Miðvikudagur 30.03.2011 - 17:10 - Lokað fyrir ummæli

Segjum Já við Icesave!

Hrunið hófst með biskupstíð Sigurbjarnar Einarssonar 1959 sagði Kristinn Jens Sigurþórsson guðfræðingur og snillingur í Saurbæ og vitnaði þá til þess að með Sigurbirni hefði frjálslynda guðfræðin sem lagði áherslu á Jesú sem siðaprédikara vikið fyrir Jesú hinum krossfesta og upprisna og þar með áhersla færst frá veraldlegum siðaboðskap yfir í hið háleita og tímalausa eðli guðdóms og tilveru.  þjóðin þar með’ hafið hinn siðhallandi dans um gullkálfinn (þó fjarri fari því að það hafi verið ætlun nokkurs).  Þetta er skýringartilraun, sennilega sett fram bæði í gamni og alvöru og til að undirstrika stærð kirkjuhöfðingjans, og leitar orsaka í andlegri deiglu og sennilega á þetta tímabil í íslenskri kirkju og samfélagssögu eftir að verða tengt minningu Sigurbjörns um langa hríð, slíkur tímamótamaður sem hann var.  En má þá ekki fara enn lengra aftur og rekja hrunið allt aftur til hernámsins 1940 þegar hin fátæka, íslenska afdalaþjóð komst að því að þræla mætti sér út fyrir peninga í staðinn fyrir að þræla sér út fyrir ekki neitt og hóf velmegunargönguna sem var samhliða göngunni úr sveitum landsins á suðvesturhornið en það er svo ekki fyrr en en kynslóðin sem fædd er eftir stríð og hafði alist upp í stórum görðum í vesturbænum en ekki moldarhraukum að græðgin tekur völdin og þjóðin svo stutt komin að lögfræðingar úr sömu smiðjunni réðu lögum og lofum eins og títt er í  nýríkjum sem þurfa að byggja upp lagaforða sinn en eru ekki komin á það stig að lúta viturra manna ráðum.  Því fór sem fór og mér fer sem fleirum að ég er hættur að geta skrifað um ósköpin og óttast að þjóðin eigi sér ekki viðreisnar von.

Ég held samt að góð og vitur öfl gætu hér orðið ráðandi sérstaklega ef við hættum öllum heimóttarskap og þjóðernisrembingi, semjum um Iseave, göngum í Evrópubandalagið og komum auðlindum þjóðarinnar í hendur hennar sjálfrar.  Mér sýnist að hættulegustu óvinirnir á þessari leið séu þeir sem standa yst til vinstri og yst til hægri þ.m.t. stærsta sneiðin af hinum fyrrum hófsama og gæfa Framsóknarflokki og kem þeirri orsendingu á framfæri hér að aldrei hafa ráð þeirra sem standa á köntunum gefist nokkurrri þjóð vel.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Guðmundur

    Auðvitað NEI við Icesave

  • aagnarsson

    Mesta gæfa Íslendinga væri að fá frjálsar handfæraveiðar,
    það myndi leysa byggða, fátæktar og atvinnuvanda Íslendinga,
    FRELSI er það sem vantar, ekki nýjar lántökur gjaldþrota þjóðar!

  • Á 19. öld kom fram í sviðsljósið maður sem öðrum fremur lyfti þjóðinni uppúr heimóttarskap, volæði og þjónkun við erlent vald og innrætti landsmönnum þau gildi að vera stoltir af landi sínu, sögu og menningu. Hann ber því að nokkru ábyrgð á þeim meinta þjóðernisgorgeir sem blundar í brjóstum Íslendinga. Og þessi ágæti maður, Jón Sigurðsson var svo hrokafullur í baráttu sinni fyrir íslenskum málstað, að hann bjó sér til vígorðin „eigi skal víkja“. Árangur af þrotlausu starfi hans og fjölmargra samherja skiluðu um síðir frelsi og fullveldi landsins.
    En nær öld síðar eru til þeir Íslendingar sem enn eru uppfullir af heimóttarskap, falla á kné frammi fyrir gömlum nýlenduherrum, skelfast við hótunum þeirra og af þrælslund játast undir afarkosti til þess að kaupa sér frið og velvild. Og enn eru þeir til sem mæla með frelsis og valdaafsali til miðstýrðs ríkjasambands og meta það meir en þann rétt þjóðarinnar að ákvarða sjálf stöðu sína og framtíð.
    Hverjir eru þá þegar öllu er á botninn hvolft hættulegustu óvinirnir á þeirri leið sem er framundan í lífi þjóðarinnar? Sá sem segir já við öllu því sem að honum er rétt eða hinn sem sýnir þá staðfestu að geta sagt nei þegar það á við.

  • Svartháfur

    Nei

Höfundur