Föstudagur 16.03.2012 - 11:28 - Lokað fyrir ummæli

,,Kellingin“ að gera sig!

Svei mér þá ég hef sennilega haft rétt fyrir mér þegar ég fyrir ári síðan taldi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur væri ein sú besta frá stríðslokum. Jafnaði henni við Viðreisnarstjórnina á upphafsárum hennar, minnir mig.  Enn þjáumst við vegna þess hvað Íslandi var illa stjórnað á árunum fyrir hrun en nú er allt á uppleið eftir undraskamman tíma.  Samkvæmt Hagstofu Íslands þá jókst landsframleiðsla að raungildi um 3.1% á árinu 2011- hér er mun meiri hagvöxtur en í flestum ríkjum. Einkaneysla jókst um 4% og fjárfesting um 13.4%. Atvinnuleysi fer minnkandi.   Og við erum að greiða niður erlend lán langt á undan áætlun.

Þessum árangri höfum við náð þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hefur búið við eina óbilgjörnustu og ósvífnustu stjórnarandstöðu sem Íslendingar hafa kynnst.  Hún er blandin kvenfyrirlitningu sem lýsir sér í því að háir sem lágir íhaldsmenn vísa í Jóhönnu Sigurðardóttur sem kellinguna.  Það eru margir sem mega ekki til þess hugsa að vinstri stjórn undir forystu konu leiði Ísland upp úr öldudalnum sem hægri mennirnir skelltu landinu í með stjórnarstefnu sinni og andvaraleysi sem var afleiðing af því að þeir höfðu alltaf tögl og haldir á öllu og höfðu ekki tamið sér að reka skipulegt  samfélag.

Og nú berjast þeir um á hæl og hnakka .

(Hægt er að kommentera á færsluna á facebook.  Athugasemdir frá illfyglum þó ekki þegnar)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur