Þriðjudagur 08.03.2011 - 14:53 - Lokað fyrir ummæli

Thor væri óskiljanlegur….

Ég fór að kíkja og ég sé að ég á margar bækur Thors.  Ég man hvernig því víkur við.  Á þrítugsaldri var mér umhugað um að upptrekkja bókmenntasmekk ættarinnar og gaf nánum ættingjum bók eftir Thor Vilhálmsson á jólum. Oftar en ekki hélt ég á gjöfinni heim með þeim orðum þiggjanda að hún væri betur komin hjá mér – Thor væri óskiljanlegur.

Samt las ég þær fæstar og er ef til vill einbeitingaskorti um að kenna. Og þó, Grámosinn lifir í huga mér, andblær hans settist þar að. Það er þannig að maður man göngu yfir úfið hraun betur en rölt yfir sléttan mel.  Og í nótt rifjaði ég upp Turnleikhúsið.  Ég var sendur með það heim aftur og sofnaði út frá því á jólanótt og síðan hefur mannþröngin í við leikhúsið og í andyrinu og uppgangan í turninn fylgt mér með sínum þröngu göngum, veggmyndum og ólíkinda andrúmslofti. En ég kláraði bókina aldrei.  Nú skal hún kláruð og endurútgáfu á verkum Thors beðið svo ég geti gefið nýrri kynslóð ættmenna gjafir sem gætu útvíkkað innra rými heilans og gert hann að notalegri stað til að vera á.  Því að Thor var og er snillingur.

Mér finnst leitt að hafa aldrei kynnst Thor persónulega.  Sem blaðamaður tók ég aldrei viðtal við hann. Mér var aldrei trúað fyrir neinu öðru en pólitík á meðan gáfumenn á borð við Egil Helgason sáu um aðra gáfumenn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hólmfríður Pétursdóttir

    Mér finnst Thor hafi málað myndir með orðum. Myndir sem lesandinn gengur inn í með sögupersónunum.
    Í Grámosanum fannst mér ég vera í kvikmynd, og réði engu um söguna, en nokkru um umhverfið.
    Ég var lengi í þessum heimi og bakkaði og las aftur heilu kaflana eins og ég ætlaði að endurgera myndina seinna.

  • Fæstar af sögum Thors eru skáldsögur í eiginlegri merkingu þess orðs. Og enginn þeirra snilldarverk í þeim skilningi.
    En, nánast hver einasta blaðsíða sem gefin hefur verið út eftir Thor inniheldur prósa sem er ofarlega á heimsmælikvarðanum. Svo er það okkar að raða þessu saman. Þar er áskorunin sem listamaðurinn Thor færði okkur ótýndum lesendum. Og það er ekkert smáræðis verkefni; og ekki lítill unaður.

    Þér var trúað fyrir litlu, segir þú Baldur. En yfir eitthvað varstu þó settur? -Eða hvað?

  • Gagarýnir

    Thor var vegna ættartengsla, skoðana og smá hroka settur sem Jokerinn í íslenskum bókmenntum.
    En ég held að hann sé ekkert óskiljanlegur. Hann talaði auðskiljanlega og ég hvet menn til að sleppa fordómum um og taka verk hans eins og þau eru.
    Sérstaklega ungt fólk.
    En sem persóna var hann óskiljanlegur en eru ekki allir það?
    Var það ekki meining hans?

  • Þórdís B

    Það er gaman að segja frá því að hafa hitt Thor oftar en einu sinni og heyrt hann segja frá því þegar hann og Hemingway vou samtímamenn í París.
    Þetta er það sem greip mig, þegar ég sá annan marz 2011 að hann væri allur:
    Goðsögn, hippi, mannvinur
    Fyrir utan að vera snilli, var Thor goðsögn, hippi, mannvinur.
    Larger than life – soldið eins og hvítrússinn Kirk Douglas – nema flottari.
    Ég á nokkrar bækur hans áritaðar af jöfurnum sjálfum.
    Þær set ég nú umsvifalaust á eBay og sel hæstbjóðanda.
    Síðan kaupi ég Suðurhafseyju og verð þar í hengirúmi, með núbískan þræl að veifa pálmablaði yfir mér, á bleiku bikini, með kórónu.
    Og segi þegar lífsstílstímarit líta við:
    Þetta er það sem Thor hefði viljað.

Höfundur