Mánudagur 09.01.2012 - 14:02 - Lokað fyrir ummæli

Jón Ísleifsson

Það er eitthvað  að í kirkju sem lætur annað eins viðgangast og það sem átti sér stað norður í Árnesi og við urðum vitni að í heimildarmyndinni Jón og séra Jón í sjónvarpinu í gær.  Jón Ísleifsson, höfðuðersóna myndarinnar er ljúfur drengur með góða og mikla eðliskosti.  Hann er hins vegar augljóslega haldinn einhverju afbrigði af því sem leikmenn telja  þunglyndi getur ekki séð almennilega um sig, komið sér til verka og hefur ekki í sér öll þau vopn sem duga til að halda sínu í flóknu valda og hagsmunatafli heimsins. Það er hins vegar bita munur en ekki fjár á honum og fjöldamörgum öðrum.  Jón er hins vegar ólíkt mörgum ágætur guðfræðingur sem skautaði ágætlega gegnum Guðfræðideildina og nokkur heimspekingur og þjónar fallega sem prestur.

Yfirmenn kirkjunnar hafa annað hvort ekki haft vald eða vilja til þess að koma í veg fyrir að svona sorgarsaga þróist. Í fyrsta lagi er það tóm vitleysa að leyfa viðkvæmum manni eins og Jóni að fara  norður í svartnætti vetra og hríðabylja einangrunar og fásinnis.  Í öðru lagi þá átti að grípa inní miklu fyrr. Þó að saka megi biskupa og prófasta um sinnuleysi þá er einkum  hér sennilega við kirkjuskipanina að eiga.  Sjálfstæði presta gagnvart yfirvaldi geistlegu og borgaralegu er nauðsynlegt en bæta þarf úrræði til að grípa inní.

Ekki skal lagður dómur á það hvort að nágrannar Jóns hefðu mátt styðja hann betur og vart verður því trúað að þeir hafi stuðlað að brottför hans í eiginhagsmunaskyni.  Málið er fyrst og fremst áfellisdómur fyrir kirkjuskipanina.

Séra Jón, úr því að hann hlaut vígslu, hefði átt að vera í Reykjavík innan um aðra presta.  Hann hefði helst plummað sig í kirkju þar sem heimilishagir hans og einkennilegir hættir hefðu ekki komið neinum við. Fólk hefði séð hann greiddan og strokinn eftir fyrirmælum kirkjuvarða og sampresta, í hátíðarbúningnum lesandi fallega úr biblíunni, flytjandi skondnar og skemmtilegar ræður.  Ég hef séð hann skíra.  Hann gerir það mjög fallega.

Og gaman var að sjá Harald Blöndal lögfræðing í myndinni.  Sá látni heiðursmaður hefur örugglega reynst Jóni vel og náð fyrir hans hönd góðum starfslokasamningi.  Ég vona það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Jóhann M Þorvaldsson

    Þetta er frábær mynd sem hefur einn galla. Það kom ekki nógu skýrt fram hve mikla aðstoð Sigurður dýralæknir veitti Jóni með kindurnar og lömbin. Jón tók á móti þeirri hjálp sem dýralæknirinn veitti honum. Ef aðrir aðilar hefðu brugðist við og hjálpað honum eins og Sigurður gerði, hefðu úrslitin ef til vill orðið öðru vísi en myndin sýndi.

Höfundur