Mánudagur 09.04.2012 - 10:14 - Lokað fyrir ummæli

Að vakna upp í blómabrekku!

Jóhannesarguðspjall er skrifað í borg í Litlu Asíu og það er greiniegt að það er skrifað í andlegu umsátri óvinveittra.  Sverðið hangir yfir frásögninni sem er hröð.  Æðrist ekki þó að heimurinn hati yður.  Prédikun biskups á páskadag ber sama keim.  Hún er greinilega rituð í óvinsamlegu um hverfi eða slík er upplifun prédikarans.  Sem er í hópi ágætustu prédikara samtímans þegar honum tekst vel upp.

Nú er það svo að orðbragðið í kommenterakerfi vefsíðna særir hvern  þann sem ann kirkjunni og hennar boðskap. Þar hefði margt mátt segja af meiri íhygli og yfirvegun. Bæði af virðingu fyrir fólkinu sem starfar í kirkjunni og líka bara út frá almennum meðalhófsreglum í orðfæri.  En þetta á sér auðvitað skýringar í því að það er svo auðvelt að láta gossa í bloggheimum, það er áhættulaust með öllu að níðast á kirkjunni og fá útrás við það fyrir sínar eigin frústrasjónir.

Svo er það auðvitað svo að kirkjan á sína djöfla sem hún hefur þurft að draga en hún hefur kófsveitt verið að vinna að því að skera þá burt undanfarin 17 ár og hefur nú betri farvegi í kynferðisbrotamálum en títt er.  Þá er kirkjan almennt talað umburðarlynd og víðsýn. 

Enda er það svo að kirkjan býr ekki við fjandskap þjóðarinnar.  Alls ekki.  Krakkar eru upp til hópa allir skírðir og fermdir.  Prestarnir eru flestir vel liðnir.  Það er frekar að kirkjan búi við áhugaleysi. Heimurinn hefur breyst svo mikið undanfarna áratugi að ekkert sem áður var í föstum skorðum hefur haldist í þeim skorðum. Þar með talin trú manna.  Hún hefur gjörbreyst.

Ég held að fólk hafi trúað meir og betur á líf eftir dauðann hér áður fyrr.  Menn þurfa á  því að halda þegar dánartíðni er há, sérstaklega barna.  Þegar hú er lág, mjög lág dofnar trúin. Ekki síst þegar vísindin hafa eyðilagt hina notalegu, góðu, skipulegu heimsmynd sem fyrri tíðar menn bjuggu við.  Það er löngu orðið ljóst að við fljúgum hér um á grjóti í óravíddum sem mannsheilinn nemur ekki og í prédikun  okkar er Guðekki lengu í skýjum himins heldur  heimilisfastur í hjörtum mannanna, í góðum nágranna, jafnvel í garðslöngunni.

Spírítisminn er dauður.  Sú yndæla tilfinning að við hoppuðum milli hnatta og sérstakar Íslendinganýlendur væru í heimum dauðra er ekki lengur til staðar.   Það er búið að útrýma því að maður vakni upp í blómabrekku, eigi þar sitt eigið hús og bíði eftir sínum.

Og við erum of vel lesin til þess að trúa bara Biblíunni bókstaflega. Að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum. Heilagur andi hafi átt barn með Maríu og að á dómsdegi rísi dauðir úr gröfum sínum, hafið skili sínu og þeir sem ekki hafi játast Kristi þeim verði hent í eldinn.  Meðan við bíðum eftir þessu getum við alið á gömlum fordómum, þjösnast á hommum og gætt þess að konur verði ekki biskupar og helst ekki prestar.

Með öðrum orðum.  Ég og biskupinn lifum ekki í heimi sem er okkur fjandsamlegur. En hann er orðinn fremur áhugalaus um hefðbundna trú.  Kirkjan er þó ekki búin að vera frekar en trúin þó ég sjái það nú ekki fyrir mér að við myndum fara í stríð út af henni.  Kannski bara að það sé þroskamerki. Að við séum á braut sem Jesú Kristur hratt af stað að losa okkur undan hvers kyns lögmáli, kreddum og fáránlegheitum.

(Þetta er svo bara bloggfærsla en ekki endanleg grafskrift höfundar)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur