Þriðjudagur 17.5.2016 - 15:56 - FB ummæli ()

Á annað þúsund misalvarleg reiðhjólaslys á ári

elliðvogur sl. Sumar

Elliðaárvogur sl. sumar

Á þessum tíma árs byrja reiðhjólaslysin að streyma inn á Bráðamóttöku LSH. Greinileg aukning hefur orðið á tíðni þessara slysa milli ára og þar sem fullorðnir eiga ekkert síður í hlut en börnin. Fólk sem hjólar þá gjarnan í vinnuna eða er að keppa við sjálft sig eða aðra á göngu/hjólastígum borgarinnar. Eins eftir slys sem orðið hafa við hjólreiðar utan stíga á fjallahjólum hverskonar, oft við afar slæm skilyrði.

Eitt það fyrsta sem maður spáir í móttöku þess slasaða, er hvort um höfuðáverka sé að ræða eða innvortis áverka eða blæðingar. Oftast hefur höfuðið orðið fyrir einhverju hnjaski og sem leitar jú fyrst niður í fallinu, ásamt höndum ef tími gafst til. En það var hjálmurinn sem oftast tók af mestan skaðann ef hann var notaður, þ.m.t. andlitsáverkana sem oft eru annars ansi ljótir. Í bílnum ertu oftast vel varinn í belti, en á hjóli hefur þú aðeins á eigið hjólaöryggi og hjálminn að treysta og sem fjöldi og alvarleiki áverka í hjólaslysum ber glöggt með sér.

Reiðhjólaslys voru 6,5% allra skráðra slysa hjá lögreglunni árið 2008 en hafði fjölgað upp í 20% árið 2013. Fjölgunin skýrist að hluta af betri skráningu lögreglu en ekki síður af mikill fjölgun reiðhjóla í umferðinni og sem hefur aukist enn til muna sl. 3 ár.

Ármann Jónsson læknir og félagar gerðu rannsókn á komum slasaðra eftir reiðhjólaslys á Bráðamóttöku LSH á árunum 2005-2010 og sem birtist um daginn í Læknablaðinu. Um var að ræða 3.472 komur á bráðamóttöku LSH vegna reiðhjólaslysa. Meðalaldur slasaðra reyndist 22,6 ár (1-95 ára). Flest slysin voru mánuðina frá maí til september eða 71,3%. Hjálmanotkun var einungis skráð í 14,2% tilvika, en 30.1% höfðu áverka á andliti eða höfði/heila. Flestir voru með áverka á efri útlim eða 47,1%. Alls  þurftu 3.6% sjúklinga (124) á innlögn/aðgerð að halda vegna áverkanna sem þeir hlutu (20-30 einstaklingar að meðaltali á ári).

Hjólreiðamenningin er að mörgu leiti mjög vanþroska hjá okkur Íslendingum og liggja fyrir því örugglega margar ástæður, ekki síst stutt sumur. Í seinni tíð hefur hinsvegar orðið sprenging í áhuga og framboði á allskonar hjólum og sem sum hver eru hönnuð meira til kappaksturs en venjulegra götuhjólreiða. Allt blandast þetta hins vegar saman á fáu og ófullkomnu göngustígunum okkar í borginni og þar sem gangandi á alltaf meiri rétt. Reykjavíkurborg hvetur hins vegar óspart til aukinna hjólreiða án þess að skapa fullnægjandi aðstæður. Gerir auk þess beinlínis ráð fyrir varðandi atvinnuppbyggingu í miðbænum og með niðurskurði á mikilvægum umferðarmannvirkum fyrir bílaumferð. Stórvarasamt verður hins vegar að teljast fyrir börn og gamalt fólk í borginni að ganga á svokölluðum „útivistargöngustígum“ borgarinnar í dag. Hraðinn á reiðhjólakappanum er oft mikill og sem kemur kannski aftan að þeim gangandi og velur frekar að skjótast framhjá fyrirvaralaust en nota bjölluna á síðustu stundu. Fróðlegt væri að vita hve fjölgun á slíkum slysum hefur orðið mikil á síðustu árum.

Um 75% dauðsfalla vegna umferðarslysa á reiðhjólum í heiminum öllum eru rakin beint til heilaáverka og þar sem rannsóknir sýna að hjólahjálmur getur komið í veg fyrir í allt að þriðjungi tilfella. Varðandi minna alvarlegu höfuðhöggin er áhugavert að líta til tengsla höfuðhögga almennt og minnihátta breytinga sem geta orðið við mar á heilavef „minimal brain injury“. Varanlegar afleiðingar eftir tiltölulega lítil höfuðhögg og sem jafnvel ekki er endilega komið með til læknis, en sem getur valdið hegðunarvanda og skertri færni barna og jafnvel fullorðinna löngu síðar. Nokkuð sem reiðhjólahjálmar draga stórlega úr hættu á og sem jafnvel ein lítil steinvala á malbiki getur valdið.

Lögleiðing reiðhjólahjálma hefur oft borið á góma og er hún í gildi fyrir börn. Margir kappsamir reiðhjólamenn sem vilja veg hjólreiða sem mestan, hafa barist gegn lögleiðingu hjólahjálma. Þeir telja að reiðhjólahjálmurinn gefi falst öryggi og að í löggjöfinni fælust þau skilaboð að hjólreiðar væru hættulegar. Eins að bifreiðarstjórar taki meira tillit til hjólandi sem ekki er með hjálm á höfði á götunum. Rök þeirra eru auðvitað fáránleg því vissulega eru reiðhjólar varasamar og allt að því hættulegar samanborið við slysatíðni og alvarleika annarra slysa í samgöngum borgarinnar. Við hljótum að vilja vernda hausinn á okkur sem best a.m.k. og sem jafnframt gefur auðvitað til kynna að hjólreiðar geti verið hættulegar. Að það sé eins gott að fara varlega og setja alltaf á sig hjálm, á sama hátt og við spennum alltaf beltin í bílunum.

http://www.ruv.is/frett/reidhjolaslys-fimmtungur-umferdarslysa

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5749

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/5/14/reidhjolaoryggi-takk/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/08/26/okufanntar-oft-ekkert-sidur-a-reidhjolum/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll

Fimmtudagur 28.4.2016 - 16:46 - FB ummæli ()

Nýr bráðabirgða BLSH við Hringbraut fyrir yfir 100 milljarða króna !?

hringbrautNú allt í einu virðist vera kominn annar tónn í stjórnsýsluna um framkvæmdir á Hringbrautarlóð. Ætli menn þar á bæ séu eitthvað farnir að vitkast í málinu eftir alla umræðuna? Nú  er farið að ræða um þjóðarsjúkrahúsið okkar við Hringbraut eigi bara að verða einhver tímabundin redding, en þá jafnvel fyrir meiri pening en kostar að byggja Nýjan góðan Landspítala á betri stað og margoft hefur verið reiknað út.  Í Morgunblaðinu 26,4.16 segir Páll Matthíasson forstjóri LSP m.a. „Við erum ekki að byggja „nýj­an“ Land­spít­ala. Við erum að byggja sjúkra­hót­el, meðferðar­kjarna og rann­sókn­ar­hús og svo bygg­ir Há­skóli Íslands hús heil­brigðis­vís­inda. Allt er þetta eðli­leg end­ur­nýj­un á úr sér gengn­um húsa­kosti og er í raun um­fangs­mikið viðhalds­verk­efni, sam­hliða öðrum brýn­um viðhalds­verk­efn­um sem ráðast þarf í.“ Bráðabirgðar Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut (BLSH) þá ekki nýtt framtíðar þjóðarsjúkrahús.  Á sama tíma svarar Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þegar hann er spurður um málið, að hann taki enga ábyrgð á framkvæmdum við Hringbraut sem Alþingi hefur þegar ákveðið. En hverjir matreiddu/matreiða alla vitleysuna ofan í Alþingi? Vitleysan og tvískinnungshátturinn ríður þannig ekki við einteyming á stjórnarheimilinu og hinu háttvirta Alþingi þessa daganna og orðaleikurinn ætlar að aldrei að taka nenn enda.

Eitt mest aðkallandi feimnismál núverandi ríkisstjórnar er sennilega stefnuleysið og glundroðinn í heilbrigðismálunum. Skipa þyrfti STRAX óháða nefnd til að endurskoða og skipuleggja heilbrigðiskerfið upp á nýtt sem og forgangsröðun verkefna. Endurreisn heilbrigðiskerfisins eins og Kári Stefánsson læknir hefur kallað eftir og þjóðin stendur á bak við með víðtækri endurskriftasöfnun og 86.673 Íslendingar hafa þegar skrifað undir. Uppbygging heilsugæslunnar og framtíðarskipulagsmál Landspítalans eru þar mest aðkallandi að mínu mati. STRAX þarf að grípa til bráðabirgðalausna eins og nauðsynlegra byggingaframkvæmda við Landspítalann, ekki á Hringbraut heldur við Fossvog og sem blasir við öllum sem vel þekkja til mála. Lága viðbyggingu við G-álmu, t.d. fyrir greiningadeild lyflæknissviðs (3-5 daga deild) í tengslum við bráðamóttökuna í Fossvogi sem lyflæknar hafa mest kallað eftir. Framkvæmdir sem þurfa ekki að taka nema 1-2 ár og kosta ekki svo mikið (sennilega innan við einn milljarða króna ef byggt verður á ódýrasta máta). Þetta eru fljótlegar og til þess að gera ódýrar lausnir sem heilbrigðiskerfið æpir hvað mest á og sem hefur verið mest í umræðunni, auk aðflæðisvanda og fráflæðisvanda heilbrigðiskerfisins vegna veikrar heilsugæslu og vöntun á langtímalausnum fyrir aldraða. Bráðamál sem þolir hvort sem er alls ekki 8-10 ára bið, hvar svo sem framtíðarsjúkrahúsið okkar endar (á hvolfi á Hringbrautinni eða ekki).

Sameining sjúkrahúsanna sjálfra er ekki bráðamál dagsins og sem getur auðvitað vel beðið eins og hún hefur í raun gert í tæplega 2 áratugi. Huga þyrfti sem fyrst að skynsamlegu staðarvali fyrir Nýja Landspítalann og aðal bráðasjúkrahúsi landsins með tryggu aðgengi í framtíðinni og sem þyrfti að vera tilbúið innan 10 ára. Á svipuðum tíma og rándýr bútasaumurinn nú er hugsaður við Hringbraut og sem aldrei getur orðið hagkvæmur. Í reynd algert bruðl með almannafé að mínu mati og sem kostar kostar vel yfir 100 milljarða króna þegar upp verður staðið og hugsa þarf málið alveg upp á nýtt. Og á meðan, næstu 10 árin gerist hvort sem er ekkert nýtt nema eitt stykki sjúkrahótel í miðbænum !!!

Ef skynsamlega hefði varið farið í að endurskipuleggja heilbrigðismálin og framtíðarskipulag Nýs Landspítala fyrir segjum bara 2 árum, og mikið hefur verið skrifað um hér á blogginu, værum við í mikið betri stöðu með flest í dag og horfðum björtum augum til framtíðarinnar. Nú á hins vegar að því er virðist enn og aftur að fresta umræðunni í loforð stjórnmálanna fyrir næstu kosningar og sem skilar síðan litlu sem engu þegar upp verður staðið og reynslan best sýnir. Okkur virðist ekki viðbjargandi og þurfum líkast til að fá Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO) til að taka í taumana, ekkert ósvipað og þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn þurfti að taka í taumana forðum varðandi peningamál þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.4.2016 - 19:10 - FB ummæli ()

Heimaskítsmát Alþingis í Nýja Landspítalamálinu við Hringbraut

11215198_10201829219929725_6466656075539020093_n

Könnun SBSBS (Samtaka um betri spítala á betri stað) 7-11. apríl sem Gallup framkvæmdi um vilja landsmanna á staðsetningu Nýja Landspítalans við Hringbraut. 54% vildu í sömu könnun að gerð verði amk. ný staðarvalskönnun.

Umræðan um ósk þjóðarinnar á betri staðsetningu Nýja Landspítalans hefur ekki farið framhjá neinum og sem endurteknar skoðanakannanir hafa sýnt sl. ár. Greinileg almenn samstaða er um að ný staðarvalsathugun verð gerð sem fyrst og áður en framkvæmdir hefjast við sjálfan meðferðarkjarnann, en sem dregist hefur von úr viti vegna fyrri ákvörðunar mikils meirihluta Alþings að byggja skuli Nýja Landspítalann við Hringbraut og hvergi annars staðar. Allir stjórnmálaflokkar nema Píratarnir þrjóskast við að endurskoða stefnumörkun um málið. Það hlýtur að vera mikill ábyrgðarhluti fyrir Alþingi Íslendinga að það skuli ekki vilja hlusta á þjóðina. Vafasöm ákvörðunartökusaga í Nýja Landspítalamálinu er hinsvegar sérstakt rannsóknaefni út af fyrir sig síðar.

Um 100 milljarða króna aukakostnaður er nú í húfi og sem verður aldrei réttlættur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og þekkingu mála í dag, hvað þá þegar aðeins virðist eiga að tjalda til tveggja nátta og heyra má í vaxandi mæli hjá hörðustu Hringbrautarsinnum. Þegar þeir hinir sömu að lokum hlusta á sína eigin skynsemi eins og Kári Stefánsson gerir með grein sinni í Morgunblaðinu morgun. Ábyrgð stjórnenda Landspítalans er því mikil og sem keyra framkvæmdirnar áfram og neita að horfa í mistök matreiðslunnar fyrir alþingismennina. Dráttur á skynsamlegum ákvörðunum hafa kostað allt of mikið en þó ekkert á við þann kostnað ef menn halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Upplýsingar um mikið hagkvæmari framkvæmdir á opnu og góðu svæði eins og t.d. við Vífilstaði eða á Keldum sem fljótt geta bætt upp tímabundnar skipulagstafir. Ef viljinn er sterkur eins og hjá bæjaryfirvöldum í Garðabæ nú og fjármögnun verkefnisins verði tryggð. Sem staðið hefur í veginum hingað til hjá Reykjavíkurborg annars vegar og hjá Alþingi hins vegar.

12990878_10201803242600308_2368870529325415469_n

Gallupkönnun fyrir Viðskiptablaði í byrjun apríl 2016

Það er því löngu komið að þeim tímapunkti að Alþingi endurskoði ákvörðun sína í ljósi nýrra upplýsinga. Skoðanakannanir starfsmanna sem glöggt þekkja til starfseminnar, hafa lengi sýnt andstöðu við núverandi byggingaáformum. Mikill meirihluti lækna virðist andsnúinn Hringbrautarhugmyndinni samkvæmt könnunum (tæpl. 90% andstaða er á móti Hringbrautarstaðsetningunni í óformlegri könnun á lokaðri fésbókarsíðu lækna  (248 á móti 38, 19.4.2016)) og kannanir meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraflutningsmanna hafa sýnt svipaða andstöðu. Í síðustu viku gerði Gallup könnun fyrir Viðskiptablaðið. Stuðningur við Vífilstaðahugmyndina var 50% á móti 40% við  Hringbraut. Stuðningur við Vífilstaði var enn meiri, eða 71% sem Útvarp Saga lét gera í mars sl. og þar sem aðeins 13% landsmanna studdu Hringbrautarhugmyndina. Sl. sumar framkvæmdi MMR könnun fyrir Samtökin Betri spítali á betri stað (SBSBS) og sem sýndi aðeins 31% stuðning við Hringbrautarhugmyndina og önnur könnun sem BSRB lét gera á svipuðum tíma, sýndi að meirihluti almennra heilbrigðisstarfmanna var ósátt við Hringbrautastaðsetninguna. Önnur könnun sem Gallup gerði fyrir SBSBS sem birt er í dag og sem sýnir tæplega 60% andstöðu við Hringbrautarstaðsetninguna, en þar sem andstaðan er minnst meðal vinstri manna (VG og S). Niðurstaðan er ótrúlega lík könnuninn fyrir Viðskiptablaðið í síðustu viku og sýnir mikinn vilja fyrir nýja staðarvalsathugun strax og áður en lengra verður haldið með framkvæmdir. Eins og þá virðist andastaðan við Hringbrautarstaðsetninguna vera minnstur meðal vinstri manna (VG og S). Rök samtaka SBSBS hefur hins vegar átt mjög sterkan hljómgrunn meðal Íslendinga í vetur og sem glöggt má sjá á fésbókarsíðu samtakanna.

