Miðvikudagur 12.10.2011 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Hanskinn upp fyrir biskup!

Stundum finnst mér að verið sé að kasta glæpum Ólafs Skúlasonar yfir á eftirmann hans sem er allt öðruvísi manneskja eins og allir vita.

Vissulega er skúffuferðin á  bréfi Guðrúnar Ebbu óboðleg en enginn skal segja mér að  biskup hafi viljað þagga málið niður með því að setja bréf í skúffu.  Maður þaggar ekki mál niður með því að setja bréf í skúffu.  Bréfritarinn er enn til staðar og mun rita önnur bréf á önnur heimilisföng. Maður þaggar niður með ofbeldi og hótunum ekki satt?  Slíkt framferði er Karli ekki tamt.

Ef eitthvað er þá er hann ekki nógu ákveðinn og sterkur leiðtogi.  En var það ekki það sem við vorum að forðast? Á tími slíkra fyrirbæra ekki að vera liðinn?

Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar. Nú verður t.d. að gá í sakaskrá hvenær sem manneskja er ráðin að kirkju. Gunnar Rúnar Matthíasson stýrir fagráði um kynferðisafbrotamál.

Biskup hefur komið ýmsu öðru góðu til leiðar, sálmum og bænum, verið gagnrýninn á misskiptingu auðs.  Stutt áhrif leikmanna innan kirkjunnar.  Lagst gegn klerkaveldi og er á flesta lund ljúfur maður.

Honum hafa samt orðið á eins og t.d. ummæli um hjónaband samkynhneigðra.  En það eru fleiri en hann sem voru hlekkjaðir í hugarfar aldanna en hann má eiga það að hann fylgdi réttindum samkynhneigðra vel eftir þegar pendúllinn sveiflaðist  innan kirkjunnar.

Mál Guðrúnar Ebbu og Sigrúnar Pálínu eru afgerandi mál sem vonandi eru að breyta kirkjunni og samfélaginu sem kirkjan er órjúfanlegur hluti af.  Sá hroði sem þessi mál bera vitni um er samfélagslegur óhroði sem við verðum að svæla út.

En dómharka í garð Karls Sigurbjörnssonar ber ekki vitni um að við séum að fljóta í rétta átt.

Þó ætla ég engum illt hugarfar allra síst Illuga Jökulssyni sem er einn gagnlegast og besti samfélagsrýnir okkar nú um stundir.   

En þessum fleti datt mér í hug að velta upp því að mér finnst að sumu leyti ósanngjörn þessi heljarreiði í garð biskups.

Ég býð mig þó helst ekki fram til aflífunar enda ekki feitur biti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Ragnheiður Davíðsdóttir

    Þú misskilur mig alveg, Óskar. Ég var að varpa þessari spurningu til greinaskrifara, Sr. Baldurs. Heldur hann að meirihluti þjóðarinnar séu asnar og hálfvitar sem geta ekki lagt mat á stöðu Karls biskups. Ég er svo hjartanlega fylgjandi því að karl segi af sér og axli þannig ábyrgð á eigin mistökum. Þessu kommenti var varpað fram í kaldhæðni.

  • Ragnheiòur: Thetta hefur ekkert med asna og hálfvita ad gera. Ég ber fulla virdingu fyrir skodunum annarra og vona ad menn beri virdingu fyrir mínum. Kv. B

  • Ragnheiður Davíðsdóttir

    Hvar er hinn andlegi leiðtogi þjóðarinnr nú þegar fjölmargir eru í sárum vegna þess sem fram kom hjá GEÓ? Ef einhvern tímann er þörf á huggun kirkjunnar, þá er það nú. Sjálf er ég í sjokki vegna þess að kynferðisafbrotamaður lagði sínar sauruga hönd á höfuð mér á fermingardaginn minn. Hvað með alla þá sem hann gifti, skírði og fermdi? Hvernig líður þeim núna? En hvað gerir biskup? Þegir þunnu hljóði og gerir ekkert til að hugga þjóð sína.

