Þriðjudagur 06.08.2013 - 11:27 - Lokað fyrir ummæli

Nýjan spítala, takk!

Ég hef átt í því óláni að þurfa að liggja á Landsspítalanum lengur en góðu hófi gegnir á síðustu misserum, bæði sem alvarlega veikur einstaklingur og sem nokkuð hress ráðgáta. Þrátt fyrir að vera svolítið kunnugur innviðum vegna ættingja og atvinnu kom það mér á óvart hvað spítalinn er kominn langt framyfir síðasta söludag, ef svo mætti segja. Innviðir fornfálegir, baðherbergi notuð sem geymslur, læknar og vaktir  í skotum sem  Guðjón Samúelsson hefur án efa hugsað sem útskot, sveittir menn á ferli við að tengja rándýr tæki, skortur á þjónustu sem bitnar á  aðstandendum sem verða að koma sé út og inn um bakdyr um helgar og svo mætti áfram telja.

Hið alvarlega er að brautin byrjaði í uppsveiflunni fyrir hrun þegar fjárframlög til viðhalds og tækjakaupa voru skorin ósleitilega niður og hélt skiljanlega áfram eftir hrun þegar engir peningar voru til og nú er svo komið að ekki verður við búið lengur.

Undirritaður hefur ekki verið hlynntur spítalabygginu á gömlu landspítalalóðinni, talið þar of þröngt en hefur tilhneigingu til að taka undir með þeim er gerst mega vita.  Yfirgnæfandi meirihluti þeirra telur þá áætlun sem í gangi er góða, búið er að taka af skarið og óheillaspor væri ef frá yrði horfið. Það hlýtur því að teljast forgangsverkefni að  byrja á og ljúka  byggingu nýs spítala svo að Íslendingar næstu ára geti legið við svipaðar aðstæður og þeir eru vanir heima hjá sér þegar heilsan svíkur og komist hreinlega að við háborð tækninnar en nú þegar ber á því að færri komast að en þurfa.

En eitt verð ég að segja áður en ég hætti. Í öllu mínu basli man ég ekki eftir skapvondum starfsmanni. Viðmótið er alveg einstaklega gott. Og enn er  fólk að samsama sig starfi hér þó að hæfileikar þess myndu opna þeim flestar dyr inn í betri aðstæður. En margir hafa auðvitað þegar farið og maður skilur þá mæta vel.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hilmar Þór

    Deili þessum skoðunum þínum og tel mikilvægt að ráðast í endurbætur á nú erandi húsnæði spítalans. En þær áætlanir sem stefnt er að ganga ekki að
    mínu mati. Þetta er allt of stórt á þessum stað og við höfum ekki efni á þessum áætlunum á þessum tíma. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti.

  • Friðrik Tryggvason

    Þá er gott að skera niður í óþarfa sem ríkið styrkir. Til dæmis að grunlaun presta eru hærri en grunlaun lækna, kæmust þið ekki af með minna? Mig rámar eitthvað með ríka menn og nálarauga. Síðan væri hægt að loka einhverjum kirkjum var bskupinn ekki að segja að þær væru hálftómar hvort eð er?

    Við getum borgað spítalan með peningunum sem fara í Kirkjuna, allir græða.

  • Ég held að læknar komist af með meira…….

Höfundur