Margar greinar hafa verið skrifaðar um betra staðarval fyrir Nýjan landspítala sl. ár. Öll þau rök verði ekki kynnt hér og sem m.a. hefur aðeins verið gert grein fyrir í fyrri pistlum hér á blogginu og almennri fjölmiðlaumfjöllun. Einn er sá þó sá fjölmiðill sem ekki vill rugga bátnum og sem er RÚV. Að málið sé löngu ákveðið og að óþarfi sé að ræða málið frekar!!  Rök hafa verið færð fram um mikið hagkvæmari og nútímalegri spítala til lengri tíma í fögru og rólegra umhverfi. Samgöngulega mikið betur staðsettur með góði aðgengi fyrir starfsfólk, sjúklinga, aðstandenda og tengt sjúkraflutningum. Jafnvel betri og ódýrari nýbyggingu fyrir heilbrigðisvísindasvið HÍ og sem þannig bætir menntun heilbrigðisstarfsfólks. Rök fyrir allt of miklum þrengslum á Hringbrautarlóðinni með takmarkaða stækkunarmöguleika í mörgum húsum og miklum endurnýjunarkostnaði á gömlu byggingum sem nær væri að rífa í sumum tilvikum vegna myglu.

Ekki má heldur gleyma stórhættulegu sjúkraþyrluflugi yfir Þingholtin, yfir á þak Landspítalans þar sem ekkert pláss er fyrir þyrluflugvöll á jörðu niðri og opin öryggissvæði fyrir að- og fráflug vantar. Vandamál sem getur varðað þjóðaröryggi á neyðartímum og enn frekar ef Reykjavíkurflugvöllur verður svo látinn hverfa eins og Reykjavíkurborg sækist eftir. Reykjavíkurflugvöllur var einmitt upphaflega ein af 3 megin forsendum fyrir upphaflegu staðarvali við Hringbraut fyrir tveimur áratugum, en sem var skyndilega kippt út að kröfu Reykjavíkurborgar 2012 vegna vöntunar á byggingarlóðum. Sama mætti segja um nauðsynlegar nýframkvæmdir varðandi nauðsynleg umferðarmannvirki, Hringbrautina í stokk og stofnbraut um Hlíðarfót eins og upphaflega stóð til.

Það er mikill ábyrgðarhluti að Alþingi skuli enn þráskallast við grjótharða Hringbrautarklöppina, einkum vinstri menn og þegar svo margar nýjar upplýsingar liggja fyrir um mikið betra staðarval og hagkvæmnisútreikninga upp á tugi ef ekki hundruð milljarða króna. Enn meiri ábyrgð er að vilja ekki ræða málið og að stjórnendur svari ekki gagnrýni og vilji rökræða málin á opinberum vettvangi. Um dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar er hér að ræða. Verkefni sem dæmi er um erlendis geti klárast auðveldlega með undirbúningstíma á 7-8 árum á opnum og hagkvæmum stað og þannig fyrr en nú áætlað við Hringbraut. Að örum kosti og í besta falli bráðabirgðalausn og sem verður minnisvarði skipulagsklúðurs 21. aldarinnar. Heilbrigðiskerfið á þetta ekki skilið eftir allt sem á undan er gengið sl. áratug og þegar peningar loks virðast til.  Heimaskítsmát Alþings þá gegn þjóðinni varðandi þjóðargjöfina stóru til okkar allra.   Gleðilegt sumar

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.4.2016 - 14:29 - FB ummæli ()

Frá Stórubólu til Zika – ágrip blóðvatnslækinga og bólusetninga á Íslandi

 

Zika_virus_final2-1

 

Fátt er sameiginlegt með þessum sóttum nema að þær eru báðar alvarlegar veirusýkingar hjá mönnum. Sú fyrri með hárri dánartíðni og dæmigerðum útvortis bólum og sárum, en sú síðari með flóknari smitsjúkdómsmynd og fósturskaða. Stórabólan tilheyrir fortíðinni og sem er nánast búið að útrýma, þökk sé tilkomu bóluefnis fyrir meira en tveimur öldum, tengt upphafi lækninga á Íslandi og stærsta lýðheilsuátaki sögunnar. Zika veirusjúkdómurinn og reyndar nýlega Ebólan sem er alvarleg drepsótt eins og Stórabólan, tilheyrir hins vegar nútíðinni og þar sem ekki er enn búið að finna bóluefni gegn en unnið er hörðum höndum að finna með hjálp læknavísindanna. Engin sérhæfð veirudrepandi lyf eru þarna til, en notast hefur verið við sérhæfð mótefni gegn Ebólunni og þar sem árangurinn getur aðeins verið tímabundinn. Möguleiki á dulinni sýkingu fósturs í móðurkviði og alvarlegum fósturskaða er síðan en enn meira vandamál hvað Zika veiruna áhrærir. Allt kapp er því nú lagt á að finna öruggt bóluefni gegn Zika veirunni fyrir ungar konur á barnseignaaldri á smituðum svæðum í Suður-Ameríku og heimsfréttirnar bera með sér. Upphaf blóðvatnslækninga og bólusetninga gegn næmum sjúkdómum eins og smitsjúkdómarnir voru gjarnan kallaðir áður fyrr, á sér hins vegar meira en tveggja alda sögu, meðal annars hér á landi og sem ágætt er að rifja upp af þessu tilefni. Eins vegna Ebólunnar og nú jafnvel vegna vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda sem var áður auðvelt að meðhöndla með sýklalyfjum seinnipart síðustu aldar.

Talið er að bólusóttin (smallbox) hafi drepið allt að fjórðung þjóðarinnar í endurteknum faröldrum á fyrri öldum, fyrir tilkomu bóluefnis, rétt um aldarmótin 1800. Smitefni Kúabólunnar (cowbox) sem er miklu veikari veira meðal manna, var notað til bólusetningar og sem nægði þannig til glæðingar og ónæmissvörunar fyrir lífstíð gegn sjálfri Stórubólunni. Ein mesta framför í sögu læknisfræðinnar með hjálp íslenskra presta og þar sem kirkjubækur voru m.a. notaðr til skráningar og sem gaf tóninn fyrir upphaf bólusetninga gegn öðrum sóttum síðar. Íslendingar hafa af þessu tilefni tileinkað orðið „bólusetning“ (vaccination) yfir allar ónæmisaðgerðir síðar en sem hafa ekkert með sjálfa bólusóttina að gera. Almennt öruggt „smitsjúkdómavarnakerfi“ ef hugað er að í tíma og þegar hætturnar í umhverfinu eru hvað mestar. Aðferð til að fá líkamann sjálfan til að kynnast óvininum í tíma og bregðast strax við þegar hann ræðst síðar til atlögu og hver klukkustund getur verið dýrmæt. Undirbúa þannig eitilfrumur til framleiðslu réttu mótefnanna og þegar við getum kallað á hersveitir hvítra blóðkorna til framleiðslu vopnanna sem duga. Manninum er þannig auðvitað ekkert óviðkomandi í þessari sjálfsbjargarviðleitni sinni, allra síst í sínu nánasta umhverfi og þar sem samgöngur eru orðnar örar heimsálfanna á milli. Nýir heimsfaraldrar sem hafa þannig greiðari aðgang að okkur flestum og mikið meir en okkur grunar. Nokkuð sem andstæðingar bólusetninga í dag, meðal annars gegn mislingum og barnaveiki ættu gjarnan hafa í huga og sem snúa vilja okkur til heilbrigðis svörtustu miðalda.

En skoðum aðeins sögu blóðvatnslækninga og sem geta fengið líka nýja þýðingu í framtíðinni eins og nýlega í meðferð gegn Ebolu-veirunni og í meðferð sýklalyfjaónæmra bakteríusýkinga. Blóðvatn sem notað er í dag nær aðeins til takmarkaðrar meðferðar eins og áður segir og er byggð á grunnfræðum ónæmisfræðinnar með tímabundnum gjöf mótefna (monoklónal) sem annar sýktur hefur framleitt (maður eða dýr, t.d. apar eða hestar)). Náskildar aðfarir voru notaðar í lækningu á Barnaveikinni (Diptheria) fyrir meira en öld síðan á Íslandi en sem öll börn eru nú bólusett gegn með varanlegri vörn. Smitjúkdómur sem olli mikilli hálsbólgu í byrjun, síðar öndunarerfiðleikum og köfnun sem læknar stóðu ráðalausir gagnvart í heimahúsum. Læknar gátu hins vegar um aldarmótin 1900 skaffað erlendis frá blóðvatn gegn barnaveikinni með sérútbúnum lyfjaglösum. Blóðvatn og þannig mótefni úr smituðum hestum sem hjálpað gat í vörnum þess sjúka ef beitt var í tíma sem var sjaldnast. Svipaðar aðferðir með blóðvatni voru notaðar gegn alvarlegum lungnabólgum síðar löngu fyrir tíma sýklalyfjanna. Í dag höfum við svo tilkomið nýlegt bóluefni gegn algengustu lungnabólgubakteríunni (pneumókokkum) og sem einnig veldur alvarlegustu miðeyrnbólgum barna og flest börn eru bólusett gegn í dag. Frá þessum tímamótum blóðvatnslækninga í læknisfræðinni var meðal annars greint frá í heilbrigðistímariti alþýðunnar á Íslandi, Eir, strax árið árið 1899 og sem við skulum aðeins gripa niður í, sem og smá umfjöllun um Barnaveikina sem var einn alvarlegasti smitsjúkdómur barna á þeim tíma og líkja mátti við drepsótt sem menn stóðu varnarlausir gegn. Sótt sem síðan í dag, eftir tilkomu bólusetninga eins og gegn ýmsum öðrum alvarlegum veiru- og jafnvel bakteríusýkingum er haldið niðri í þjóðfélaginu með almennri þátttöku í bólusetningum. Öflugustu smitsjúkdómavörnunum í dag.

