Þriðjudagur 05.04.2011 - 22:35 - Lokað fyrir ummæli

Röksemdir fyrir Jái eru á hverju strái!

Að mínum dómi vanmeta Íslendingar Evrópuákvæðið sem  bannar  að mismuna fólki eftir þjóðerni eða ríkisfangi. Mörgum  finnst þetta eitthvað sem hægt er að rífast um og sleppa með. Mín reynsla er sú að ákvæði af þessu tagi hafi miklu meiri vikt á meginlandi Evrópu en í umræðunni hér.  Þar  taka menn slík ákvæði alvarlega.  þau er að finna ekki bara í  ákvæðum ESB og Evrópska efnahagssvæðisins heldur eru líka kjarnaatriði í Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindasáttmála Sameinu Þjóðanna og raunar í öllum sáttmálum og raunar löggjöf allra ríkja okkar heimssvæðis þ.m.t. Íslands og eru í stjórnarskrá. Að miklar líkur sé á því að við sleppum fyrir horn í þessu tilliti komi til dómsmáls er að minu viti innistæðulaus bjartsýni.  Skiptir engu að mínu viti þó að hér hafi að dómi stjórnvalda verið um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir að ræða á erfiðum tímum. Þetta enn ein röksemd mín fyrir jáinu, en þær eru raunar fjöldamargar ekki síst þær að íslensk stjórnvöld hafa margsinnis lýst því yfir að við ætlum að standa við okkar og í fyrirliggjandi samningi er byggt á því að þjóðirnar þrjár skipti með sér byrðunum. Það er svo Íslendinga að sækja peninganna í hendur mannanna sem gleymdist að hafa eftirlit með og voru valdir í einkavæðingaferlinu til að eiga Landsbankann.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hvernig sem já-sinnar eða nei-sinnar velta Icesavemálinum fyrir sér og ræða „dómstólaleiðina“ eða aðra mögulega niðurstöðu þessa máls þá er í raun aðeins ein leið til að meta það.

    Hver sá sem ætlar að kjósa ætti að setja sig í spor þess sem málið snýst um. Það er hinn venjulegi sparifjáreigandi.

    Allir sem setja fé á bankareikning ætlast til þess að peningarnir séu til staðar þegar þeim hentar að taka féð út aftur. Bankar verða að vera öruggar stofnanir, jafnvel þótt þeir hafi verið einkavinavæddir.

    Þetta er svo augljóst að það ætti varla að þurfa að benda á þetta – en í öllum látunum kringum þetta mál þá er eins og að sumir hafi gleymt þessari grundvallarreglu.

    Í samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir á mörgum sviðum þá gilda reglur sem banna mismunun eftir þjóðerni eða búsetu. Banki má ekki mismuna Englendingi sem býr í Reykjavík og geymir sitt sparifé í útibúi bankans í Reykjavík gagnvart Englendingi sem býr í London og geymir sitt fé í útibúi sama banka í London. Sama gildir um Íslendinga sem búa á Íslandi eða í Englandi. Allir innistæðueigendurnir skulu eiga sömu réttindi og sofa því sælir í sínum heimabæ.

    Þetta er grundvallarreglan í Icesavemálinu. Nú er ljóst að neiti Íslendingar að ganga frá málinu með fyrirliggjandi samningi þá eru þeir að segja að þessi regla sé ekki í gildi. Það má mismuna.

    Sömu aðilar virðast aðallega byggja afstöðu sína á því að það sé verið að kúga þá til að borga „ólögvarðar einkaskuldir óreiðumanna“. Jafnaðarreglan sem samskipti Íslendinga við aðildarþjóðir EES-samningsins byggðist á er skyndilega orðin „kúgun“ (fyrrum nýlendukúgara, útlendinga etc.).

    Íslenskt innistæðutryggingakerfi brást, bæði gangvart íslenskum innistæðueigendum á Íslandi og innistæðueigendum Landsbankans erlendis. Íslenska ríkið hljóp undir bagga og tryggði innistæður hér heima. Og nú er búið að semja um að íslenska standi með sama hætti að baki tryggingasjóðnum gagnvart erlendum innistæðueigendum. Sem betur fer þá duga eiginir þrotabús Landsbankans næstum fyrir allri greiðslunni.

    Segjum já!

Höfundur