Miðvikudagur 12.10.2011 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Hanskinn upp fyrir biskup!

Stundum finnst mér að verið sé að kasta glæpum Ólafs Skúlasonar yfir á eftirmann hans sem er allt öðruvísi manneskja eins og allir vita.

Vissulega er skúffuferðin á  bréfi Guðrúnar Ebbu óboðleg en enginn skal segja mér að  biskup hafi viljað þagga málið niður með því að setja bréf í skúffu.  Maður þaggar ekki mál niður með því að setja bréf í skúffu.  Bréfritarinn er enn til staðar og mun rita önnur bréf á önnur heimilisföng. Maður þaggar niður með ofbeldi og hótunum ekki satt?  Slíkt framferði er Karli ekki tamt.

Ef eitthvað er þá er hann ekki nógu ákveðinn og sterkur leiðtogi.  En var það ekki það sem við vorum að forðast? Á tími slíkra fyrirbæra ekki að vera liðinn?

Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar. Nú verður t.d. að gá í sakaskrá hvenær sem manneskja er ráðin að kirkju. Gunnar Rúnar Matthíasson stýrir fagráði um kynferðisafbrotamál.

Biskup hefur komið ýmsu öðru góðu til leiðar, sálmum og bænum, verið gagnrýninn á misskiptingu auðs.  Stutt áhrif leikmanna innan kirkjunnar.  Lagst gegn klerkaveldi og er á flesta lund ljúfur maður.

Honum hafa samt orðið á eins og t.d. ummæli um hjónaband samkynhneigðra.  En það eru fleiri en hann sem voru hlekkjaðir í hugarfar aldanna en hann má eiga það að hann fylgdi réttindum samkynhneigðra vel eftir þegar pendúllinn sveiflaðist  innan kirkjunnar.

Mál Guðrúnar Ebbu og Sigrúnar Pálínu eru afgerandi mál sem vonandi eru að breyta kirkjunni og samfélaginu sem kirkjan er órjúfanlegur hluti af.  Sá hroði sem þessi mál bera vitni um er samfélagslegur óhroði sem við verðum að svæla út.

En dómharka í garð Karls Sigurbjörnssonar ber ekki vitni um að við séum að fljóta í rétta átt.

Þó ætla ég engum illt hugarfar allra síst Illuga Jökulssyni sem er einn gagnlegast og besti samfélagsrýnir okkar nú um stundir.   

En þessum fleti datt mér í hug að velta upp því að mér finnst að sumu leyti ósanngjörn þessi heljarreiði í garð biskups.

Ég býð mig þó helst ekki fram til aflífunar enda ekki feitur biti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Þetta er meira spurning um að Karl þarf að víkja til þess að eftirmaður hans geti gengið frá málinu. Karl er allt of tengur þessu máli til að geta tekið á því af trúverðugleika. Karl er ekki óhæfur til að vera biskup en hann er vanhæfur til að taka á þessu máli og verður að víkja til að kirkjan geti komist áfram. Spurningin er hversu lengi einkahagsmunir Karls eiga að standa yfir heildarhagsmunum kirkjunnar og það geta meðlimir kirkjunnar einir svarað.

  • Hulda Lilliendahl

    Má ég benda þér á Baldur að sú aðgerð að stinga bréfi dóttur fv. biskups undir stól og aðhafast ekki svo ekki sé nú talað um svör hans í Kastljósi við spurningunni um það hvort hann tryði sögu hennar segir allt sem segja þarf, þ.e.a.s. hvernig hann lítur á þessi mál. Þetta er augljóslega smámál og hann aðhefst ekki fyrr en hann er tilneyddur. Slíkt er ekki boðlegt. Nú tilheyri ég að vísu ekki þessari kirkju, en mér kemur við hvernig ein valdamesta stofnun ríkisins kemur fram við samborgara mína. Og ef þið sem tilheyrið kirkjunni sjáið ekki hvernig slík viðhorf standa henni fyrir þrifum þá er ekki von að vel fari. Já og Þorgeir. Ég ber hreint enga virðingu fyrir núverandi biskupi, finnst hann enga slíka verðskulda.

  • Valur Bjarnason

    Það skal heldur ekki gleymast að Karl gerði allt sem í hans valdi stóð til að þagga miður í konunum sem komu fram árið 1996. Hann gat aldrei almennilega beðið þær afsökunar, heldur dróg í og úr með ömulegum afsökunum. Það var bara eins og hann væri að óska að þessar konur myndu hverfa svo hann gæti fengið frið. Svo kemur þetta bréf, eftir allt sem á undan hafði gegnið, og hann gat ekki setið á sér með að reyna koma því undan umræðu með því að setja það ofan í skiúffu. Maðurinn á sér engar málsbætur, ætti að koma sér úr embætti.

  • Hulda Lilliendahl

    Ég er sammála þér Valur. Nú er það ekki svo að ég sé hlynnt einhverjum nornaveiðum en þetta getur ekki og má bara ekki vera svona. Ég heyrði í Sjónvarpinu í kvöld að biskup hygðist ekki tjá sig um málið – hvorki í dag né á morgun. Ég ætla að trúa því þegar ég tek á því.

Höfundur