Það er eitthvað að í kirkju sem lætur annað eins viðgangast og það sem átti sér stað norður í Árnesi og við urðum vitni að í heimildarmyndinni Jón og séra Jón í sjónvarpinu í gær. Jón Ísleifsson, höfðuðersóna myndarinnar er ljúfur drengur með góða og mikla eðliskosti. Hann er hins vegar augljóslega haldinn einhverju afbrigði af því sem leikmenn telja þunglyndi getur ekki séð almennilega um sig, komið sér til verka og hefur ekki í sér öll þau vopn sem duga til að halda sínu í flóknu valda og hagsmunatafli heimsins. Það er hins vegar bita munur en ekki fjár á honum og fjöldamörgum öðrum. Jón er hins vegar ólíkt mörgum ágætur guðfræðingur sem skautaði ágætlega gegnum Guðfræðideildina og nokkur heimspekingur og þjónar fallega sem prestur.
Yfirmenn kirkjunnar hafa annað hvort ekki haft vald eða vilja til þess að koma í veg fyrir að svona sorgarsaga þróist. Í fyrsta lagi er það tóm vitleysa að leyfa viðkvæmum manni eins og Jóni að fara norður í svartnætti vetra og hríðabylja einangrunar og fásinnis. Í öðru lagi þá átti að grípa inní miklu fyrr. Þó að saka megi biskupa og prófasta um sinnuleysi þá er einkum hér sennilega við kirkjuskipanina að eiga. Sjálfstæði presta gagnvart yfirvaldi geistlegu og borgaralegu er nauðsynlegt en bæta þarf úrræði til að grípa inní.
Ekki skal lagður dómur á það hvort að nágrannar Jóns hefðu mátt styðja hann betur og vart verður því trúað að þeir hafi stuðlað að brottför hans í eiginhagsmunaskyni. Málið er fyrst og fremst áfellisdómur fyrir kirkjuskipanina.
Séra Jón, úr því að hann hlaut vígslu, hefði átt að vera í Reykjavík innan um aðra presta. Hann hefði helst plummað sig í kirkju þar sem heimilishagir hans og einkennilegir hættir hefðu ekki komið neinum við. Fólk hefði séð hann greiddan og strokinn eftir fyrirmælum kirkjuvarða og sampresta, í hátíðarbúningnum lesandi fallega úr biblíunni, flytjandi skondnar og skemmtilegar ræður. Ég hef séð hann skíra. Hann gerir það mjög fallega.
Og gaman var að sjá Harald Blöndal lögfræðing í myndinni. Sá látni heiðursmaður hefur örugglega reynst Jóni vel og náð fyrir hans hönd góðum starfslokasamningi. Ég vona það.
Þessum góða manni kynntist ég vel þegar ég vann í Blönduvirkjun á árunum 1988 til 1990. Var ég þá eftirlitsmaður (vann með námi í HÍ) og þar var hann í múrverki og spurði ég hann til nafns. Þá kom; ,,Jón heiti ég Ísleifsson og er prestur…“. Þetta skrifaði ég samviskusamlega í dagsskýrsluna á meðal upplýsinga um múrara og smiði. Þetta er stórmerkilegur maður vægast sagt og áttum við oft gott spjall saman um heimspeki og lífið. Myndin sýndi meðferð á góðri sál sem samfélagið fór illa með þarna fyrir vestan. Hann var í myndinni mjög líkur sér og sannur. Megi Guð geyma hann en ég á eftir að fá mér kaffi með honum ef ég næ í hann og taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið fyrir rúmum 2 áratugum.
Smáborgaraskapur og fullkomið getuleysi einkennir kirkjuklanið á Íslandi. Útfrá þessari heimildamynd var ekki hægt að koma auga á glæp séra Jóns. Afstaða biskups til veraldlegra hluta er með eindæmum slök og forsnobbuð. Síðasta útspil bikups, að tala gegn Landsdómi, sýnir að komið er að miklum kaflaskilum íslensku þjóðkirkjunnar. Framvegis sér maður ekki þjóðkirkjuna öðru vísi en eins og hvern annan sértrúarsöfnuð.
Jón Ísleifsson er vel stæður leigusali í Reykjavík nú um stundir. Væntanlega byggir hann að einhverju leyti á auð sem honum tókst að byggja upp sem starfsmaður kirkjunnar og ábúandi hlunnindajarðarinnar í Árnesi. Einnig hefur sennileg hjálpað honum að eyða aldrei krónu fyrr en í fulla hnefana.
Nú er nokkuð síðan ég sá myndina í bíó, og ég er orðinn frekar fljótur að gleyma. En gerði séra Jón svo sem nokkuð af sér? Mig minnir fermingin sem sýnd var bara hafa verið fín. Og boðskapurinn þarf ekki að vera neitt verri þótt prestur sé í gallabuxum undir hempunni. Hversvegna þurfa annars prestar að vera í hempu? Var Jesús í hempu? Hefði kannski séra Jón átt að vera í Bústaðakirkju og sá sem þar var um sinn átt að vera á Ströndum? Spyr sá sem ekki veit. Svo var víst einhvern tímann prestur á Snæfellsnesi sem gerði góða hluti jafnt í kirkju sem í vélaviðgerðum og lét, ef marka má Stefán Jónsson (Mínir menn), syngja í vertíðarlok sálm með númeri þess báts sem var aflahæstur og vonaði í lengstu lög að það yrði ekki nr. 82!