Dr. J.Jónassen skrifar 1899. „Síðan 1895 hefir meðalið verið búið til á efnafræðistöð háskólans í Kaupmannahöfn og sent læknum ókeypis, er beðið hafa um það. Síðustu tvö árin hefi ég fengið eigi all-fá glös með meðalinu í og hafa nokkrir læknar fengið það hjá mér og reynt það, en það hefir verið svo sjaldan tækifæri til að nota það, að ekki er hægt að vita, hvort það hefir komið að nokkru liði.
Það eru ýmis vandkvæði á því að viðhafa blóðvatnslækningar. Ekki er takandi í mál, að nokkur annar en læknir hafi þær um hönd, því til þess þarf sérstakt verkfæri og mestu varkárni verður að viðhafa, þegar spýta skal meðalinu inn. Víðast er hér langt til læknis og af því leiðir, að oftast mun sjúkdómurinn vera byrjaður fyrir nokkru áður læknir kemur til sjúklingsins og er þá liðinn sá tími, sem ákjósanlegastur er til innspýtingar, nfl. byrjunin, og því lítið eða ekkert gagn að henni. Læknirinn verður að vera yfir sjúklinginum um nokkurn tíma, því oftast þarf að viðhafa innspýtinguna oftar en í eitt skipti, er því auðsætt, að hann getur ekki sinnt fleiri sjúklingum í einu, ef veikin gengur víða í umdæmi hans, þótt hann allur væri af vilja gjörður.“

Fyrrum urðu menn að bjarga sér sem þeir best gátu, oft við frumstæðar og erfiðar aðstæður. Áræðni læknanna í þá daga er gott að hafa í huga við aðsteðjandi vanda heilbrigðiskerfisins, forgangsröðun verkefna og nú jafnvel gegn Ebólunni og Zika veirunni. Nú á tímum og meðan ekkert bóluefni er til verða læknar og heilbrigðisstarfsfólk aftur að treysta á smiteinangrun og hámarks smitgát í vörninni. Heilbrigðisyfirvalda er að setja reglur um samskiptin okkar á milli. okkur til varnar og við umheiminn hverju sinni og landslög ákveða. Smitsjúkdómavarnir sem samt svo sannarlega geta sett líf okkar úr skorðum og þegar ekkert er til bóluefnið eins og í sumar á Ólympíuleikunum í Brasilíu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 11.4.2016 - 23:15 - FB ummæli ()

Kálfanes á Ströndum

Kálfanes

Kálfanes og Ós, lok ágúst 2016

Nú ég staddur við læknisstörf norður á Ströndum, nánar tiltekið Hólmavík. Það var einkennilegt síðan að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum sl. þriðjudag langt norður í Árneshreppi þegar ég átti þangað leið í blíðskapa veðri. Náttúran á Ströndum í öllu sínu veldi og snjór á Veiðileysuhálsi. Í Norðurfirði í hádegismatnum hjá Margéti Jónsdóttur og Gunnsteini Gíslasyni mátti síðan heyra beina útsendingu af tröppum Bessastaða í útvarpinu. Maður gat haldið að gríðarlegar náttúruhamfarir hefðu orðið og og líf þjóðarinnar héngi á bláþræði. Allt samt af litlum neista og misgjörðum forsætisráðherra sem virtist sakaður um landráð. Framhaldið vita allir.

 

kálfanes

Kálfanes

Ekki var hjá því komist að tengja líðandi atburði við söguna og landið þennan dag. Lífsbaráttu almennings gegnum aldirnar við oft óblíða ströndina og baráttu við stórhöfðingja sem öllu réðu. Einn var samt sá stórhöfðingi sem lét skoðanir valdaklíkunnar ekkert á sig fá. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1203) og sem barðist fyrir fátæklingana. Þegar Guðmundur tók við embætti biskups á Hólum fyrir um 800 árum skipaði hann svo fyrir að enginn í biskupsdæmi sínu skyldi svelta og allir sem kæmu að Hólum ættu að fá tvær máltíðir á dag, í mikilli óþökk höfðingjavaldsins. Guðmundur góði varð hins vegar svo vinsæll að tugir manna fylgdu honum hvert sem hann fór um héruð, væntanlega með vitneskjuna um að þá væru mestu líkurnar á að fá magafylli. Guðmundur góði heimsótti ennfremur frekar fátæk héruð eins og Strandirnar og sem sagan segir að hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Einn sá staður sem hann gisti á var Kálfanes og reist hafði verið kirkja 1182. Í jarðabókinn 1709 kemur fram að Kálfanes var þá meðal stærstu bújarða Strandasýslu og hlunnindi lágu m.a. í silungsveiði í Ósá og Tröllkonusíki, auk mikillar grasa- og hrísræktar. Tenging við aðra kirkju í mínum huga í fjarlægum heimshluta á svipuðum tíma.

kirka kálfanes

Kirkjurústir í Kálfanesi

Ófáar eru laugarnar á Ströndum sem Guðmundur góði blessaði á leið sinni og sem taldar voru veita lækningamátt löngu eftir hans daga, löngu fyrir sögu læknisfræðinnar á Íslandi 1760. Í dag er ég hins vegar læknirinn á Ströndum og reyni að beita nútíma læknisfræði í þágu íbúanna. Í stað lækningajurta og lauga áður fyrr. Reyndar má enn finna uppsprettuna góðu í Kálfanesi, en vatnið í henni var talið svo heilagt og kröftugt að bera mætti það yfir þveran Steingrímsfjörð í lopahúfu, án þess að dropi færi til spillis. Á öðrum stað við Kaldbak má enn finna lind sem ætluð var sjónveikum. Á Laugarhól í Bjarnafirði má síðan baða sig í Guðmundarlaug.  

Á bæjarhlaðinu við Kálfanes vex enn sjaldgæf fræg lækningajurt, stórnetlan. Stórnetlunnar er getið í heimildum frá 18. öld og talið var að rót hennar hefði sérstaklega mikinn lækningarmátt. Ef hún væri soðin í víni og hunangi að þá gagnaðist hún gegn brjóstveiki, hósta og hryglu og getið er m.a. um í ritum Ólafs Olavius og í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Líklega hefur þessi jurt verið flutt til landsins og ræktuð fyrst og fremst til lækninga, en einnig var hægt að vinna úr henni hör til dúkagerðar og til skrifpappírsgerðar og sem þótti mjög góður víða erlendis. Jörðin Kálfanes lagðist í eyði árið 1940 en þar eru nú nýir ábúendur. Flugvöllur Hólmavíkur liggur nú í landi gamla Kálfaness.

Á Kálfanesi á Ströndum mætist nútíminn og fortíðin. Gömul læknisfræði og ný og sem ég hef stundum skrifað um áður. Eins saga góðmennsku, heiðarleika og umburðarlyndis. Guðmundur góði biskup skaraði fram úr hvað þessa hugsun varðar fyrir 800 árum og sem sumir stjórnmálamenn dagsins mættu taka sér til fyrirmyndar og stundum vilja mest hygla sér og sínum. Allt sem gott er að hugsa nú til og þegar styttist í kosningar til Alþingis og menn vita ekki alltaf hvern á að kjósa. Jafnvel þegar við kjósum nú nýjan forseta lýðveldisins og sem teljast á mestur höfðingjanna, en sem neitaði okkur samt um nýjar kosningar daginn umtalaða. Á þriðjudaginn.

kálfanesfjall

Af Kálfanesfjalli í gærkvöldi

 

Norðurfjörður

Norðurfjörður í Árneshreppi á þriðjudaginn

Fleiri myndir frá „þriðjudeginum“

Árneskirkja

Árneskirkja (1852)

 

kaldbakur

Norðan Kaldbaks

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Vinir og fjölskylda

Laugardagur 2.4.2016 - 08:03 - FB ummæli ()

Áhættusamt þyrlusjúkraflug yfir Þingholtin og á Nýjan Landspítala við Hringbraut – hver ætlar að bera ábyrgðina?

