Mánudagur 30.05.2011 - 11:03 - Lokað fyrir ummæli

Að reisa Ísland úr rústum!

Í raun og veru eru ekki til nema tvær stjórnmálastefnur jafnaðarstefna sem byggir á að forsenda góðs samfélag og góðs mannlífs byggi á jöfnuði meðal fólks. Þess vegna beri að halda jöfnuði fram fyrst.  Síðan er frjálshyggjustefna sem byggir á því að ójöfnuður leiði af sér bestu útkomuna fyrir alla þegar upp er staðið.  Þess vegna komi frelsið fyrst.  Samfylkingin annars vegar og Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar standa fyrir þessar tvær grundvallarstefnur.  Eðlilega eru málsvarar jafnaðarstefnu  við völd þegar við byggjum upp nýtt Ísland eftir að Ísland hrundi með hina síðarnefndu við stýrið.  Jafnaðarmönnum virðist vera að takast hið sögulega ætlunarverk sitt að reisa Ísland úr rústum.  Spyrja skal þó að leikslokum.

Ekki verður séð að Vinstri grænir eða Framsóknarmenn hafi annað hlutverk en að styðja við helstu merkisbera grunnstefjanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Sjálfsagt er útlegging þín viturlegri, enda var ég bara að lýsa raunveruleikanum (efnisheiminum).

  • Er samfylking að leiða Ísland úr þeirri krísu sem flokkurinn átti hvað stærsta sök á að koma landinu í? varla. Með sama áframhaldi verður verðbólgan í lok árs 10%. Allir vita að gengi krónunnar er að veikjast. Atvinnuleysi er stöðugt í 8%-10% síðustu tvö árin, lítið að rofa til þar. Opin og gegnsæ stjornsýsla hljómar í dag eins og lélegur brandari á miðað við það sem á undan er gengið.

    Það er ekkert sjálfsagt eða eðlilegt að jafnaðarmannaflokkur á borð við samfylkinguna sé í stjórn á svona tímum. Flokkurinn skilur ekki að efnahagsþrengingarnar verða ekki leystar nema með öflugu atvinnulífi. Það er ekkert að gerast í þeim efnum.

    Réttlæti samfylkingarinnar felst í að seilast með höndina enn dýpra í sparnað landsmanna, lífeyrissjóðina. Nú á ofan á allt saman að skattleggja þá líka. Kannski ekkert óeðlilegt í skjóli stöðunnar, það er í raun ekkert annað að skattleggja en uppsafnaðan sparnað landsmanna, sem þó er búið að skatta einu sinni og verður síðan skattaður aftur þegar þeir sem eiga tilkall til peninganna sinna fara að fá þá greidda út. Nú kemur flokkur jafnréttis, frelsis og bræðralags og ætlar að fullkomna þrennuna með enn einni skattlagningunni á þennan sparnað alþýðunnar.

    Það er með ólíkindum hvernig þetta samfylkingarlið getur falið sig á bakvið að hafa verið sjálft við stjórnvölin frá því í júní 2007 og þangað til stjórnin féll í ársbyrjun 2009. Er eitthvað sem samfylking er hrædd við að viðurkenna? Kannski þá staðreynd að bankamálaráðherrann þáverandi situr enn á þingi, fyrir samfylkinguna? Jóhanna og Össur sátu bæði í ríkisstjórn sem mikilvægir gerendur í því sem fram fór á meðan bankarnir söfnuðu innistæðum til að brenna upp á báli. Af hverju vill samfylking ekki gera þennan svarta blett jafnaðarmanna upp eins og almennilegt fólk?

    Að halda því fram að jafnaðarmönnum sé að takast eitthvað er eins fjarri sannleikanum og hægt er. Hið rétta er að samfylking situr í óvinsælustu ríkisstjórn lýðveldissögunnar, sem situr sem fastast, jafnvel þó stjórnarliðiar séu aldrei sammála um eitt eða neitt.

    Það þarf mikið sjálfhól og sterk bein til að geta talið sjálfum sér og öðrum trú um að samfylking sé á réttri leið.

Höfundur