Sunnudagur 08.04.2012 - 08:20 - Lokað fyrir ummæli

Hugleiðing á páskadagsmorgni!

,,Jesú er upprisinn, hann er svo sannarlega upprisinn.  Hann fer á undan yður til Galíleu og þar munuð þér sjá hann…..“

Hann er búinn að vera í  dánarheimi síðan á föstudag, en þá var hann krossfestur en það var aftökuaðferð Rómverja.  Menn voru negldir upp á kross í gegnum úlnliðina, þetta var alvöru og þar héngu  menn í 2-6 tíma þá sliguðust þeir þ.e. gátu ekki haldið sér uppi og köfnuðu – ógeðsleg aðferð –  þarna hengu menn og gátu horft á grátandi börnin sín og maka þar til þeir misstu meðvitund.  Gyðingar gerðu uppreisn með ca. 60 ára millibili og þá krossfestu Rómverjar nokkur þúsund manns að börnum ásjáandi.  Þau börn gerðu ekki uppreisn en barnabörnin höfðu ekki séð þetta og sú kynslóð hélt að hún gæti unnið Rómverjana og lét krossfesta sig.  Það var mikið um krossfestingar um þetta leyti, menn voru búnir að gleynma krossfestingunum sem voru ca. 57 fyrir Krist og héldu að þeir gætu staðið upp í hárinu á Rómverjum.

Annars var Jesú sérstakur enda var hann krossfestur með tveimur búðarþjófum en menn hafa alltaf tekið mjög strangt á smáhnupli en sleppt stórþjófunum, jafnvel gert bandalag við þá. Með réttu hefði hann átt að krossfestast ásamt allri miðstjórninni, lærisveinunum 12 sem  sagt, en hann var sérstakur eins og ég sagði, þeir báru ekki vopn (þó skar Pétur eyrað af einum Rómverskum hermanni en Jesú græddi það strax á aftur) og Jesú sagði að ríkið sitt væri ekki af þessum heimi.  Rómverjarnir litu því ekki á hann sem neina sérstaka ógn eins og kemur fram en það gerðu leiðtogar trúarasafnaðarins.  Þeir  vildu próflausa menn feiga sem ógnuðu veldi kirkjunnar og fengu hann dæmdan en þeim stóð engin ógn af lærisveinunum sem þeir vissu að voru bara venjulegir menn utan af landi sem létu sig í þokkabót hverfa í mannfjöldann og Pétur sem hefur verið stór og skeggjaður og gat illa leynst neitaði því staðfastlega að hann hefði nokkuð vitað um þennan mann sem búið var að taka til fanga.

Að Jesú skyldi rísa upp frá dauðum, eins og haft var fyrir satt,  töldu menn sanna staðhæfingu hans að hann væri Guðs sonur og sáu nú allt sem hann hafði sagt í nýju ljósi.  Þeir sannfærðust um að hann hefði yfirunnið dauðann og að hér eftir myndu þeir sem ,,sofnuðu“ njóta þess og fara þangað sem hann fór. Enn í dag huggum við okkur við það.

Það er fyrst og fremst það sem við eigum við með von páskanna.  En við yfirfærum vonina líka yfir á veröldina sem við þekkjum.  Við tölum um upprisuna í lífinu. Fyrst að Jesú gat risið upp frá dauðum hljótum við að geta risið upp eftir að hafa misst ástvin eða orðið fyrir áfalli af einhverjum toga.  Við prédikum það að alltaf sé ljós við sjónarrönd,  ætíð  vonarglæta, aldrei ástæða til að gefast upp.  Þetta eigi við í stóru sem smáu.

Þarna má tala um jákvæð áhrif kristinnar trúar. Vonin sem auvitað er ekki sérkristin, heldur sameiginleg öllu lífi,  dýrin vona ekkert síður en við, bjarndýrið heldur áfram að leita að sel fram í rauðan dauðann og selurinn reynir að komast undan þó öll sund virðist lokuð.  En kristnin hefur lagt áherslu á þessa von og talið hana til grunngilda sinna ásamt trú og kærleika. Þessi brýning kristninnar hefur örugglega gert mörgum manninum gott.  Margir hafa fyrir þessa brýningu yfirstigið ótrúlegustu erfiðleika.

Án vonar erum við vonlaus eðlilega og einhvern veginn leggjum við upp laupana. Við t.d. jöfnum ekki körfuboltaleik ef við höfum ekki von.  Vonin er drifkraftur. Kynslóðir lifa fyrir vonina um bætt kjör, minna strit og meiri mat betri aðbúnað þó að hið góða líf  hafi alltaf verið bara fyrir fáa. Í því stóra samhengi má segja að von sé haldið að fólki til þess að halda því góðu. Það myndi vera fölsk von.

Svo leggur prédikun kirkjunnar líka mikið upp úr því að allt verði nýtt. Hægt sé að slá striki yfir þaðsem orðið er og hefja nýtt líf. Skilja eftir illsku og vonsku og vopna sig hreinleika og sannleika.  Kristur varð nýr.  Hann dó alveg en reis síðan upp þá getum við í lífinu látið hinn gamla mann okkar deyja og orðið ný.  Þannig reynum við sem fæðumst inn í hið kristna umhverfi að nýta okkur sögu Krists til þess að uppbyggja hvort annað og okkur sjálf.

Og við skulum halda áfram að gera það, vera vonglöð og jákvæð, vona hið besta. Staðan er aldrei það slæm að ekki sé von hvort sem er í leik eða lífinu sjálfu.  Það sakar alltjent ekki að vona hið besta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur