Miðvikudagur 12.10.2011 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Hanskinn upp fyrir biskup!

Stundum finnst mér að verið sé að kasta glæpum Ólafs Skúlasonar yfir á eftirmann hans sem er allt öðruvísi manneskja eins og allir vita.

Vissulega er skúffuferðin á  bréfi Guðrúnar Ebbu óboðleg en enginn skal segja mér að  biskup hafi viljað þagga málið niður með því að setja bréf í skúffu.  Maður þaggar ekki mál niður með því að setja bréf í skúffu.  Bréfritarinn er enn til staðar og mun rita önnur bréf á önnur heimilisföng. Maður þaggar niður með ofbeldi og hótunum ekki satt?  Slíkt framferði er Karli ekki tamt.

Ef eitthvað er þá er hann ekki nógu ákveðinn og sterkur leiðtogi.  En var það ekki það sem við vorum að forðast? Á tími slíkra fyrirbæra ekki að vera liðinn?

Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar. Nú verður t.d. að gá í sakaskrá hvenær sem manneskja er ráðin að kirkju. Gunnar Rúnar Matthíasson stýrir fagráði um kynferðisafbrotamál.

Biskup hefur komið ýmsu öðru góðu til leiðar, sálmum og bænum, verið gagnrýninn á misskiptingu auðs.  Stutt áhrif leikmanna innan kirkjunnar.  Lagst gegn klerkaveldi og er á flesta lund ljúfur maður.

Honum hafa samt orðið á eins og t.d. ummæli um hjónaband samkynhneigðra.  En það eru fleiri en hann sem voru hlekkjaðir í hugarfar aldanna en hann má eiga það að hann fylgdi réttindum samkynhneigðra vel eftir þegar pendúllinn sveiflaðist  innan kirkjunnar.

Mál Guðrúnar Ebbu og Sigrúnar Pálínu eru afgerandi mál sem vonandi eru að breyta kirkjunni og samfélaginu sem kirkjan er órjúfanlegur hluti af.  Sá hroði sem þessi mál bera vitni um er samfélagslegur óhroði sem við verðum að svæla út.

En dómharka í garð Karls Sigurbjörnssonar ber ekki vitni um að við séum að fljóta í rétta átt.

Þó ætla ég engum illt hugarfar allra síst Illuga Jökulssyni sem er einn gagnlegast og besti samfélagsrýnir okkar nú um stundir.   

En þessum fleti datt mér í hug að velta upp því að mér finnst að sumu leyti ósanngjörn þessi heljarreiði í garð biskups.

Ég býð mig þó helst ekki fram til aflífunar enda ekki feitur biti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Ragnheiður Davíðsdóttir

    Það skal tekið fram að ég á enga aðild að Útvarpi sögu og hef aldrei gert.

  • Allt hefur sinn tíma. Biskup íslands er ekki gerandi í þessu máli en hann hefur dregist inn í það nauðugur og ekki skilið dýpt þess og alvöru með sama hætti við sem utan við það standa og horfum á það af samúð með fórnarlömbunum og afleiðingum afneitunar og yfirhylmingar. Hann hefur hneygst til að líta á þetta sem mál innan professjónarinnar eða kolleganna og reynt að halda í virðingu embættisins þrátt fyrir forvera sinn og afbrot hans. Hann hefur einnig tekið tillit til eftirlifandi eiginkonu Ólafs og talið að hann eigi að halda þessu máli „innan fjölskyldunnar“ og þar með utan kirkjunnar. Það eru mistök hans. Það eru engar auðveldar ákvarðanir til í þessu máli og Karl hefur ekki getað staðið undir væntingum fórnalambanna fyrst og safnaðanna síðast.

    Tími biskups til að greiða úr þessu erfiða máli virðist runnin út eða tækifærin búin sem honum hafa boðist. Það er sárt að upplifa það að Karl þurfi að verða enn eitt fórnarlamb hins siðblinda forvera síns en það verður ekki um flúið hvort sem hann situr áfram sem biskup eða lætur af embætti eða hvernig sem í pottin verður búið.

  • Bæði Ólafur og Hilmar hér að ofan virðast líta á þetta alvarlega mál sem léttvægt. Núverandi biskup kom að málinu og brást fórnarlömbum fyrrverandi biskups. Þess vegna á hann að axla ábyrgð og segja af sér.
    Kannski er það svo að stór hluti kirkjunnar manna telur málið léttvægt og ekki alvarlegt. Ég minnist þess, að þegar málið kom fyrst upp á tíunda áratugnum, þá átti séra Ólafur Skúlason marga stuðningsmenn og sumir þeirra stærðu sig meira segja af því að Ísland ætti graðasta bikupinn í heiminum.

Höfundur