnumarkaðurinn það efnahagslega sveiflujöfnunartæki sem krónan er núna.
    Þetta þýðir í praxís, að þegar samkeppnishæfni Íslenskra fyrirtækja versnar, þýðir það að segja verður upp fólki í hagræðingarskini til að bæta samkeppnisstöðu Íslenskra fyrirtækja sem keppa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði.
    Þetta mun þýða að hér verður ALLTAF eitthvað viðvarandi atvinnuleysi, sama hvernig árar, líkt og í öðrum ESB-löndum.

    Hvernig ætla þeir kumpánar í verklýðsstétt, þeir Guðmundur Gunnarsson og Gylfi Arnbjörnsson, tveir áköfusta ESB og Evru-sinnar hér á landi, að selja sínum umbjóðendum svona lagað?

    Þannig er það, að þeir sem tala hvað ákafast fyrir ESB-aðild, eru venjulega þeir, sem ekki munu vera meðal þeirra sem verða notaðir sem efnahagslegt sveiflujöfnunartæki.
    Þessir álitsgjafar eru t.d. fólk úr fræðasamfélaginu, fólk sem vinnur hjá því opinbera, fólk sem almennt er í stöðum sem krefjast háskólamenntunar, listamenn og rithöfundar, fólk í valdastöðum, fólk sem rekur fyrirtæki, osfrv.

    M.ö.o. það fólk sem verður efnahagslegt sveiflujöfnunartæki við ESB-aðild og Evru-væðingu, er fólk í framleiðslugreinum, sem sagt verkalýðurinn, sem kemur þá til að missa vinnuna þegar harnar í ári.

    Það þýðir lítið að segja atvinnulausu fólki að það hafi það betra af því að Ísland sé í ESB og sé með Evru.
    Atvinnuleysi er böl og kostar mikla peninga enda sóun á verðmætum.

    Látum ekki slíkt yfir okkur ganga. Segjum nei við ESB.

  • Einar Jörundsson

    Neytendavernd og framfarir í matvælaöryggismálum eru nátengd samingum við ESB. Matvælaverð mun væntanlega lækka og aðgengi að ýmsum vörum batna. Mikilvægast þó, er að viðvarandi ójöfnuður og síendurtekin kjaraskerðing sem felst í að nota gengi og gjaldmiðil sem sveilfujönunartæki líður undir lok. Sem fyrr mun þó reyna á stjórnvöld á Íslandi m.t.t. efnahagsstjórnunar – það verður einfaldlega minna svigrúm til ævintýramennsku í ríkisfjármálum … sem er hið besta mál.

  • Bragi Páls

    Sem sagt, Einar Jörundsson, vinnumarkaðurinn verður þá sveiflujöfnunartæki, með viðvarandi háu atvinnuleysi (ca. 7-9%) og tilheyrandi kostnaði??

    Þú segir; að matvælaverð muni væntanlega lækka, án þess að útskýra það nánar.

    Geturðu rökstutt þessa fullyrðingu þína nánar?

    Vil reyndar minna þig á, að mikil gengisstöðugleiki var hér á árunum 1991-2008, einungis minniháttar sveiflur, svo ekki var um kjaraskerðingum af þeim sökum að ræða.

Höfundur