Mánudagur 24.12.2012 - 09:56 - Lokað fyrir ummæli

Í tilefni jólanna!

Í Bretlandi liggja stjórnmálamenn undir ámæli frá kirkjunnar mönnum fyrir það að lögleiða giftingar samkynhneigðra.  Biskupar ásaka leiðtoga Íhaldsflokksins fyrir það að vera, í frjálslyndi sínu,  á skjön  við mikinn meirihluta kristinna manna.  Kirkjunnar menn í Bretlandi hafa þó verið fullvissaðir um það að engin kirkjudeild verði neydd til þess að framkvæma þessar athafnir.

Þetta sýnir með öðru hvað við á Íslandi erum komin langt þó við séum ekki komin alla leið. Prestar og forstöðumenn safnaða á Íslandi geta enn, þegar kemur að giftingu, gert ,,samvisku sinnar vegna“  greinarmun á fólki eftir kynhneigð en þeir eru fáir eða nokkrir sem notfæra sér það.  Það tekur oft kynslóðir að grafa gamla fordóma hvort sem þeir eru klæddir í trúarlegan búning eða ekki.

Það er annars eftirtektarvert hvað fylgjendur Jesú Krists  sem sjálfur er sagður hafa skorað á hólm viðteknar venjur og ráðist  á gamlan fúa eru íhaldssamir á flest allt sem þeir alast upp við.  Trúarsetningar negla oft niður það sem viðtekið hefur verið, reka það fast, leiða jafnvel til hörku og óbilgirni þess sem þykist hafa stimpil Guðs á lífssýn sinni og athöfnum.   Í hina röndina hvetur trúin til endurmats allra hluta, ekki sé allt sem sýnist, boðar það að allt verði nýtt, kærleikur Guðs sé sterkasta aflið, ást Guðs eilíf og fari aldrei í manngreinarálit.  Má kannski  segja að í trúarbúning séu færðar tvær meginstoðir hugans sem takast í sífellu á um yfirráðin. Önnur stoðin leitast við að viðhalda því sem er.  Hin leitast við að opna fyrir nýja sýn, skapa nýjan raunveruleika, nýjan heim.

Ég er ekki viss um að trúaðir séu neitt öðru vísi en vantrúaðir þegar grannt er skoðað.  Þeir trúuðu klæða lífsýn sína í annars konar(og viðameiri ) búning en þeir vantrúuðu.  Þeir trúuðu ganga inn í heim tákna sem gjarnan virka heimskuleg á þá sem ekki eru innvígðir.  Ég hygg að það sé persónubundið hvort menn hafi þetta trúargen sem trúin nærir eða nærir trúna.  Hafi menn það ekki skilja þeir ekki hinn trúaða fremur en hinn samkynhneigði skilur þrá hins gagnkynhneigða. En þetta er auðvitað eins og annað misjafnt eins og gengur.

En á jólunum gefst okkur tækifæri til að boða réttlæti og frið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur