Mánudagur 10.10.2011 - 10:26 - Lokað fyrir ummæli

,,Skriftamál uppgjafaprests“

Ég fylltist óhug yfir sjónvarpinu í gær og sit hér morguninn eftir sem lamaður. Hvílík skepna hefur þessi biskup verið.(Þetta er upphrópun sem varla á rétt á sér. Maðurinn hefur verið sjúkur – BK)

Af því litla sem ég kynntist fjölskyldu hans fannst mér fjölskylda hans mjög elskuleg og góð, fyrirmyndarfjölskylda.

Ebba konan hans er virkilega góð kona og elskuleg.

Sjálfur kaus ég aldrei Ólaf. Var ekki orðinn prestur þegar hann fór fram í fyrra sinnið 1981 og kaus Sigurð Sigurðarson í kosningunum 1989. Það duldist hins vegar engum að Ólafur var mjög öflugur í hópi presta, sérstaklega Reykjavíkurpresta, og vinsældir hans sem sóknarprests í Reykjavík voru ótrúlegar.

Hann var dáður og elskaður af þúsundum manna sérstaklega í Bústaðasókn. Hann var líka uppáhald ráðamanna og fékk alltaf orðu við hvert þrep í metorðastiganum. Þegar hann varð prófastur. Þegar hann varð vígslubiskup. Þegar hann varð biskup.

Ráðamenn meðan ég var biskupsritari voru persónulegir vinir hans.

Sennilega get ég þakkað Davíð Oddssyni það að ég varð aldrei mikill ráðgjafi Ólafs ( fyrir utan það að vera af annarri kynslóð og með afleitar hugmyndir). Vigfús Þór Árnason prestur hafði eftir Davíð svo að margir hlýddu á eftir að ég var ráðinn: ,,Ég skil ekkert í Ólafi að vera að raða í kringum sig þessum kommúnistum.“

Ólafur varð svo ráðvilltur að hann vissi ekkert hvað átti að gera við mig næstu mánuði.  Dómur Davíðs gat verið dauðadómur.

Ég varð þó aðstoðarmaður hans. Undirbjó mál. Sá um samskipti við presta og leikmenn. Sá um erlend samskipti. Svaraði blaðamönnum og var staðgengill hans í stjórnsýslulegum efnum. Það fólst einkum í því að undirrita alls kyns pappíra þegar Ólafur var ekki við.

 Þó ég að sjálfsögðu verði ýmsar gerðir Ólafs og væri talsmaður embættisins í fjöldamörgum málum þá varð það aldrei hlutskipti mitt að verja kynferðisofbeldi með einum eða öðrum hætti. Þó ekki væri nú.

 Það næsta sem ég komst því var að rökstyðja það álit Ragnars Aðalsteinssonar og Tryggva Gunnarssonar lögfræðinga Ólafs að hver maður væri saklaus þar til annað sannaðist og að málið ætti ekki heima á vettvangi Prestafélags Íslands heldur hjá dómstólum.

Meirihluti presta var á þeirri skoðun til að byrja með. Eftir að ásakanir komu fram (frá Sigrúnu Pálínu) fór málið fyrir siðanefnd P.Í.  þar stóð Úlfar Guðmundsson sig mjög vel.

Það kom í minn hlut að fara með þær fréttir til Ólafs að kynferðisásakanir gegn honum væru komnar til Siðanefndar P.Í. og í DV. Það var að mörgu leiti sambærilegt og að tilkynna einhverjum eigið andlát.

Í áliti Rannsóknarnefndar er ég talinn hafa gert mistök að hafa ekki sagt mig frá málinu í stjórn P.Í fyrr en ég gerði. Ég hef meðtekið það og beðist fyrirgefningar á því. Ég vil þó halda því til haga að ég sagði mig þó frá málinu fljótlega og tel ekki að ég hafi haft nein (neikvæð) áhrif á framgang þess.

 Þegar málið kom upp hugleiddi ég alvarlega að hætta í mínu starfi. Þegar frá leið ákvað ég að gera það ekki. Það myndi aðeins auka á ringulreið innan kirkjunnar en ,,eineltið“ (afsakið orðnotkunina) gagnvart starfsfólki biskupsstofu fór vaxandi með hverjum mánuði þenna tíma. Voru það bæði ófyrirleitnir prestar, fjölmiðlamenn og fólk sem gat ekki greint á milli biskups og saklausra starfsmanna biskupsstofu sem voru aðallega konur.

Aldrei var starfsfólk Biskupsstofu vart óvildar frá Sigrúnu Pálinu, Dagbjörtu eða Stefaníu, konunum sem ásökuðu Ólaf. Þakkað er fyrir það.

Þegar Ólafur Skúlason hætti var mér sagt upp. Það kom mér í opna skjöldu. Ég hafði verið í óvinsælli eldlínu í þrjú og ár og hafði einhvern veginn ekki búist við því að vera settur út á tröppur. Þegar ég fór að sækja um atvinnleysisbætur hélt fólkið í afgreiðslunni og röðinni að ég væri að grínast. Ég fór ekki aftur. Var atvinnlaus í hálft ár.

Ég hafði sagt upp embætti mínu í Hornafirði af tillitssemi við Hornfirðinga. Þannig gætu þeir ráðið sér annan prest til frambúðar en þyrftu ekki að lúta bráðabirgðaprestum og svo kæmi ég kannski ekki aftur.

 Fyrr og síðar hafa menn geymt stöður sínar. Jafnvel í tuttugu ár.

Ég gleymdist þó ekki alveg. Biskup átti örugglega sinn þátt í því að ég rambaði á embætti aftur.

Það er auðvitað sjúkt að vera að skrifa um þennan tíma út frá sjálfum sér. Það má segja að þetta sé liður í eigin áfallahjálp yfir því að hafa tengst þessum tíma (og ekkert hlotið fyrir nema skít og skömm).

Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur þekki ég ekkert persónulega. En hún á virðingu mína óskipta eins og allt það fólk sem á um sárt að binda vegna Ólafs Skúlasonar og annarra kynferðiglæpamanna. Þeir eru margir. Eftir að ég skrifaði um þessi mál í sumar höfðu einar fjórar konur samband við mig og sögðu mér hryllilegar sögur úr sinni barnæsku. Ég bað þær um að tala við Stígamót. Hvatti þær til að koma fram. Bið þær um að hringja aftur ef ég get leiðbeint þeim frekar því að nöfn þeirra gleymdust mér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Guðbjörg Elín hvað ertu að rugla, þú hlýtur að vera að misskilja Baldur er að tala um fullorðnar konur og það er ekki í hans hlutverki að tilynna um misnotkun sem þær lentu í.

  • Guðbjörg Elín

    Nei Bergman, en hann gat tilkynnt þetta alvarlega mál innan sinnar stéttar, til síns yfirmanns, annars er biskupinn ekki að vinna sína vinnu hvað varðar þetta mál.Það er svona sem allt er þaggað niður, eins og kirkjan hefur gert fram til þessa. Fólk gefst upp á kirkjunni ef hún ætlar að halda áfram á sömu braut, að vinna eins og hún hefur gert hingað til varðandi kynferðisofbeldismál. Bergman við erum fullorðið fólk og við þurfum líka sáluhjálp þegar hennar er þörf og eigum að geta treyst því að það sé HLUSTAÐ Á OKKUR og eitthvað róttækt gert, sérstaklega í svona alvarlegu máli. Ég var eiginlega að benda á það. Hvernig hefur t.d. biskupinn okkar stungið hausnum alltaf í sandinn og ekkert aðhaft í þessu ömurlega máli.Biskupinn á að vera löngu búinn að segja af sér.

    Baldur eftir hvaða reglum vinnið þið sem prestar, eru það reglur sem þið sjálfir gerið ?

  • Gudbjörg Elín! óttalegt thrugl er thetta í thér. Ég fylgi ákvednum vinnureglum. Ein theirra er ad taka ekki fram fyrir hendurnar á fullordnu fólki- nema thad æski thess sjálft. Kv. Baldur

Höfundur