þyrlupallur

Úr hönnunarskýrslu um þyrlupall á Nýjum Landspítala við Hringbraut

Þau voru ófá tilfellin sem þyrlur Landhelgisgæslunnar (LHG) björguð öllu eins og sagt er og kom fram í fyrsta uppgjörinu fyrir árið 1991 í grein í Læknablaðinu 1994,  5 árum eftir að þyrlusjúkraflug hófst hjá Landhelgisgæslunni (LHG) 1986. Þetta varðaði ekki síst alvarlegustu slysin úti á landi og þar sem um 40% flutninga voru taldir mjög mikilvægir. Í ár er 30 ára afmæli íslenska þyrlusjúkraflugs LHG og hafa flutningarnir aukist mikið. Þeir eru nú yfir 200 á ári og sem kom fram í yfirlitsgrein í Fréttablaðinu í lok síðasta árs. „Aukning á útköllum nú eru greinilega tengd ferðamennsku. Bæði innlendri og erlendri,“ sagði Ásgrímur Lárus Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Um ágæti og öryggi slíkra sjúkraflutninga efast held ég enginn um í dag.

Þyrluaðflug mun hins vegar alltaf verða mjög varhugavert yfir lágreista spítalaþorpinu í Þingholtunum og þar sem ekki verður nein aðstaða til neyðarlendingar á opnum svæðum, sér í lagi ef Reykjavíkurflugvellur verður látinn fara. Þessu er ólíku saman að jafna við aðstæður við Landspítalann í Fossvoginum í dag og sem þó eru farnar að þrengjast. Í byggingaáformunum í dag við Hringbraut er hins vegar hannaður neyðarþyrlupallur (helipad) á fimmtu hæð húsþaks næst meðferðarkjarnanum. Gerð er krafa um að notaðar verði þyrlur af afkastagetu 1 vegna lélegra aðflugsskilyrða við spítalann, jafnvel svokallaðar 3 mótora þyrlur og sem geta haldið sér vel á lofti ef vélabilun verður í einum mótor. Þær þyrlur kosta mikið meira og eru allt of stórar miðað við okkar þarfir (taka allt að 50 manns). Þetta þýðir um 10 milljarða króna aukafjárfestingu við endurnýjun þyrluflotans í það minnsta og síðan miklu hærri rekstrarkostnað í framtíðinni. Kostnaður sem hvergi virðast koma fram í fjárhagsáætlunum ríkisins (eða hjá LHG) og sem getur auk þess stuðlað að stórslys verði við Nýja Landspítalann og ef slíkri þyrlu hlekkist á, einhverja hluta vegna. Málefni sem ekki virðist heldur mega ræða í ríkisfjölmiðlum.

Alltaf þarf að tryggja plan B – öryggisplan- við aðstæður sem reglubundið sjúkraþyrluflug krefst við hugmyndir um Nýjan Landspítala og sem aðeins verður gert með léttari þyrlum og opnum svæðum nálægt til neyðarlendinga, í að- og fráflugsstefnum. Þannig afskaplega heimskulegt og hættulegt aðeins eitt plan A nú verð ég að segja og sem toppar í rauninni allt í Hringbrautarmódelinu í dag og Samtök um betri spítala á betri stað (SBSBS) hafa margsinnis bent áÖryggi bráðastarfsemi og aðgengið að henni á Nýjum Landspítala, okkar eina háskólabráðasjúkrahúsi, skiptir auðvitað megin máli fyrir heilbrigðisöryggi þjóðarinnar í framtíðinni og þar sem sjúkraflug með þyrlum verða að skipa mjög stóran sess. Varðandi flutninga á mest veiku og slösuðustu sjúklingunum utan höfuðborgarsvæðisins, þjónustu við sjómennina okkar og ferðamenn.

Flestar þjóðir kappkosta að ganga vel frá aðstöðu og öryggi þyrlusjúkraflugs til sinna spítala til að lágmarka áhættuna af slíkum rekstri. Aðallega með rekstri minni þyrla eins og nú eru notaðar hér á landi og sem gagnast landinu nær öllu og miðunum umhverfis, í bland með minni sjúkraþyrlum en sem þurfa örugg opin svæði til neyðarlendinga. Þörf fyrir þyrlusjúkraflug á eftir að stóraukast hér á landi í framtíðinni, þannig að byggingaáformin nú og aðstaða til þyrlulendinga við nýtt aðalbráðasjúkrahús landsins, þarf að taka mið af þeirri þróun, en ekki öfugt. Málið verður eingöngu leyst með betra staðarvali fyrir Nýja Landspítalann á oppnu svæði, helst sem mest miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Í grein sem Jakob Ólafsson flugstjóri skrifaði á Vísir 2012 segir m.a.

Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut frá apríl 2004 er í 10. kafla fjallað um samgöngur við LSH og þar segir m.a.: „Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti, að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs“  Þetta sama ár 2012 var forsenda sjúkraflugsins skyndilega felld úr gildi og Jakob skrifar skrifar „Síðan verða blikur á lofti, ný stjórnvöld taka við og skipt er út nefnd um Landspítalaverkefnið. Áherslur þessara nýju stjórnarherra eru að að losa sig við Reykjavíkurflugvöll með öllum ráðum og láta sem öryggi og hagsmunir landsbyggðarinnar séu þeim óviðkomandi.“

„Ef þyrlupallar eru settir á nýjar spítalabyggingar er gert ráð fyrir rúmum öryggissvæðum til nauðlendinga við aðflug og brottflug þyrlna að pallinum því ef bilun verður í gírkössum eða stélskrúfu þyrlu við aðflug eða brottflug að þyrlupallinum hefur þyrluáhöfnin afar lítið svigrúm til að beina þyrlunni að heppilegum lendingarstað, aðeins það rými sem er nánast beint fyrir neðan þyrluna er í boði til nauðlendingar og því gæti skapast almannahætta við brotlendingu þyrlu á sjúkrahússvæðinu, í nálægri byggð eða á umferðargötu. Miðað við framtíðarskipulag Landspítalasvæðisins er gert ráð fyrir þéttri byggð og umferðaræðum í nágrenni spítalans og því slík öryggissvæði ekki í boði.“

Fyrir áhugasama þá er tenging á hönnunarskýrsluna á þyrlupallinum á Nýjum Landspítala við Hringbraut hér sem gaman væri að fá skoðun á frá flugmönnum; https://drive.google.com/open?id=0B91EwWZv2AGmb3JOcEZBRTdLUmc

http://www.hirsla.lsh.is/lsh/bitstream/2336/75933/1/L1994-02-80-F5.pdf

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.3.2016 - 09:36 - FB ummæli ()

Áfengi í „vörubúðum og gesthúsum“

alcohol-on-shelvesNú liggur fyrir að kjósa eigi um frumvarp stjórnarþingmanna á Alþingi um frjálsa sölu áfengis, í matvöruverslunum og blómabúðum. Af því tilefni endurbirti ég hér ársgamlan pistil um efnið í þeirri veiku von að stjórnmálamenn sem hyggjast greiða frumvarpinu atkvæði sitt vitkist aðeins og horfi líka til Íslandssögunnar.

Áfengisbölið er þegar mikið í þjóðfélaginu, oft tengt öðrum vímuefnum. Flestir geta auðvitað umgengist áfengið, en stöðugt fleiri verða ofneyslunni að bráð og sem sést best í þeim löndum þar sem verslun með áfengi hefur verið gefin frjáls. Sérstaklega þó þar sem hún var ekki frjáls áður, en gefin frjáls á síðustu áratugum í nafni frjálshyggju og einstaklingsfrelsis. Einstaklingsfrelsis sem er hálfgert öfugmæli þegar fíknin og víman hefur tekið völdin og mikið meira er vitað um en áður og spilar með allt annan mann en þinn eigin, tengt erfðum og sérstökum áhrifum á miðtaugkerfið. Vil byrja hér samt á smá upprifjun úr pistli sem ég skrifaði 2011 (Gulu augun og lifrarbólgan) í tilefni mikillar aukningar á áfengisneyslu landans, mest vegna aukinnar sölu á léttvíni og bjór frá því hann var leyfður, tengt aukningu á beinum líkamsskaða og aukinni tíðni lifrarbólgu og skorpulifur. Menn og konur hljóta nú að sjá í hvað stefnir ef sala áfengis verður gefin frjáls í næstu kjörbúð, jafnhliða sælgætinu og gosinu, þar sem við erum margfaldir Norðurlandameistarar í neyslu. Eða jafnvel áfengis í stað vandaðra blómvanda í blómabúðunum. Kannski bara með einni sölnaðri rós á útsöluverði á flöskunni.

„En Adam var ekki lengi í paradís. Í stað þess að láta af helgarsiðum okkar, bættum við bara við okkur bjórinn og léttvínið. Hálft til eitt glas af léttvíni á dag átti svo sem ekki að vera svo óhollt og jafnvel hollt hvað æðasjúkdómana varðar. Nýjar rannsóknir benda hins vegar á að öll áfengisneysla getur verið varasöm, líka lítil, ekki síst er varðar hættu á myndun krabbameina, sérstaklega meðal kvenna. En hvað var það sem fór úr böndunum hjá okkur? Sennilega svipað og í öllu öðru, óhófið.“

„Alkóhól-lifrarbólga er almennt talin algengasta ástæða lifrarbólgu eins og áður sagði og sem er í réttu hlutfalli við magn áfengis sem er neytt í þjóðfélaginu, ekki síst sídrykkju flesta daga. Vaxandi bjórdrykkja og neysla léttvína á síðustu árum er því verulegt áhyggjuefni, þótt ennþá getum við ekki talist meðal mestu drykkjuþjóðum veraldar. Og auðvitað ber að fagna breyttu drykkjumynstri landans þar sem slysum og ofbeldisverkum tengt ölvun hefur ekki fjölgað í takt við aukna neyslu heildarmagns áfengis og sem nú nálgast að vera að meðaltali um 8 alkóhóllítrar á ári fyrir alla 15 ára og eldri. Nóg er nú vandmálið samt enda hafa um 7% fullorðinna lagst inn á Vog til áfengis- og vímuefnameðferðar (2010).“ Í dag er þessi tala um 10%.

Horfum nú mikið lengra aftur til fortíðar og eins og stundum áður hér á blogginu mínu, í alþýðutímaritið Eir um heilbrigðismál. Grípum hér niður í kafla úr ræðu Guðmundar Björnssonar, læknis (síðar landlæknis 1906–1931) sem þar var öll skrifuð og hann hafði haldið sunndaginn síðastan í sumri í húsi iðnaðarmanna í Reykjavík aldamótaárið 1900.

Heiðruðu tilheyrendur!

Margar skoðanir hafa staðið óhaggaðar í hugum manna þúsundir ára og verið taldar óhrekjandi – og þó fallið að lokum fyrir vopnum vísindanna. Það var um langan aldur talið óyggjandi, að jörðin væri flöt, og eins hitt, að hún stæði kyr og gengi sólin í kring um hana. Svo mikil fjarstæða þótti fyrst í stað kenningin um það, að jörðin snerist um sjálfa sig, að manninum, sem þau sannindi voru flutti, var hótað lífláti, ef hann tæki ekki orð sín aftur. Um langan aldur hefir það verið talið satt og óyggjandi að áfengi styrkti sál og líkama og „gleðji mannsins hjarta“ á saklausan hátt. Ef þessari kenningu verður hrundið, þá mun sú breyting hafa miklu meiri áhrif á framför mannkyns, en skoðanaskiptin á lögun jarðarinnar og staðháttum hennar.

Ykkur er vel kunnugt, að margir vilja nú hrinda þessari gömlu skoðun á áfenginu, segja að hún sé röng og reyna að koma því inn í almenning, að áfengisnautn sé jafnan skaðleg og eigi að afnemast. Lífláti hefir þeim ekki verið hótað þessum mönnum, því að tímarnir hafa breyst, en hitt hefir ekki á brostið, að þeir hafa verið sakaðir um öfgar og brugðið um kenningar og ófrægðir á margan hátt.

Hvað er þá rangt og hvað satt í öllu því, sem sagt er um áfengið? Ekki getur sami hlutur verið bæði flatur og hnöttóttur. Enginn hlutur getur verið bæði ómissandi og óhafandi. Allur þorri manna heldur enn að áfengið sé ómissandi. Hinir eru miklu færri, sem á móti rísa og segja að það sé óhafnadi. En aldrei hefur þessi deila verið eins hörð og almenn eins og nú um lok þessarar aldar, og af því hefir leitt, að fræðimenn hafa á síðari árum gefið áfenginu og áhrifum þess miklu meiri gaum, en nokkru sinni áður. Sannur vísindamaður hirðir ekki um óp lýðsins; hann hefir það eitt fyrir augunum, að leiða sannleikann í ljós, ryðja burtu hleypidómum og auka rétta þekkingu.

Allur þorri manna er þeirrar skoðunar, að hófleg inntaka af áfengi glæði skynjunargáfuna, skerpi vitið, veki saklausa gleði og örvi viljann. Menn fá sér eitt staup eða tvö og óðar finnst þeim hinn andlegi þróttur sinn aukast, en áhyggjurnar dofna og yfir öllu glaðna. „Guð lét fögur vínber vagsa, vildi gleðja dapran heim“ segir eitt af góðskáldum þjóðar vorrar. Guðs gjöf og guðaveig hefir vínið verið kallað öld eftir öld. Menn hafa að vísu ávalt bætt því við, að ofnautn áfengis valdi böli og bágindum, en sagt um leið, að áfengið eigi ekk sök á því, þó það sé vanbrúkað, og verði hver að gæta sín. Skádið, sem ég nefndi, segir í sama kvæði, að fyllisvínin smáni guðs gjöfina, engu síður en bindindismennirnir, og hann er í fullu samræmi við almenningsáliti, eins og það hefir verið.“

Snúið huganum að því, hvort þið viljið halda áfram að neyta áfengra drykkja, hvort sem það mun vera til hagsmuna eða tjóns fyrir þjóðina, að áfengir drykkir eru hafðir á boðstólnum í vörubúðum og gesthúsum handa hverjum sem hafa vill. Ef gagnsemi áfengis væri meira en tjónið, sem að því hlýst, þá væri það gott og blessað og þá ætti að hafa það til sölu í hverri sveit. En nú hefir því verið haldið fram hér á landi í mörg ár að aðalútkoman af áhrifum áfengis á þjóðina er annars vegar stóreflis bein fjáreyðsla, hins vegar líftjón margra manna og heilsuspjöll á sál og líkama.

Og allt stendur þetta óhrakið. við sjáum meinið. Við getum bætt úr því, bannað alla sölu áfengra drykkja. En við gerum það ekki. Hvað á þetta lengi að ganga? Er þjóðin of rík, eða of hraust og heilsugóð? Nei, en hún er svo óvön því, að vera á undan öðrum þjóðum, er oftast langt í humáttinni á eftir þeim. Aðrar þjóðir keppa hver við aðra að vera fremstar. Við viljum vera á eftir. – Það er ekki siður hér á landi að hugsa svo hátt, að við Íslendingar getum komist langt fram fyrir aðrar þjóðir í nokkurri breytingu til framfara. Við eigum miklu hægar með að afnema áfengisverzlun, en nokkur önnur þjóð í Norðurálfunni. En við gerum það ekki – til þess að verða ekki langt á undan nágranaþjóðunum. Þetta segjum við ekki upphátt. Við berum annað fyrir, segjum að þjóðin sé ekki fær um innflutningsbann á áfengi, eða algert sölubann, sé ekki undir það búin, að hagnýta sér slík laganýmæli. Sama viðbáran er höfð á móti flestum öðrum tillögum til framfara hér á landi; en hún lítur illa út meðan þjóðin er að berjast af öllum sína veika mætti fyrir nýmælum í stjórnarskrá landsins, en játar þó á margna hátt að hún hefir illa hagnýtt sér stjórnarskrána, sem til er.“

http://www.visir.is/ekki-setja-afengisidnadinn-undir-styrid/article/2015703139999

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/06/09/gulu-augun/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.3.2016 - 12:02 - FB ummæli ()

Ef aðstæður leyfðu við Nýja Landspítalan við Hringbraut

image

Gestainnlegg frá Ásgeiri Snæ Vilhjálmssyni, lækni á Herlev í Kaupmannahöfn og Helsingborg í Svíþjóð).

Alþingi virðist ætla að hengslast á endurskoðun á fyrri ákvörðun á byggingaframkvæmdum Nýja Landspítalans á gömlu og þröngu Hringbrautarlóðinni (heildarnýbyggingamagn upp á um 81.000 fermetra). Sjálfur meðferðakjarninn er áætlaður um 60.000 fermetrar (áætlaður byggingarkostnaður um 35 milljarðar samkvæmt nýlegri KPMG endurskoðunarskýrslu). Í framhaldinu er gert ráð fyrir allskonar bútasaum og mikilli endurnýjun á 60.000 fermetrum á hálfónýtu húsnæði (endurbyggingakostnaður ásamt öðrum nýbyggingakostnaði um 40 milljarðar). Ennþá er tími til að breyta ákvörðuninni.

Nauðsynlegt er að líta til hvað nágrannaþjóðir gera í áþekkri stöðu. Oftast er valið að byggja frekar nýtt frá grunni á nýjum stað, nema góðar aðstæður leyfi á þeim eldri. Við hjá Samtökum um betri spítala á besta stað (SBSBS) höfum sl. ár bent á þessi atriði hvað varðar gömlu Landspítalalóðina. Bent hefur verið á að forða mætti íslensku þjóðinni frá sennilega mestu mistökum á dýrustu ríkisframkvæmd 21. aldarinnar og allt að 100 milljarða króna aukakostnaði þegar upp verður staðið í framtíðinni.

Það er af þessu tilefni fróðlegt fyrir alþjóð að kynna sér t.d.hugsanahátt Dana um þróun spítalaþjónustunnar og stækkun gamla spítalans í Herlev á allt öðrum og skynsamlegri forsendum en nú er gert á Hringbrautarlóðinni.

Eftir að Herlev sjúkrahús var valið til að verða svæðis-ofursjúkrahús (bráðasjúkrahús með fulla þjónustu allan sólarhringinn) var fljótt ljóst að það þyrfti að stækka. Það hefur eflaust skipt sköpum þegar Herlev sjúkrahúsið var valið að bæði er hann fyrir stór spítali, (sjöundi hæsti spítali í heiminum), göngudeildir lengi verið mjög öflugar og feyki nóg pláss er á lóðinni. Nú þurfti hins vegar að auka leguplássarými, en þó fyrst og fremst að bæta aðgengi og afkastagetu bráðaþjónustunnar.

hringurStarfsemin á Herlev sjúkrahúsinu snýr fyrst og fremst að bráðaveikindum ýmiskonar á lyf- og skurðlæknasviðum, m.a. bráðalækningum á kvensjúkdóma- og barnalæknissviði (þ.á.m. fæðingar og nýburadeild). Byggðar verða tvær tengdar bráðaeiningar, almenn bráðamóttaka og við hliðina fæðingar- og barnamóttaka. Í stærri kjarnanum (sjá mynd) verða svo einnig gjörgæslu-, skurð- og röntgendeildir/rannsóknadeildir. Þrjár hæðir af blönduðum skammtímalegudeildum fyrir ofan (sjá mynd), en sjúklingar sem þurfa lengri innlagnartíma fara inn á sérgreinadeildir gamla spítalans. Það er eitthvað annað en að smíða einn meðferðakjarna á miðri Hringbrautarlóðinni og ætla síðan að troða mest allri starfsemi spítalans inn í hann.

Nýi meðferðarkjarninn á Herlev verður um ca 60.000 fermetrar. Að þessu koma 15 vertakar sem saman taka ca 1 milljarð dk eða ca 18 milljarða íslenskar krónur að undanskildum arkitektakostnaði, fermetirinn þá á ca 300.000 ísl. kr. / fermetir tilbúið með starfsfólk á gólfinu. Byggingakostnaður á meðferðakjarna í sjálfri Kaupmannahöfn er tæplega helmingi lægri en nú er áætlaður á jafnstórum meðferðakjarna á Hringbrautarlóðinni. Framkvæmdir byrjuðu í lok árs 2015 og  á að verða lokið eftir tvö ár (2018). Óverulegt ónæði verður af framkvæmdunum, ólíkt því sem nú er á Hringbrautarlóðinni.

Herlev er háskólasjúkrahús með marga nemendur í heilbrigðisvísindum eins og önnur háskólasjúkrahús í Kaupmannahöfn. Kennslan er mikið klínísk og fræðilegir fyrirlestrar fara fram í fyrirlestrarsölum sjúkrahússins. Mikil ánæga hefur verið með þessa starfsemi. Einnig eru síðan klínísk próf tekin á Herlev með inniliggjandi sjúklingum. Mikil rannsóknarvinna fer þar einnig fram og er nemendum boðið að vera með og létta undir með prófessorunum sem þar starfa.

Hvað háskólamenn við HÍ hafa fyrir sér í því að spítalinn þurfa að byggjast nálægt háskólanum á kostnað aðstöðu og aðgengis sjúklinga og starfsfólks er óskiljanlegt. Auðvitað mundi „læknagarður“ (núverandi námsaðstaða heilbrigðissviðs) flytjast með sjúkrahúsinu. Gleymið ekki að til stendur að rífa gamla Læknagarð að mestu og byggja síðan nýja aðstöðu ofan í allt annað sem ekki er með í reiknuðum á byggingarkostnaði nú.

Undirbúningsvinnan öll frá því fyrir aldarmót þegar ákveðið var að sameina spítalana tvo, í Fossvogi og á Hringbrautarlóð, hefur verið mikið gagnrýnd af fagfólki á flestum stigum málsins. Gagnrýnin hefur hins vegar verið jafnóðum þögguð niður eftir að upphafleg ákvörðun var tekin sem nú er um tveggja áratuga gömul.

Enn er tími til stefnu að taka málið upp og endurskoða allt dæmið fyrir minni pening og jafnvel með  styttri byggingartíma en nú er áætlaður við Hringbraut (2023). En til þess þarf að vera pólitískur vilji. Danirnir eru svo sannarlega með þetta á hreinu, af hverju ekki við?

 

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/nyheder-og-presse/nyheder/Sider/Nyt-Hospital-Herlev-indg%C3%A5r-kontrakter-.aspx

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/Projektet/akuthus/Sider/Indretning.aspx

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/Projektet/Sider/default.aspx

https://www.herlevhospital.dk/nythospitalherlev/Projektet/Rensningsanlæg/Sider/default.aspx

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Föstudagur 4.3.2016 - 09:14 - FB ummæli ()

Heilagri en sjálfur páfinn í forvörnum gegn reyktóbaki

sigarettur_stor_120216Samkvæmt nýjustu tölum reykja enn 10% fullorðinna á Íslandi og sem sennilega má teljast harðasti kjarninn. Töluverð umræða hefur verið um rafretturnar og sitt sýnist hverjum um þær þótt rannsóknir sýni að ekkert auðveldi tóbaksreykingamanneskjunni jafn auðveldlega að hætta reykingum og þær. Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir hefur skrifað töluvert um þær á Vísi að undanförnu og þar sem til stendur að setja í lög heft aðgengi að rafrettum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins (EU). Tóbaksreykurinn leggur hins vegar um 60% reykingamanna að velli fyrir aldur fram og því til mikils að vinna. Lífhættulegt athæfi og reykur og sem leggur mikinn kostnað á heilbrigðiskerfið að lokum.

Skaðsemi rafretta hefur ekki enn tekist að sanna og þótt enn ótímabært að fullyrða að þær séu með öllu skaðlausar til lengri tíma. Annarsvegar er verið að tala um neyslu á nikótíni með bruna á tóbaksblöðum og pappír og hinsvegar nær eingöngu með vatnsgufu með bragsefnum. Skaðsemi sjálfs nikótíns er með öllu óvíst, þótt vissulega valdi það ákveðinni fíkn. Svipað mætti reyndar segja um koffein og að ekki sé talað um áfengið sem leitt getur til stjórnlausar hegðunar með drykkju, auk mikils heilsuskaða og slysahættu. Ekkert sem á við nikótínið og sem í sumum tilvikum getur komið í veg fyrir félagslega einangrun og þunglyndi. Jafnvel sem lyf sem nota má til að skerpa athyglisgáfu hjá einstaklingum með ofvirkni og athyglisbrest og til meðhöndlunar gegn elliglöpum hjá gömlu fólki.

Rannsóknir sýna reyndar að aðeins lítill hluti þeirra sem totta rafrettur ánetjast vananum og níkótíninu líkt og með reyktóbakið og sem er í raun gjörólík neysla. Í tóbaksreyk eru mörg hættuleg efni fyrir utan köfnunarefnissamböndin og kolmónoxid sem veldur meðal annars þeirri slævingu og höfga sem einkennir svokallaða vellíðan reykingamannsins sem hann sækist eftir. Vani sem verður að stórum hluta fíkn og sem nikótínskorturinn sannarlega getur líkað kallað fram. Hvortveggja, að fá sér tóbakssmók og að totta rafrettu er þó eða hefur verið ákveðin samfélagsleg athöfn sem fólk hefur getað hingað til látið eftir sér til að brjóta upp um stundarsakir hversdagsleikann. Aðrir fá sér kaffi, gosdrykk, misholl matvæli eða sælgæti. Allt sem í raun getur verið miklu skaðsamlegra en gufa með smá nikótíni (og bragðefnum).

Sjálfum finnst mér og öðrum umræðan litast af mikilli forræðishyggju og jafnvel þannig að þeir lærðustu seti sig í dómarasæti sjálfs páfans. Sænska snusið sem ekki hefur einu sinni verið hægt að tengja við krabbamein og sem vissulega tóbaksreykurinn gerir, hefur til að mynda haldið heilu kynslóðunum frá tóbaksreyk t.d. í Svíþjóð en bannað að selja hér á landi. Venja í Svíþjóð sem er svo fastbundin kúltúr og samfélagshefðum þar í landi að sjálft regluverk Evrópusambandsins (EU) hefur orðið að láta í minni pokann. Bannar þó snusið í öllum örðum löndum um leið og það leyfir t.d. nær óheftan aðgang að lausu tóbaki til notkunar í munn eða undir vör, svo ekki sé talað um reyktóbakið. Íslenski ruddinn (neftóbak sem er mest selt sem munntóbak) og sem leiðir frekar til óheftrar notkunar, enda engin stöðluð viðmið og framleiðsluaðferðir líka óstaðlaðar að mestu.  Tvískinnungshátturinn ríður þannig oft ekki við einteyming. Gamla neftóbakið þannig enn selt til yngri kynslóðarinnar til notkunar undir vör, jafnvel til notkunar með sprautum til að hægt sé að troða sem mestu undir vörina og upp undir kinn. Þannig stórvarasöm neysla m.t.t. ætingar á slímhúðum og tönnum og margfaldrar níkótínsneyslu miðað sænska snusið, þótt vissulega séum við laus við tóbaksreykinn hættulega niður í sjálf lungun.

Nútímamaðurinn verður aldrei laus við alla saklausa ljóta siði og vær nær að einbeita sér að þeim hættulegustu. Áfengi er til að mynda stórhættulegt efni sé þess neytt í óhófi og þar sem um 10% þjóðarinnar þarf að leita sér að lokum hjálapar vegna fíknivanda og sjálfseyðileggingar sinnar og fjölskyldunnar. Eitt mesta mein í nútíma samfélagi. Eiturlyfjaneysla hverskonar er auðvitað svo sýnu verri. Munntóbak í stöðluðu og vel kontroleruðu formi miðað við góðar framleiðsluaðferðir eins og sænska snusið, drepur sennilega engan og margir neytendur una nokkuð glaðir með sitt og láta jafnvel aðra ósiði lönd og leið, þar á meðal tóbaksreykinn.

Tott á rafrettum er sennilega það alsaklausasta af þessu öllu saman og sem engin vísindaleg eða heilsufarsleg rök mæla með að ætti að banna eða takmarka frekar en óhóflegt sælgætisát. Nær væri því að banna eða takmarka hvítan sykur í matvælum og sem sennilega á eftir að leggja fleiri að velli en sjálfur tóbaksreykurinn gerir í dag og nú horfir við með vaxandi ofþyngd þjóðarinnar. Verum a.m.k. ekki heilagri en páfinn og veitum umræðunni um tobaksvarnir í skynsamlegri farveg, sérstaklega gangvart unga fólkinu. Bætum allar forvarnir svo sem flestir geti verið án fíkniefna á eigin forsendum, hvaða nefni sem þau nefnast. Tryggjum gæðakröfurnar á sölumennskunni og á varningnum svo allir viti hvers þeir neyta (svipað og Svíar gera með snusið sitt). Forðumst að forvarnarstarf snúist gegn markmiðum sínum með öfugsnúinni forræðishyggju og nú má líka greina af umræðunni gegn rafrettum og sem hjálpar tóbaksreykingarmanninum hvað best að hætta lífshættulegri neyslu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Föstudagur 19.2.2016 - 13:22 - FB ummæli ()

Kolsvört á höndunum og kolsvört í framan- Umhverfisvæn Reykjavíkurborg!

image

 

Ofannefnd orð eru höfð eftir Frey Hermannssyni, faðir drengs sem æfir fótbolta á gervigrasvelli borgarinnar vegna dekkjakurlsins og fram kom í í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Foreldrar hafa nú stofnað samtök fyrir baráttu sinni, „Nýjan völl án tafar. Öll dekkjakurl til grafar„.

REACH reglugerðin sem vitnað var í í fréttinni, hefur það meginmarkmið að vernda heilsu manna og umhverfi og sem tók gildi á Íslandi árið 2008. Samkvæmt henni mega leikföng ekki innihalda meira en hálft milligramm á kíló af þrávirku efnunum PAH (Polycyclic aromatic hydrocarbon) og valdið geta krabbameinum. Íþróttavörur mega ekki innihalda meira en 1 mg/kg af efnunum og leyfilegt innihald í bíldekkjum er 10 mg/kg. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur dekkjakurlið á íslenskum sparkvöllum hins vegar innihaldið allt frá 13 og upp í 55 mg/kg. Mikið áhyggjuefni og sem m.a. var  tilefni ályktana Læknafélags Íslands 2010 og aftur haustið 2015 og sem skrifð hefur verið um í Læknablaðinu. Á vef Reykjavíkurborgar kemur hins vegar fram að upplýsinga hafi verið aflað um kurlið. Á grundvelli þeirra upplýsinga sé ekki talin nauðsyn á að skipta því út!! Engar óyggjandi sannanir liggi fyrir um það hvort gúmmíkurlið sé hættulegt eða ekki.!!!!“ Því mun Reykjavíkurborg halda sig við þá stefnu sem að mótuð var árið 2010 að gervigrasvellir verði ekki endurnýjaðir með SBR gúmmíi og að útskipting á SBR gúmmíi verði framkvæmd í kjölfar viðhaldsverkefna á hverjum velli samkvæmt viðhaldsáætlun. Það verði því ekki farið í að skipta út SBR gúmmíinu eingöngu í einni aðgerð.“

 

image

 

Hættulegust algengra umhverfisefna í hópi PAH efna eru svokölluð þalöt og sem eru hormónatruflandi plast/gúmíefni. Hormónahermar eins og þau eru oft kölluð (endocrine disruptors, endcrine mimics). Alkyl phenolar, einkum bisphenol A eru þar talin verst. Þessi lífrænu iðnaðarefni eru talin eru ógna frjósemi og heilsu manna og dýra hvað mest í dag og m.a. sífellt yngri kynþroska stúlkna. Eins hugsanlega sem áhættuþáttur í offitufaraldrinum, vaxandi tíðni efnaskiptasjúkdóma eins og sykursýki og í myndun krabbameina. Áhættu þalata hefur Sigmundur Guðbjarnason prófessor gert vel grein fyrir í sínum skrifum á sl. árum, m.a. í grein sinni hér á Eyjunni ”Frá vöggu til grafar”.

Viss þalöt hafa því nú þegar verið alfarið bönnuð í almennum neysluvörum í sumum löndum, t.d. í Danmörku fyrir 3 árum, en áður var búið að banna notkun þessarra efna þar í pelum og snuðum ungbarna af augljósum ástæðum. Efni sem hafa sýnt sig geta haft bein áhrif á okkur úr nærumhverfinu þótt mjúk og meðfærileg séu, m.a. sem finnast mikið í leikföngum ungbarna, snyrtivörum, fatnaði, eldhúsáhöldum og plastílátum ýmiskonar. Þessi efni komast síðan í enn meiri snertingu við okkur þegar þau eru notuð t.d. í eldamennsku hverskonar. Nú ekki síst á hörundi barnanna okkar í tugföldu leyfilegu magni eftir knattspyrnuæfingar á gervigrasvöllum borgarinnar og þegar þau koma sveitt og kolsvört heim á höndum og í andliti.

 

http://www.ruv.is/frett/foreldrar-krefjast-rannsoknar-a-dekkjakurli

http://reykjavik.is/frettir/gervigrasvellir-endurnyjadir

http://www.lis.is/Assets/Fréttir/Ályktun%206-dekkjakurl-samþykkt.pdf

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2010/11/nr/4017

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/5/5/haettur-i-naerumhverfi-islands/

http://blog.dv.is/sigmundurg/2012/10/02/fra-voggu-til-grafar/

http://www.intertek.com/consumer/insight-bulletins/restriction-of-pahs-to-consumer-products/

http://www.euractiv.com/section/health-consumers/news/denmark-defies-eu-with-planned-ban-on-phthalate-chemicals/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn