Föstudagur 15.02.2013 - 10:49 - Lokað fyrir ummæli

Fylgst með Ögmundi!

Tilraunir Ögmundar Jónassonar að stöðva frjálst flæði kláms á netinu vekja víða athygli.  Takist honum og hans fólki að vinna með internetið þannig að landamæri ríkja virki og harðar klámsíður fokkist upp á leið sinni til landsins þykir mörgum sem mikilvægt skref sé stigið.

Þar á meðal þeim sem reyna að hamla gegn rasistaáróðri í Evrópu. Evrópuráðið í mynd ECRI hefur árum saman hvatt lærða og leika til þess að leita leiða til að hamla hömlulausri dreifingu á því sem ég vil kalla rasistaklám, innan vébanda Evrópu.  Þetta eru síður sem eru fullar af hatursáróðri sem er ólöglegur og hvatt er beint eða óbeint til ofbeldis- og níðingsverka.  Þetta eru gjarnan heimasíður samtaka sem eru bönnuð vegna ofbeldisfullra markmiða sinna.

Þessar síður breiða út fagnaðarerindi rasismans, þar eru samhæfðar aðgerðir eins og t.d. þær að hittast á afmælisdegi Hitlers og berja á hommum.  Verkurinn er sá að þó að sum ríki Evrópu banni slíkar síður og uppræti þær þá leita síðumenn í þau ríki þar sem löggjöf nær ekki til þeirra og /eða eftirlit er slakt.

Gegn þessum ófögnuði hafa mönnum fallist hendur. Hafa ekki séð leiðir til þess að takmarka þennan ófögnuð, aðrar en þær að beina því til yfirvalda ríkja að taka á þessum með einum eða öðrum hætti.

Takist Ögmundi og hans fólki að sýna fram á árangur í sjálfsagðri baráttu sinni gegn ólöglegu klámi þá er ekki að vita nema stofnanir Evrópuráðsins nýti aðferðir hans í  baráttu sinni gegn internet rasisma.

Þeir sem óttast skerðingu á tjáningarfrelsi mega svo taka við sér þegar við erum búin að stemma stigu við klámi og rasisma (þessi svið mætast í mansali).  Á báðum þessum sviðum snýst tjáningarfrelsið upp í andhverfu sína.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur