Stundum finnst mér að verið sé að kasta glæpum Ólafs Skúlasonar yfir á eftirmann hans sem er allt öðruvísi manneskja eins og allir vita.
Vissulega er skúffuferðin á bréfi Guðrúnar Ebbu óboðleg en enginn skal segja mér að biskup hafi viljað þagga málið niður með því að setja bréf í skúffu. Maður þaggar ekki mál niður með því að setja bréf í skúffu. Bréfritarinn er enn til staðar og mun rita önnur bréf á önnur heimilisföng. Maður þaggar niður með ofbeldi og hótunum ekki satt? Slíkt framferði er Karli ekki tamt.
Ef eitthvað er þá er hann ekki nógu ákveðinn og sterkur leiðtogi. En var það ekki það sem við vorum að forðast? Á tími slíkra fyrirbæra ekki að vera liðinn?
Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar. Nú verður t.d. að gá í sakaskrá hvenær sem manneskja er ráðin að kirkju. Gunnar Rúnar Matthíasson stýrir fagráði um kynferðisafbrotamál.
Biskup hefur komið ýmsu öðru góðu til leiðar, sálmum og bænum, verið gagnrýninn á misskiptingu auðs. Stutt áhrif leikmanna innan kirkjunnar. Lagst gegn klerkaveldi og er á flesta lund ljúfur maður.
Honum hafa samt orðið á eins og t.d. ummæli um hjónaband samkynhneigðra. En það eru fleiri en hann sem voru hlekkjaðir í hugarfar aldanna en hann má eiga það að hann fylgdi réttindum samkynhneigðra vel eftir þegar pendúllinn sveiflaðist innan kirkjunnar.
Mál Guðrúnar Ebbu og Sigrúnar Pálínu eru afgerandi mál sem vonandi eru að breyta kirkjunni og samfélaginu sem kirkjan er órjúfanlegur hluti af. Sá hroði sem þessi mál bera vitni um er samfélagslegur óhroði sem við verðum að svæla út.
En dómharka í garð Karls Sigurbjörnssonar ber ekki vitni um að við séum að fljóta í rétta átt.
Þó ætla ég engum illt hugarfar allra síst Illuga Jökulssyni sem er einn gagnlegast og besti samfélagsrýnir okkar nú um stundir.
En þessum fleti datt mér í hug að velta upp því að mér finnst að sumu leyti ósanngjörn þessi heljarreiði í garð biskups.
Ég býð mig þó helst ekki fram til aflífunar enda ekki feitur biti.
Núna ertu farinn að rugla. Íslendingar virðat ekki skilja hugtakið „ábyrgð“. Þeir skilja að ábyrgð er metinn til launahækkana og slá ekki hendinni á móti slíku, en þeir virðast halda að aðeins sá sem veldur geti borið ábyrgð. Svo er ekki, yfirmenn bera ábyrgð á starfsmönnum sínum og starfsemi þeirra. Biskupinn, eða starfsmenn hans, stungu bréfi Ebbu undir stól. Biskupinn valdi að vera passívur og vonaði að málið myndi gleymast og það er ein aðferð þöggunar (ekki þarf alltaf ofbeldi til þöggunar).
Biskupinn hefur gert margt gott en það breytir því ekki að hann verður að axla ábyrgð á þessu máli.
Ég vísa bara í svarið hans „Rögga“ (http://roggi.eyjan.is/2011/10/taka-upp-hanska.html). Það segir allt sem ég vildi sagt hafa.
Ég hef í sjálfu sér enga ástríðu fyrir því að Karl víki sem biskup (minni samt á að sumt sem hann sagði í síðustu umferð af þessari diskúsjón hljómaði eins og hann myndi víkja fyrr en síðar, en langaði til að það virkaði ekki eins og viðbrögð við því sem var að gerast, skýrslunni og svoleiðis).
Það er samt alveg ljóst að jafnvel þó það væri ósanngjarnt að hann viki – brotin ekki stórvægileg, sum hver hulin holtaþoku skrifræðis og prótókolls – þá gæti það ekki verið annað en gott fyrir kirkjuna. Utan frá séð (ég er ekki í Þjóðkirkjunni) þá er illbærilegt að sitja undir yfirlætisfullu tali kirkjunnar sem varðveitanda róta þjóðarinnar, siðferðisins og menningar okkar þegar forystumaðurinn er tilbúinn í svona þras til að verja sína persónulegu stöðu.
Já og eitt: Ég ber virðingu fyrir Karli. Ég trúi því að hann segi það sem hann meinar og meini það sem hann segi. Þess vegna get ég ekki séð að honum hafi „orðið á“ þegar hann lét „ummæli“ falla um samkynhneigða og afleiðingar hjónabanda þeirra fyrir hjónabandið almennt. Svona maður ígrundar það sem hann segir – og þarf að svara fyrir það.
Ef kirkjan breytir um stefnu og hann stendur sig bærilega í að framfylgja henni þá á að telja honum það til tekna nákvæmlega eins og það að menn mæti í vinnuna á réttum tíma – en ekkert umfram það.
„Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar.“
Áttu þá við rammgerðari skúffur?
Þeta kallar fram minningar um átaksverkefni Radíusbræðra, „Smiðir Gegn Klámi“
Í raunveruleikanum er þó siðferði annarra stétta, s.s. iðnaðarmanna, með þeim hætti að þar er ekki talin þörf á sérstökum aðgerðum vegna kynferðisafbrota innar stéttarinnar.