Föstudagur 27.05.2011 - 10:10 - Lokað fyrir ummæli

Thai-Íslendingar!

Innflytjendur eru ekki einsleitur hópur.  Sumir eru frá Thaílandi, aðrir frá Póllandi, enn aðrir frá Danmörku og svo framvegis og svo framvegis.  Sérhver hópur ber með sér sérstaka menningu sem mikilvægt er að einstaklingar innan hans  fái að rækta og viðhalda jafnframt því að tileinka sér hina nýju menningu.  Sá sem flytur til nýrra heimkynna og hans afkomendur í marga ættliði verða börn tveggja landa/þjóða/menningar.  Ég tek eftir því að afskaplega margir fara reglulega með mökum sínum og börnum til gamla landsins og halda við það góðum tengslum.  Nútíma samgöngur gera slík samskipti mjög auðveld. Og fólk heldur um marga ættliði áfram að vera Thailendingar en verður með hverju augnabliki meiri og meir Íslendingar.  Þetta á ekki að vera af eða á.  Við tölum um nýbúa, innflytjendur, nýkomna.  Við ættum að draga úr slíkum samsteypuorðum og fara að tala um Thai-Íslendinga, Pólska Íslendinga, Kínverska Íslendinga og svo framvegis. Það væri í samræmi við það að Bandaríkjamenn tala um Afríkanska Ameríkana og vitna þá til þeirra sem eiga rætur sínar í Afríku. Og í framtíðinni verður væntanlega til mikið af Norskum Íslendingum eða íslenskum Norðmönnum hvernig sem við viljum hafa það.

Á næstunni mun ég skrifa um þau mörk sem þarf að setja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Friðrik Tryggvason

    Ég bý í Kanada og þar heyrir maður aldrei neitt svona, þar eru menn bara Kanadamenn og basta.

  • Halla Sverrisdóttir

    Einhvern veginn finnst mér þetta vera þannig að fólk sem hér býr en er með upprunalegt ríkisfang sitt sé bara Tælendingar, Danir, Pólverjar,Pakistanar og svo framvegis sem búa á Íslandi. Þegar fólk sækir um (og fær vonandi yfirleitt vandræðalaust) ríkisborgararétt lít ég á það sem Íslendinga, sama hvað það hefur búið hér lengi eða hvaðan það kom. Þar með þurrkast auðvitað ekki út annar uppruni þess, enda gerir fólk af margs konar uppruna og úr margs konar menningarheimum lífið hér betra og skemmtilegra. Ég er ekki viss um að mér hugnist að tala um Thai-íslendinga eða Pólska Íslendinga, mér finnst það ýta undir flokkun og dilkadrátt (sem ég veit að sá sem hér ritar hefur engan hug á). Þarf endilega að skilgreina fólk svona nákvæmlega? Þetta er snúið. En nýbúi, innflytjandi, aðfluttur Íslendingur – þetta finnast mér slæmar skilgreiningar á fólki.

Höfundur