Mánudagur 09.01.2012 - 14:02 - Lokað fyrir ummæli

Jón Ísleifsson

Það er eitthvað  að í kirkju sem lætur annað eins viðgangast og það sem átti sér stað norður í Árnesi og við urðum vitni að í heimildarmyndinni Jón og séra Jón í sjónvarpinu í gær.  Jón Ísleifsson, höfðuðersóna myndarinnar er ljúfur drengur með góða og mikla eðliskosti.  Hann er hins vegar augljóslega haldinn einhverju afbrigði af því sem leikmenn telja  þunglyndi getur ekki séð almennilega um sig, komið sér til verka og hefur ekki í sér öll þau vopn sem duga til að halda sínu í flóknu valda og hagsmunatafli heimsins. Það er hins vegar bita munur en ekki fjár á honum og fjöldamörgum öðrum.  Jón er hins vegar ólíkt mörgum ágætur guðfræðingur sem skautaði ágætlega gegnum Guðfræðideildina og nokkur heimspekingur og þjónar fallega sem prestur.

Yfirmenn kirkjunnar hafa annað hvort ekki haft vald eða vilja til þess að koma í veg fyrir að svona sorgarsaga þróist. Í fyrsta lagi er það tóm vitleysa að leyfa viðkvæmum manni eins og Jóni að fara  norður í svartnætti vetra og hríðabylja einangrunar og fásinnis.  Í öðru lagi þá átti að grípa inní miklu fyrr. Þó að saka megi biskupa og prófasta um sinnuleysi þá er einkum  hér sennilega við kirkjuskipanina að eiga.  Sjálfstæði presta gagnvart yfirvaldi geistlegu og borgaralegu er nauðsynlegt en bæta þarf úrræði til að grípa inní.

Ekki skal lagður dómur á það hvort að nágrannar Jóns hefðu mátt styðja hann betur og vart verður því trúað að þeir hafi stuðlað að brottför hans í eiginhagsmunaskyni.  Málið er fyrst og fremst áfellisdómur fyrir kirkjuskipanina.

Séra Jón, úr því að hann hlaut vígslu, hefði átt að vera í Reykjavík innan um aðra presta.  Hann hefði helst plummað sig í kirkju þar sem heimilishagir hans og einkennilegir hættir hefðu ekki komið neinum við. Fólk hefði séð hann greiddan og strokinn eftir fyrirmælum kirkjuvarða og sampresta, í hátíðarbúningnum lesandi fallega úr biblíunni, flytjandi skondnar og skemmtilegar ræður.  Ég hef séð hann skíra.  Hann gerir það mjög fallega.

Og gaman var að sjá Harald Blöndal lögfræðing í myndinni.  Sá látni heiðursmaður hefur örugglega reynst Jóni vel og náð fyrir hans hönd góðum starfslokasamningi.  Ég vona það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Hulda Guðmundsdóttir

    Myndin um Jón/sr. Jón segir fátt nýtt. Hún birtir bara getuleysi okkar innan kirkju og utan til að taka á erfiðum málum. Við látum mál dankast úr hömlu, þar til komið er í óefni af því okkur skortir myndugleik til að vera eins og barnið sem benti keisaranum á að hann væri ekki í neinu. Hér varð hrun, efnahagslegt og siðferðilegt – en göngum við ekki enn með augnleppana og þjónum þeim hagsmunum sem hentar hverju sinni?

  • Ólafur Sveinsson

    Maður tók ekki eftir myndavélinni, alla myndina. Frábært.

  • Herdís Hjörleifsdóttir

    Ég horfði á þessa mynd um alveg einstakan karakter, sr. Jón sem ekki rekst eins og aðrir Jónar í þessu samfélagi. Samfélagið hefur ekki mikið umburðarlyndi gagnvart slíkum einstaklingum nema þá í mynd, þar sem vel tekst til og hættir okkur þá til að skammast út aðra sem hlut eiga að máli. Samúð mín er bæði til sr. Jóns og nágranna hans, sem ekki hafa viljað sjá jörðina eins og ruslahaug og/eða átt í erfiðum samskiptum við hann. Því miður er það svo að málin eru látin ganga allt of langt áður en nokkuð er aðhafst. Að mínu mati hefði átt að setja honum skilyrði um að fá verktaka til að laga bæði úti- og íbúðarhús eins og að taka til á jörðinni. Hann hefði auðveldlega átt að geta greitt fyrir það af launum sínum og hlunnindum. Það kom greinilega fram í myndinni að hann tók leiðbeiningum vel eins og t.d. með að fita sauðféð. Sennilega hafa honum verið sett skilyrði þar.
    Mér fannst yndislegt að horfa á hvað dýralæknirinn kom vel fram við sr. Jón og hvað sr. Jón var rólegur gagnvart þeim sem á hann sóttu.
    þessi mynd fékk mig til að hugsa og er ég enn að velta mörgu fyrir mér og vona að ég læri af.

  • Örn Friðriksson.

    Það er sorglegt fyrir samfélagið og kirkjuna að hafa þurft að láta þetta fara svona. Séra Jón kom mér fyrir auga sem ágætis kennimaður. Honum vantaði félagskap. Hann var sí vinnandi. Vantaði kannski eitthvað uppá snyrtimanninn Jón. Mér fannst vanta það hjá samfélaginu niðra að veita honum félagsskap. Ég hélt að svona lítið samfélg ætti að vera fegið hverri sál sem þar vildi búa. Það var allavega svo í minni sveit í Svartárdalnum. Okkur nútímamanninum vantar oft að kunna að greina aðalatriðinn frá hisminu. Það er eitt sem er alveg víst að Séra Jón Ísleifson er ekki karterlaus flatneskja. Maður mun muna eftir honum eftir að hafa séð þessa mynd.

Höfundur