Fimmtudagur 28.06.2012 - 09:35 - Lokað fyrir ummæli

Reykjadalur – dásemd í alfaraleið-

Fór í fyrsta sinn í Reykjadal í Ölfusi upp af Hveragerði í fyrradag.  Skokkaði léttklæddur alveg inn í botn þar sem fólk var að baða sig í heitum læknum. Hvílík dýrðarinnar dásemd þetta er.  Þessi dalur á Hengissvæðinu sem spennir sig frá Hveragerðisbotnum og upp í miðja Hellisheiði jafnast á við það fegursta og sérkennilegasta  og heitasta í íslenskri náttúru hvar sem borið er niður.  En Reykjadalur er skýrt dæmi um dásemd sem gæti drabbast niður vegna átroðnings og hann er þegar farinn að láta á sjá. Áður var þessi dýrð í vitund fárra.  Sem betur fer vita nú fleirri af honum en áður þar á meðal ferðaþjónustufyrirtæki en þarna er komið skýrt dæmi um það að við verðum að vinna betur á ferðamannanáttúruverndarsviðinu.  Með einhverjum hætti þarf að hafa hemil á þeim fjölda sem um Reykjadal fara.  Það þarf að styrkja viðkvæma lækjarbakkana þar sem fólk baðar sig og lagfæra göngustíga án þess að spilla um of tilfinningunni um að þetta sé lítt snortið svæði. Ég reikna með að ferðamálayfirvöld og Sveitarfélagið Ölfus hafi legið yfir úrbótatillögum.  Annað væri trassaskapur.

Að mínum dómi ætti að byrja á því að gefa fólki kost á að kaupa aðgangskort sem fæli í sér tryggingu fyrir ferðamanninnn ásamt viðurkenningu á því að hafa farið á þetta svæði og styrkt með kaupunum viðhald svæðisins og eftirlit með því.  Að mínum dómi myndu allmargir etv. flestir ferðamenn kaupa sér svona kort sem fæli í sér samstarf við heimamenn og ferðamálayfirvöld.  Þeir sem hlypu dalinn oft myndu aðvitað bara kaupa kort af og til. Hvað sem gert verður þarf að huga að þessum málum fyrr en seinna áður en óbætanlegur skaði verður á náttúrufegurð dalsins.

Höfundur er leiðsögumaður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Höfundur