Það er eitthvað að í kirkju sem lætur annað eins viðgangast og það sem átti sér stað norður í Árnesi og við urðum vitni að í heimildarmyndinni Jón og séra Jón í sjónvarpinu í gær. Jón Ísleifsson, höfðuðersóna myndarinnar er ljúfur drengur með góða og mikla eðliskosti. Hann er hins vegar augljóslega haldinn einhverju afbrigði af því sem leikmenn telja þunglyndi getur ekki séð almennilega um sig, komið sér til verka og hefur ekki í sér öll þau vopn sem duga til að halda sínu í flóknu valda og hagsmunatafli heimsins. Það er hins vegar bita munur en ekki fjár á honum og fjöldamörgum öðrum. Jón er hins vegar ólíkt mörgum ágætur guðfræðingur sem skautaði ágætlega gegnum Guðfræðideildina og nokkur heimspekingur og þjónar fallega sem prestur.
Yfirmenn kirkjunnar hafa annað hvort ekki haft vald eða vilja til þess að koma í veg fyrir að svona sorgarsaga þróist. Í fyrsta lagi er það tóm vitleysa að leyfa viðkvæmum manni eins og Jóni að fara norður í svartnætti vetra og hríðabylja einangrunar og fásinnis. Í öðru lagi þá átti að grípa inní miklu fyrr. Þó að saka megi biskupa og prófasta um sinnuleysi þá er einkum hér sennilega við kirkjuskipanina að eiga. Sjálfstæði presta gagnvart yfirvaldi geistlegu og borgaralegu er nauðsynlegt en bæta þarf úrræði til að grípa inní.
Ekki skal lagður dómur á það hvort að nágrannar Jóns hefðu mátt styðja hann betur og vart verður því trúað að þeir hafi stuðlað að brottför hans í eiginhagsmunaskyni. Málið er fyrst og fremst áfellisdómur fyrir kirkjuskipanina.
Séra Jón, úr því að hann hlaut vígslu, hefði átt að vera í Reykjavík innan um aðra presta. Hann hefði helst plummað sig í kirkju þar sem heimilishagir hans og einkennilegir hættir hefðu ekki komið neinum við. Fólk hefði séð hann greiddan og strokinn eftir fyrirmælum kirkjuvarða og sampresta, í hátíðarbúningnum lesandi fallega úr biblíunni, flytjandi skondnar og skemmtilegar ræður. Ég hef séð hann skíra. Hann gerir það mjög fallega.
Og gaman var að sjá Harald Blöndal lögfræðing í myndinni. Sá látni heiðursmaður hefur örugglega reynst Jóni vel og náð fyrir hans hönd góðum starfslokasamningi. Ég vona það.
Sínum augum lítur greinilega hver á þessa mjög svo skemmtilegu, mannlegu heimildarmynd.
Þekki ekkert til þess sem þú talar um Baldur. Fannst satt að segja myndin í sjálfu sér ekki fjalla um þessa „sorgarsögu“ sem þú talar um.Eða hvað var látið „viðgangast“. Þar ert þú væntalega að vísa ítarlegar í aðdragandann. Fyrst og fremst kynntumst við áhorfendur afar vel mjög sérstæðum manni. Aldrei séð fylgst jafn vel með Íslendingi við störf sín. En vel að merkja, þar voru preststörfin ekki stór hluti. Enda hafa þau vart verið annrík alla jafna í svona afskaplega fámennri sókn. Greinilega þrekmenni til verklegrar vinnu en ekki lagið að létta sér störfin. Aðfarir minntu stundum á ónefnda persónu í spaugstofunni.
Hún var vissulega sorgleg i endinn þessi mynd. En við kynntumst svo vel hversdagslegri hlið séra Jóns að áhorfendur vissu vart hvað hann hafði stórt til saka unnið. Hvers vegna hann var svona leikinn af sóknarbörnum og yfirmönnum sínum. Jón viðurkenndi af hreinskilni bresti sína. Sem voru nokkrir. En fyrirgefningin virðist oft á tíðum jafn víðsfjarri hjá geistlegum þjónum sem og almenningi.
Ég finn til með séra Jóni ekki síst fyrir hversu vanmáttugur hann er gagnvart öðru fólki. Oft kom mér í hug boðskapur Jesú Krist um fyrirgefninguna þegar ég horfði á myndina og fannst sá boðskapur ekki ná til sóknarbarna hans né til þeirra embættismanna sem að málinu komu. Hvernig má það til dæmis vera að gerð sé athugasemd og hún færð til bókar um ójöfnur í steyptu gólfi í óupphitaðri skemmu og notað gegn ábúðarrétti séra Jóns!? Hvers vegna komu sóknarbörn hans honum ekki til hjálpar í hans neyð?
Ég finn til með séra Jóni!
Þessi heimildarmynd hefur fengið nokkra umfjöllun að undanförnu og þá hefur meðaumkun sérstaklega beinst að sér Jóni. Auðvitað finnur maður til með einstaklingi sem kominn er í þessa stöðu. Hin hliðin er sjálfsagt sorgleg líka. Vegna þess að viðbröggð sóknarbarna eru ekki af mannvonsku. Ástand sem þarna virðist hafa skapast hefur verið þungbært í litlu samfélagi. Mál sem þetta er ekki einsdæmi og einskorðast ekki bara við presta.
Við fjölskyldan horfðum á myndina saman og sonur minn tíu ára sagði eftir á að honum hafði fundist Sigurður Sigurðarson koma vel fram við Jón og bera virðingu fyrir honum en mennirnir sem komu að taka út jörðina vera dónalegir og ekki kunnað almanna mannasiði. Þetta sjá meira að segja börnin.