Mánudagur 07.01.2013 - 15:49 - Lokað fyrir ummæli

Sóknargjöld/félagsgjöld?

Menn þrátta um það hvort að svokölluð sóknargjöld séu félagsgjöld eða framlag ríkisins til kirkjunnar.  Sóknargjöld eiga sér lagastoð frá 1909.  Þá leysa ný lög af hólmi lög um tíund.  Fram til 1988 eru sóknargjöldin  innheimt af sóknarnefndunum sjálfum. Með lögum frá áraótum 1987/88 tekur ríkið að sér að innheimta sóknargjöld með þeim hætti að þau verða hlutdeild í tekjuskatti.  Föst upphæð sem skyldi verðtryggð skv. ákveðinni formúlu.  Ráðherrar sem ég hef rætt við frá þessum tíma segja mðer að tilgangur laganna hafi verið sá að gera kirkjunni gott eitt til, treysta stöðu hennar en innheimta sóknargjalda gekk oft brösulega í höndum sóknarnefndanna sjálfra.  Kirkjan á þeim tíma og síðar leit þannig á að að ríkið væri að taka að sér þessa innheimtu og tryggja þannig stöðu kirkjunnar og annarra trúfélaga, en væntanlega hafa önnur trúfélög eflst við það að fá innheimtuna á hreint.

Engin leynd yfir því að með þessum lögum batnaði fjárhagur trúfélaga verulega.  Fjárhagslegur uppgangstími hófst í Þjóðkirkjunni og veitti ekki af því að uppbygging í þéttbýlinu hafði verið hæg.

Ekki var annað að sjá en að upphæðin í lögunum frá 1988 væri trygg. Hins vegar er búið þannig um hnúta í íslenskum lögum að fjárlög geta hnekkt upphæðum sem gert er ráð fyrir í almennum lögum.  Menn fóru enda fljótt að skerða þessi framlög í fjárlögum og var Ólafur Ragnar fyrsti fjármálaráðherrann sem stóð fyrir slíku um 1990.  Síðan ráðherrar af og til þ.á.m. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokkins. Þetta var samt ekki mikil skerðing og kirkjan undi nokkuð glöð við sitt.

Eftir hrun, þegar hver króna verður dýrmæt  skerða stjórnvöld sóknargjaldið verulega mörg ár í röð.  Eðlilega fer að hvína í kirkjunnar mönnum sem bæði voru skuldsettir og buðu upp á öflugt og gott starf.  Um rétt ráðherra efast nú enginn lengur en kirkjunni finnst réttilega að miðað við sögu þessa gjalds, eðli þess og tilgang sé óeðlilegt að ríkið skerði  það að vild.  Sögulega séð er þetta félagsgjald þ.e. gjald innheimt af þeim sem eru í trúfélaginu þó að í hagræðingarskyni hafi gjaldið verið sett upp sem hlutfall af tekjuskatti.

Hitt er rétt að þetta er ekki félagsgjald í hefðbundnum skilningi. Það er t.d. bara innheimt af þeim sem borga tekjuskatt.  Og…ef þetta er félagsgjald…. hvers vegna er það þá innheimt af þeim sem ekki eru í neinu trúfélagi. Gjald slíkra rann til Háskólans skv. lögunum frá 1987 en síðan 2009 beint í ríkissjóð.  Spyrja má:  Ef þetta er félagsgjald, með einhverjum hætti, sem það óneitanlega er, er þá ekki ríkið að skattleggja þá sem ekki eru í neinu trúfélagi umfram hina?  Það er mismunun!!  Mismunun á ekki að líð hvorki í þessum efnum né öðrum.  Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur gert athugasemd við þetta og finnst mér og hef sagt áður og segi enn að íslensk stjórnvöld eigi að taka mark á slíkum athugasemdum.

Niðurstaða mín er sú að sóknargjald sé félagsgjald í eðli sínu en með lögunum frá 1987 í röngum búningi og í raun ólölögmætum og vísa ég þá til stöðu þeirra sem ekki eru í neinu trúfélagi. Báðir aðilar hafa því nokkuð til síns máls.

Vilji menn hins vegar ræða um framlög til kirkjunnar ættu þeir að skoða framlög í Jöfnunarsjóð sókna(lög frá 1988) Kirkjumálasjóð (frá 1993).  Þetta eru upphæðir upp á ca. 500 milljónir sem Þjóðkirkjan nýtur umfram önnur trúfélög.  Ekki má gleyma því að báðir þessir sjóðir eyða miklu fé í viðhald menningarverðmæta og kirkjan sjálf, saga hennar og tilvist er hluti af sögu og tilvist þjóðar og allt það, en til þess að jafnræði ríki milli trúfélaga(og lífsskoðunarfélaga þess vegna)mætti þetta fé renna til slíkra í samræmi við höfðatölu etv. að teknu tilliti til þeirrar efnislegu sögu sem kirkjan varðveitir t.d. í formi gamalla kirkna.

Ritað sjálfum mér til glöggvunar. Athugasemdir velkomnar á facebook.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur