Þriðjudagur 05.07.2011 - 11:07 - Lokað fyrir ummæli

Kynferðisglæpamaður eyðileggur líf – úr líkræðu!

Hún  andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands  ……….  Hún fæddist árið 1932 og var því á 78. aldurári er hún lést.  Foreldrar hennar voru ……. og hún fjórða í röð systkina. Hún er fædd við Vesturgötu í Reykjavík.  Af þessum systkinahópi lifa nú aðeins tvö elstu ……… Tvö systkini missti hún ung og einn bróðirinn drukknaði síðar.  Hún veiktist alvarlega og börnin öll af kíghósta þegar hún var tveggja og hálfs árs, þá dó systir hennar örlítið eldri og hún mjög hætt komin.  Um svipað leyti flytja foreldrar hennar að ……….. eftir að hafa búið víða í leiguhúsnæði. Fátæktin á þessum árum í Reykjavík var óskapleg…………

Það þarf ekki að lýsa því áfalli sem fjölskyldan verður fyrir er heimilisfaðirinn deyr úr berklum aðeins 32ja ára gamall…………..þau hjónin voru byrjuð að koma undir sig fótunum. Hann dugnaðarforkur og hafði verið í fastri vinnu, eftirsóttur, vann til sjós og lands. Það var afrek á tímum þegar menn fjölskyldufeður stóðu í biðröðum eftir vinnu og var snúið slyppum og snauðum heim dag eftir dag, mánuð eftir mánuð. Kreppan læsir þegar hér var komið klóm sínum um íslenskt þjóðfélag.  Heimilisfaðirinn greinist veikur af berklum og er lagður inn á Vífilsstaðahæli, nær að komast þaðan út í vinnu, sennilega of fljótt og meinsemdin tekur sig upp aftur og í þetta sinn deyr hann. Skelfilegt áfall.  Móðirin bjó áfram með barnahópinn ……………..  Þetta var óskplega erfitt hjá ekkjunni, ekknastyrkurinn dugði ekki fyrir mat og hún var að reyna að vinna úti frá börnunum, þurfti þá að skilja þau eftir ein og fá lánað hjá kaupmönnum.  Húsnæðið var kalt, aðeins hiti frá kolaeldavél í eldhúsinu, herbergin ísköld. Útikamar eins og um alla Reykjavík. Vatnssalernin voru komin það var bara eingin viðleitni hjá mönnum að innleiða þau. Það var óskapleg fátækt í Reykjavík á þessum tíma.

En ,,Hún“ er þróttmikið barn. Byrjaði að ganga níu mánaða gömul, líkamlega kröftug, frísk og fljót á fæti, fljót að hlaupa, tók þátt í hlaupum með jafnöldrum sínum. Hún var hins vegar fáskiptin, erfði skapgerð föður síns enda hélt hann óskaplega mikið upp á hana og bar mikla umhyggju fyrir henni.  Hún sótti skólann, Miðbæjarskólann, sóttist sæmilega.

 En ,,Hún“ fermist ekki. Áður en þeim aldri var náð hafði hún orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu fullorðins  manns.  Það veit raunar enginn hvað gerðist eða hver átti í hlut en áfallið var staðreynd, leyndi sér ekki.  Hann kom þegar móðirin vann á næturvöktum….. Það mál upplýstist aldrei og hún náði sér aldrei.  Sjúklingur var hún upp frá því. Geðtruflun greinileg upp frá því segir mér bróðir hennar.

Hún býr með móður sinni og bróður en er uppkomin komið fyrir á heimili á………………………

…………….Í raun og veru var Hún eins og stórt barn og þurfti stðuðning og hjálp og vinsamlegt umhverfi.  Hér fékk hún það. Hún hafði hlutverk. Sótti kartöflur, sótti mjólk, vaskaði upp, valsaði um, átti hér heima. Hún fékk að sinna því sem hún hafði áhuga á að gera og gat gert.  Henni leið vel. Var í umhverfi sem hún réði við og naut ástar og umhyggju þeirra sem umgengust hana. Hún naut sín hér ef svo má segja…………..Hún geislaði alltaf af fögnuði þegar ………bróðir kom og þótti undur vænt um hann. Hann heimsótti hana reglulega, færði henni gjafir, gaf henni oft garn. Hún prjónaði mikið, síprjónandi.  Hún gat verið gríðarlega skemmtileg í tilsvörum, bjó þá til eftirminnilegar setningar sem geymast í minni …………  Já, Hún skilur eftir sig miklar og góðar minningar. Henni samdi vel við alla, öllum þótti gríðarlega vænt um hana. ………………..  Hér fékk hún þá umönnun og það umhverfi sem hún átti skilið.

Hún veikist 2001 og nær aldrei fullri heilsu eftir það .þó líðan hennar hafi oft verið bærileg. Hún kvartaði ekki.

Hún  elst upp í sárri fátækt og verður fyrir áfalli snemma í lífinu sem sennilega mótar allt hennar líf.  Seint verður sagt að hún hafi verið borin um á englavængjum. En hún naut vissulega föðurástar í bernsku og móðurástar og með þeim systkinum var kært. ……………..

Ég tilkynnti um málið til barnaverndaryfirvalda í Reykjavík eins og mér ber.  Svona mál eiga ekki og mega ekki fyrnast.  En þó að líkræða sé út af fyrir sig opinbert plagg, flutt í heyranda hljóði þá vil ég ekki birta hana með nöfnum á bloggsvæði mínu og þá kannski af tillitssemi við ættingja.  Fáir utan bróður hennar vissu um lífshlaup hennar við útförina.  Glæpurinn var löngu gleymdur og segja má að kirkjugestir hafi orðið fyrir áfalli.  Lífshlaup þessarar stúlku hefur sótt á mig og ég tel það þjónustu við lífið að koma frásögninni frá mér.

p.s. Síðan ég kom þessu á framfæri hefur ættingi sem ég hef ekki hitt haft samband við mig, þakkað mér fyrir,  en tjáð mér að saga mín sé ekki rétt í öllum atriðum – raunveruleikinn sé hrikalegri ef eitthvað er.  Ég mun gera því skil síðar með virðingu við  hina látnu konu í huga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur