Mánudagur 21.11.2011 - 09:50 - Lokað fyrir ummæli

Viðhorf okkar til flóttamanna!

Teitur Atlason endurvakti athygli mína á því hvað skeytingarlaus við erum gagnvart flóttamönnum sem leita hælis hér. Stundum höfum við kyngt ælunni og veitt fólki tímabundið hæli af mannúðarástæðum sem er vond leið því hún rænir fólki þeirri gæfu að geta horft til framtíðar með líf sitt.  Oftast höfum við vísað fólki frá eftir dúk og disk jafnvel barnafólki með börn sem hafa verið farin að kunna vel við sig í íslenskum skólum.  Sá bakþanki virðist stjórna harðýðgi okkar að ef við látum gæsku okkar blandast í ferðina komi það í bakið á okkur með þeim hætti að hér verði ekki þverfótað fyrir fólki. Öll heimsins börn svöng og hrakin muni smygla sér um borð í Flugleiðavélar eftir að hafa keypt sér fölsuð vegabréf.  Við erum að vísu ekki alvond. Stundum sendum við sveit manna út til að velja flóttamenn og höfum með þeim hætti grynnt á sektakennd þeirri sem hlýtur að hrjá okkur. 

En tilefnið var að við viljum fá að vita hvað verður um fólk sem hingað hrekst í hörðum heimi með sitt eina úrræði – fölsuð vegabréf að vopni – og er frá degi eitt meðhöndlað eins og ótýndir glæpamenn.  Ekki veit ég hvað Teiti finnst en mér finnst að Gamla Testamentið – trúarbók Gyðinga – mætti verða skyldulesning viðkomandi embættismanna og stjórnmálamanna en þar er krafan um að reynast útlendingnum jafn vel og ekkjunni og hinum blásnauða sett fram með margvíslegu móti. Almennt siðvit okkar ætti að segja hið sama. En greinin sem við skrifuðum saman í Fréttatímann fylgir hér og fær þar með sitt pláss á eyjunni.

,,Hún vakti ekki mikla athygli fréttin sem um íraska parið sem var dæmt í fangelsi á Íslandi í september. Glæpurinn sem þau frömdu var svo sem ekkert stórfenglegur.  Þau framvísuðu fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins.  Sé það haft í huga að unga parið var á flótta frá heimalandi sínu verður þetta mál nöturlegra.  Það er eins og Alþingi og dómstólar skilji ekki að flóttafólk gerir hvað sem er til þess að komast af.  Öllum meðölum er beitt og ekki ólíklegt að þetta vesalings fólk hafi borgað offjár fyrir fölsuð vegabréf.  Það er eins og enginn komi auga á örvæntingu þessa fólks.

Þetta er hinsvegar mjög í anda þeirra köldu lagahyggju sem einkennir afstöðu íslenskra stjórnvalda í málum flóttamanna.  Lagahyggja er þeirrar náttúru að vera skjöldur gegn áleitnum og flóknum siðferðislegum spurningum eins og oft vakna upp í kringum flóttafólk.  Það er jú svo auðvelt að segja eins og í þáttunum Little Britain, “The computer says no”. Par sem framvísar fölskum skilríkjum, jafnvel þó svo þeir pappírar hafi verið eina leið þess frá kúgun, ofbeldi og jafnvel bráðum bana, eru einungis ótíndir glæpamenn og ekkert annað. Engin forsaga, ekkert samhengi, bara hinn kaldi bókstafur laganna.

Parið sem dæmt var í 30 daga fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum vegabréfum þann 8. september sl. virðist vera horfið af yfirborði jarðar.  Engar upplýsingar er um það að fá hjá Útlendingastofnun.  Í samtali við lögfræðing stofnunarinnar var ekki hægt að fá uppgefin nöfn þessa fólks, ekki nöfn umboðsmanna þess, ekki hvort þetta fólk væri statt á Íslandi eða hafi verið framselt annað ,og heldur ekki netfang lögfræðingsins sem talað var við.  Alger þagnarmúr virðist hafa verið reistur í kringum þetta fólk og afdrif þess.  Þessi staðreynd vekur furðu og fleiri spurningar.

Aðstæður flóttafólks á Íslandi eru alræmdar og fólk er geymt á gistihúsi í Njarðvík.  Staðsetning fyrir þessa starfsemi stuðlar að enn frekari einangrun flóttafólksins sem þar dvelur og nánast útilokar samskipti þess við landa sína eða Íslendinga sem vilja því lið.  Eftir því sem við komumst næst var staðsetning fyrir þessa starfsemi valin vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll.  Lesendum er látið eftir að geta sér fyrir um skilaboðin sem fólgin eru í því.

Lagahyggjan sem lýst er hér að ofan er ekki séríslenskt vandamál.  Sænsk yfirvöld ákváðu á dögunum að reka úr landi 91 árs gamla konu frá Úkraínu.  Konu sem var eiginlega blind og þjáð af Alzheimer sjúkdómnum.  Engu máli skipti að konan átti dóttur í Svíþjóð og barnabarn.  Ákvörðuninni var ekki haggað því tölvan sagði nei. Það var ekki fyrr en eftir mikla og almenna andstöðu almennings að einhver hátt settur virðist hafa áttað sig að svona á ekki að koma fram við fólk.

Þetta viðhorf vantar á Íslandi.  Almenningi virðist almennt standa á sama þegar flóttafólk er fangelsað fyrir þær sakir einar að reyna að bjarga sér.  Fólki virðist standa á sama þegar maður, sem hefur dvalið við illan kost í gistiheimili í Njarðvík í 6 ár, reynir að taka eigið líf í örvæntingu sinni.  Viðhorf á borð við að flóttafólk séu sníkjudýr sem þrái ekkert heitara en að forða sér frá fjölskyldum sínum og föðurlandi, eru algeng.

Hvers vegna varð þetta svona?  Hví hafa hjörtu okkar harðnað svona?  Hvers vegna sjáum við glæpamenn þegar við okkur blasir örvæntingarfullt fólk sem þarf á hjálp okkar að halda?  Hvar eru fulltrúar almennings í þessum málum?  Hvar eru verkalýðsfélögin okkar?  Hafa þau virkilega ekkert um þetta að segja?  Snýst baráttan fyrir bættum hag almennings bara um krónur og aura? Hvar eru eldhugarnir, skáldin, kirkjan þegar þegar kemur að þessum smánarbletti á orðspori Íslands?

Það þarf vakningu meðal Íslendinga þegar kemur að flóttafólki og skyldum okkar gagnvart því.  Það þarf ást og það þarf umhyggju.  Það er til fullt af Íslendingum sem vilja aðstoða flóttafólk með beinum hætti, veita því húsaskjól, atvinnu og hverskonar stuðning. Þetta fólk þarf að virkja. Það þarf líka að virkja fyrrverandi flóttafólk á Íslandi og koma upp skipulögðu neti til að stoða þá sem hjálpar er þurfi.  Það þarf að opna augu “kerfisins” um að stundum hefur tölvan rangt fyrir sér og að lög eru bara lög og segja lítið um rétt eða rangt.  Í málefnum flóttafólks þurfum við sem þjóð að sýna samúð í stað tortryggni, hjálpfýsi í stað afskiptaleysis. Við þurfum að vera almennilegt fólk og byrja að haga okkur eins og almennilegt fólk.“

Teitur Atlason er íslenskukennari í Gautaborg
Baldur Kristjánsson er formadur Þjóðmálanefndar Þjóðkirkjunnar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Ingimar S. Friðríks

    Er þessi Teitur ekki sjálfur flóttamaður í Svíþjóð?

  • Max Ólafsson

    Sæll, þakka fyrir þessa umfjöllun-það er mikil þörf á að veita þessum málum eftirtekt og endurskoðun. Mín skoðun er að það er ekki einungis viðhorf stjórnmála – og embættismanna sem þurfi að ræða – og þeirra skoðanir komi þá fram – heldur einnig útlendingalögin sjálf (2002 nr. 96 15. maí). En sýndist þó í kvöld a.m.k. einn maður segja það í fréttum að það væri tími kominn að endurskoða lögin. Mér þykir þessi stofnun oft hegða málum þannig að reynt er að finna fyrsta lagabókstaf sem heimilar henni að reka fólk úr landi – þó þar kunni að finnast í sömu lögum eitthvað sem mælir gegn því. Í mínum barnaskap taldi ég áður fyrr geta treyst á allar opinberar stofnanir til að taka réttar, hlutlausar ákvarðanir, skv. lögum. Þá mundi ég vilja sjá jöfnuð meðal útlendinga, en ekki t.d. þessa ‘EES’ mismunun – eða er það hluti af siðferðisvitund að veita fólki ólík tækifæri eftir fæðingarstað? Ég heyri oft talað um sameiginleg evrópsk, eða norræn gild – en spái nú hvað er meint með því -ég held að velflestir í þessum heimi deili sömu grunngildum og þörfum. EES ríkisborgari hefur mun meiri rétt til að hafa fjölskyldumeðlimi hjá sér en aðrir. Oft miðast sá réttur samt til atvinnusjónarmiða fremur en samfélagslegra gilda sem við þykjumst virða svo mjög og halda í heiðri.

    En um það sem mælir gegn ákvarðanir stofnunar í sömu lögum, þarf fólk að leita hjálpar og þá helst kæra úrskurði til að fá rétt dæmt. Í öðrum tilfellum, hópast margir íslendingar saman, mótmæla og stofnun veitir einstaka mönnun tímabundið dvalarleyfi – og þá ‘hverfa’ óþægileg mál. Aðrir fá ýmis leyfi, ef þeir eru nógu ‘merkilegir’ eða eru nægilega vel tengdir háttsettum ráðamönnun (t.d. Jónínu ‘málið’ sem var á allra vörum fyrir nokkrum árum). En um þá sem enga þekkja, eða mál þeirra sem aldrei verður ‘fjölmiðlamatur’, þeirra sem þora eða geta ekki talið fyrir sig sjálfir bíða oft slæm örlög. Sé ekki hvernig löng bið í kerfinu spari nokkurn mann, eða kerfi fé og geri ekkert annað en að skapa sálræna erfiðleika fyrir alla hlutaðeigandi, jafn Íslendinga sem aðra. Hvað varðar parið, þá hefur stofnun tjáð í fljölmiðlum, að þeir eru bundnir þagnarskyldu um örlög fólksins – en skv. 50.gr stendur þó „Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má kynna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna efni málsskjala“. Spyr ég bara sem leikmaður, sem veit of lítið um lög landsins. Þá er einhvers staðar talað um málshraða í stjórnsýslulögum, en þar sem hvergi er minnst á eiginlega lengd í raunverulegum tíma – þá eru menn bara áminntir og þar við situr, menn halda áfram, sumir búa við óvissuna og það sem henni fylgir í alltof langan tíma, og svo varð eflaust þessi jól. Mannekla sem ástæða fyrir seinkun, verður fljótt þreytandi frá öllum embættum.

Höfundur