Allt frá því að pabbi minn sagði mér að halda með Val þegar ég var fimm ára á Melavellinum hef ég haft taugar til Fram. Ég var reyndar í Val lengi vel vegna búsetu en skipti formlega yfir uppúr þrítugu og lagði Fram m.a. til ágætis leikmann upp í gegnum alla yngri flokkana. Fram er hvorki pempíulegt KFUM lið eða auðvaldslið úr Vesturbænum heldur lið harðgerra stáka sem ólust upp á hörðum malarvellinum undir Sjómannaskólanum og lærðu m.a. fyrir tilstilli Ásgeirs heitins Elíassonar að spila skemmtilegan samspilsfótbolta og áttu í áraraðir brillíant lið og brillíant yngri flokka. En hvað er nú að ske? Með einni eða tveimur undantekningum höfum við legið við botninn á Úrvalsdeildinni síðastliðin tíu ár. Þegar best hefur gengið höfum við átt miðlungsúrvalsdeildarlið sem spilar engan sérstakan bolta og virðist ekki byggja á neinum sérstökum kjarna? Af hverju erum við ekki meðal þeirra allra bestu? Af hverju er Framliðið ekki uppfullt af hæfileikaríkum strákum uppöldum í Safamýrinni sem láta boltann renna á milli sín í grasinu þangað til léttleikandi framherjinn sendir hann framhjá markverði andstæðinganna í netið og maður stekkur upp úr sæti sínum af einskærum fögnuði? Okkar besti maður kemur úr Þorlákshöfn af öllum stöðum. Eigum við svona fáa unga menn? Erum við svona fátækir? Hvað er í gangi. Þetta verður að lagast áður en menn eins og ég ánetjast Breiðabliksliðinu sem spilar einfaldlega langskemmtilegasta boltann. Og við höfðum Ólaf Kristjánsson þjálfara þeirra eitt sumar og meira að segja hann gat ekki lappað upp á þetta Framlið. Ég er alveg að gefast upp. Mér líður eins og Liverpoolaðdáenda en það er ég sem betur fer ekki.
Já, Baldur, satt segirðu. Það er af sú tíð þegar besta vörnin í deildinni var miðjan hjá Fram og liðið skilaði titli á hverju ári. O tempora…
Ég er aðdáandi Liverpool FC og líður alveg prýðilega.
Af ummælum þínum ofan líður þér ekki sem best. Ástand þitt virðist koma í veg fyrir að þú getir metið andlegt ástand okkar aðdáenda LFC.
Ég óska þér alls hins besta í þessu erfiða ástandi.
Rétt að minna á auðvaldsliðið er löngu flutt úr vesturbænum en lista og menntafólk flutt í staðinn sem styður VG og samfylkingu.
Það er ekkert í gangi hjá Fram. Það er meinið.