Sunnudagur 16.10.2011 - 12:16 - Lokað fyrir ummæli

Trúin bjargar eða hvað?-prédikun í ,,körfuboltamessu“

Á einu körfuboltagólfi má sjá allan pakkann. Kapp með forsjá, kapp án forsjár, vilja, einbeitni, kraft.  Vöðvastælt grísk Goð geisast um völlinn.  Gefa Hektor og Ajant og öðrum gömlum grískum hetjum ekkert eftir í líkamsburðum og fegurð.  Í skjóli situr herkonungurinn og horfir yfir sviðið hugsar með hönd undir kinn hvernig andstæðingurinn verði sigraður, leggur á ráðin lymskufullur, gáfaður, ráðagóður – hann er sá eini sem ekki hefur vöðvana en hefur lifað af vegna gáfna sinna.  Hann skákar mönnum upp og niður völlinn, tekur særða útaf og setur óþreytta inná.  Bardaginn heldur áfram.  Stundum er eins og grísku guðirnir séu líka mættir.  Guð íþrótta og leikja.  Boltinn rúllar á hringnum og virðist fara  niður eða útaf allt eftir duttlungum guðanna.  Dómararnir eru sem tæki guðanna, stundum sem slegnir blindu eða sjá hluti sem ekki gerðust.  Stundum geast vafasamir hlutir inn á vellinum hefndarpústrar, gróf tilþrif, á köflum viðburðir guðum þóknanlegir, menn hjálpa andstæðingnum á fætur, klappa honum á öxlina, halda sér til hlés áhyggjufullir ef einhver slasast.  Í stríði jafnt sem leik eru reglur sem sýna að þrátt fyrir allt eru þetta menn en ekki tígrísdýr eða ísbirnir, siðvæddar verur þó stutt sé í dýrið og ókunnur athugull áhorfandi myndi fljótt sjá að eitt skilur að stríð og leik.  Á meðan stríðsmenn Hómers, Churchill og Obama hafa spjót, barefli og sprengjur eru okkar menn með mjúkan bolta sem þeir berjast um eins og þeir eigi lífið að leysa og þarf ekki að fara lengra en aftur á fimmtudag til að sjá afleiðingar þegar einn kappinn rifbeinsbrotnaði í átökunum eftir púst frá manni sem er í liði sem kennir sig við þrumuguðinn Þór einhvern mesta kappa í gjörvallri guðasögunni, þrumuguðinn ógulegi og ekki nóg með það kappinn sem rifbraut KR-inginn kennir sig ekki bara við Þór heldur líka við Þorlákshöfn sem kennd er við Þorlák mesta áheitabiskup íslenskrar kristni.  Þegar hann var orðinn biskup, tóku menn eftir því að það var nóg að nefna nafnið hans þá gekk þeim allt í haginn. Það gekk svo langt að andstæðingar hans sigruðu hann sjálfan í bardögum ef þeir hétu á Þorlák biskup. Þess vegna er nú ekki útí hött að safnast saman hér í kirkjunni hans  ætli menn sér eitthvað. Við skulum sjá til hvort hann fylgir okkur ekki á ÍR leikinn.

En hvers vegna er maðurinn að tala um Guðina.  Er þetta ekki eingyðinstrú sem hann boðar.  Vissulega, en gallinn við okkar eina Guð eins og hann birtist í mynd Jesú Krists að hann virtist vera lítið gefinn fyrir íþróttir nema þá helst að hann hafði gaman af því að ganga á vatni sem er reyndar mikil íþrótt.  Á hans tíma var búið að finna upp frjálsar íþróttir, hlaup, einkum maraþonhlaup, köst og stökk og Grikkir svo komið sé að þeim héldu Olýmpíuleika þar sem menn kepptu naktir og hafa ekkert gefið körfuboltastjörnum nútímnans eftir nema þeir hafa verið skelfilega litlir í samanburði við þá – en það var ekki búið að finna upp körfuboltann.  1000 árum siðar eru strákar á Vesturlandi í vísi að skipulögðum boltaleik en það eru hrein slagsmál og Egill Skallagrímsson lætur sér ekki nægja að yfirbuga andstæðing sinn heldur drepur hann en á tímum Jesúsar eru alls engar þreyfingar í þessa áttina.  Enda er ekki víst að nokkuð hefði orðið úr guðspjöllunum ef Jesú og lærisveinarnir hefðu misst sig í körfubolta.  Að minnsta kosti hefðu guðspjöllin hljómað allt öðruvísi.  Sögurnar byrja t.d. svona. Daginn eftir léku þeir sér í körfu á ströndinni og Jesú hafði hitt í þremur skotum röð þegar blindur maður anaði inn á völlinn og sagði Meistari lækna þú mig.  Jesú mælti. Sæll ert þú sem trúir – kom í lið mitt – gaf boltann á blinda manninn sem sá allt og skoraði.  Mikil er trú þín gæti Jesú hafa sagt og í andblæ hans gætum við sagt að körfubolti eins og annað sem við reynum byggir á því að við trúum því að við getum, trúum því að við getum hitt í körfuna, trúum því að við getum unnið.  Þegar hinu fornu aðstæður og öll smáatriðin eru tekin úr sögum Nýja Testamentisins sjáum við að JK er alltaf að tönglast á því sama …að menn trúi á það sem þeir eru að fást við, að það takist.  Dæmið hérna fyrir aftan okkur(altarsitaflan: Jesú gengur á vatninu en Pétur sekkur) er kannski best.  Það getur auðvitað enginn gengið á vatni.  Þetta er dæmisaga.  En það er alveg gersamlega vonlaust ef þú trúir því ekki, enda sekkur Pétur því að hann haði ekki trú á því sem hann var að gera á meðan Jesú skeiðar þetta létt enda ekki neitt venjulegur.  Niðurstaðan er þessi og það á jafnt við um körfuboltamenn, fermingarbörn og gamlar konur:  Hafið trú á því sem þið eruð að gera.  Það er ekki víst að það takist en það tekst örugglega ekki ef þið hafið ekki trú á því.

Svo vil ég þakka Benedikt(Guðmundssyni)og körfuboltastrákunum fyrir að koma í messuna og lýsi því yfir að ég hef fulla trú á þeim…..

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Er ég „hornóttur“?

    En ef þú segir að það sé ekki ótrúlegt að trúa því að Jesús hafi risið upp frá dauðum af því að hann var „sonur guðs“, þá sé ég ekki hvernig þú getur afskrifað sögur af vatnagöngum Jesú með því að segja „Það getur auðvitað enginn gengið á vatni.“, ef að „sonur guðs“ getur risið upp frá dauðum, hvers vegna er svo ótrúlegt að trúa því að hann hafi gengið á vatni?

  • Ég segi ekkert um syni eða dætur Guðs! En ég efast ekkert um að þeir/þær geti/gætu allt. Kv. B

  • Allt í lagi, ég hélt að fullyrðing þín um að það geti auðvitað enginn gengið á vatni í umfjöllun um sögu þar sem Jesús gengur á vatni þýddi að þú teldir að Jesús hefði ekki getað gengið á vatni.

Höfundur