  • Ólafur Guðmundsson

    Það gefur manni svona þægilega tilfinningu að lesa athugasemd Hilmars að ofan þar sem hann fer yfir málið og telur að ástæðan fyrir árásum á biskup einan sé hatur og reiði sem ekki fær útrás vegna þess gerandinn (glæpamaðurinn) er látinn. Hann telur að uppsafnað hatur vegna kynferðisglæpa Ólafs Skúlasonar hafi fundið sér farveg og gert Karli Sigurbjörnssyni að taka út refsinguna. Hilmar kallar það “villimannslegt” og það er rétt.

    Ég vona að sú Ragheiður sem skrifar að ofan sé ekki sú sem stýrir útvarpi Sögu því þessi Ragheiður hefur enga ástandstilfinningu, skrifar bara í reiði sinni. Þannig er að Karl má varla mæla vega þess að pressan og hefur gert honum nánast ómögulegt að tjá sig. Allt er slitið úr samhengi. Pressan og ýmsir álitsgjafar hafa gert honum ómögulegt að “hugga þjóð sína” eins og Ragnheiður Davíðsdóttir orðar það.

    Hér er smá texi frá verkefnisstjóra á þjónustusviði biskupsstofu sem ég fann á netinu. Hann er sennilega að finna á heimsíðum kirkjanna um allt land Um að gera að lesa hann:

    “Biskupsembættið og kirkjuráð hafa sætt gagnrýni í sambandi við samskipti þeirra við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur. Flestir þættir þessa máls komu fram í Rannsóknarskýrslu kirkjuþings. Þó virðist ríkjandi sá skilningur að erindi hennar hafi ekki verið svarað fyrr en rúmu ári síðar og því er mikilvægt vegna umræðunnar að benda á nokkur atriði varðandi þetta til skýringar.
    Guðrún Ebba setti í bréfi sínu fram nokkur atriði um bætt vinnubrögð kirkjunnar varðandi kynferðisbrotamál auk þess að óska eftir því að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir fengi áheyrn hjá Kirkjuráði, sem og hún sjálf. Kirkjuráð ákvað að bjóða Sigrúnu Pálínu á fund ráðsins 19. júní 2009 og var Guðrúnu Ebbu boðið að koma á þann fund. Guðrún Ebba hafnaði því og taldi mál þeirra ósambærileg. Í lok fundarins með Sigríði Pálínu samþykkti Kirkjuráð ályktun sem tekur mið af ábendingum Guðrúnar Ebbu. Kirkjuþing 2009 samþykkti siðareglur fyrir presta og alla starfsmenn kirkjunnar og reglur um svonefnda skimun. Það var gert til að bæta vinnubrögð kirkjunnar.
    Þegar Guðrún Ebba mætti til fundar við Kirkjuráð 17. ágúst 2010 baðst biskup afsökunar á því hve dregist hefði að svara málaleitan hennar. Hún tók því vel og sagði að sér væri mest um vert að fundurinn ætti sér stað. Á fundinum sagði Guðrún Ebba sögu sína og biskup tjáði henni sorg og samlíðan viðstaddra og tjáði henni hvað kirkjan hefði gert til að koma á móts við óskir hennar og vinna að betri vinnubrögðum og viðhorfum í þessum efnum.
    Þegar ásökun kom fram síðastliðið sumar um að meðferð kirkjunnar á þessu máli væri tilraun til þöggunar af hálfu biskups ákvað Kirkjuráð að fara þess á leit við Kirkjuþing að sett yrði á laggirnar óháð Rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á málinu.
    Niðurstöður nefndarinnar lágu fyrir þann 10. júní síðastliðinn. Þar er bent á að mistök hafi verið gerð hvað varðar skráningu erindisins og dráttur á því að Guðrún Ebba var boðuð til fundar. Að mati nefndarinnar var hér þó ekki um tilraun til þöggunar að ræða.
    Biskup og Kirkjuþing báðust afsökunar á mistökunum. Kirkjuþing samþykkti einróma ályktun og kaus fimm manna nefnd til að koma með tillögur um úrbætur í samræmi við ábendingar rannsóknarnefndarinnar með það að markmiði að vinnubrögð í öllu sem snertir forvarnir, fræðslu og viðbrögð og eftirfylgd er varða kynferðislegt áreiti og ofbeldi væri til fyrirmyndar. Þær tillögur verða lagðar fyrir Kirkjuþing 2011.
    Fyrir hönd Biskupsstofu,
    Steinunn A. Björnsdóttir,
    Verkefnisstjóri á þjónustusviði”.

Höfundur