
Ég hef oft efast um sjónarmið mín og þær ályktanir sem ég dreg af ýmsum áætlunum sem varða skipulag og byggingalist. En ég styðst eins og ég get við fagleg sjónarmið sem lögð eru fram og geri mér far um að reyna að skilja það sem liggur á borðum. Eflaust hef ég stundum rangt fyrir mér varðandi einstaka mál.
Stundum tekst mér ekki að skilja hvert menn eru að fara og þess vegna reyni ég að skapa umræðu um efnið á þessum vef og víðar í von um að umræðan verði upplýsandi og lausnamiðuð. Stundum reyni ég að þvinga fram viðbrögð með því að vera svolítið ögrandi. Geri mér jafnvel upp skoðanir. Það tekst stundum að laða fram viðbrögð en ekki alltaf. Það er hinsvegar ekki óalgengt að ég fái viðbrögð á netfang mitt, eða þeir hringi. Þetta eru oftast aðilar sem tengjast viðkomandi máli beint og segjast ekki vilja taka þátt í opinberri umræðu um málið. Oft „stöðu sinnar vegna“
Gott dæmi um þetta eru áformin um að byggja Landspítala við Hringbraut. Ég hef skrifað pistla um þessa spurningu í sex ár, velt ýmsum steinum og leitað svara við aðkallandi spurningum.
Sannast sagna skil ég ekki af hverju það gengur svona illa að ná upp faglegri og lausnamiðaðri opinberri umræðu um þetta mikla mál.
Þetta hefur nánast verið einræða þó þeim sem eru svipaðrar skoðunnar og ég hafi fjölgað verulega.
Ég hef líkt þessu við samtal við girðingastaur. Samtalið er ekki gagnvirkt. Þeir sem véla um þessi mál fyrir hönd skattgreiðenda taka nánast ekkert þátt í umræðunni. Svara nánast engu og leiða umræðuna hjá sér. Það er líklega vegna þess að þeir telja þögnina vera bestu vörnina í vonlausri málefnalegri stöðu sinni. Kannski eru svörin ekki fyrir hendi!
Þeir sýna með þessu vissa forherðingu, yfirlæti eða jafnvel hroka gagnvart hinum leitandi sem auðvitað borga allan reikninginn.
Eins og kom fram í nýlegum pistli mínum hafa vandaðar skoðanakannanir sýnt að um 70% lækna eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut og svipað hlutfall hjúkrunarfólks. Um 85% sjúkraflutningamanna eru andsnúnir staðsetningunni við Hringbraut. Einungis 31% landsmanna sem valdir voru í vönduðu úrtaki af MMR eru hlynntir staðsetningunni við Hringbraut. 69% eru ekki sannfærðir. Fjárhagsleg og skipulagsleg rök benda til þess að uppbygging við Hringbraut sé óheppileg. Jafnvel röng.
Það hefur verið óskað eftir faglegu staðarvali í ein sex ár án nokkurra viðbragða.
++++
Arkitektar hafa ekki tjáð sig mikið um málið. Sennilega vegna þess að stór hluti þeirra hefur komið að málinu eða eiga persónulegra hagsmuna að gæta.
Ég spurði á fésbókarsíðu arkitekta þar sem eru skráðir um 500 arkitektar og ástríðufullir áhugamenn um skipulag og arkitektúr um efnið.
Ég bað sérfræðingana sem lesa FB síðu arkitekta um að taka þátt í umræðunni og gera mér og fjölda annarra sem efast um staðsetninguna við Hringbraut þann greiða að róa okkur og sannfæra okkur um að Hringbrautargangan sé gengin til góðs. Ég óskaði eftir faglegum rökstuðningi fyrir staðarvalinu.
Okkur sárvantar fagleg skipulagsleg rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut. Ég auglýsti beinlíns eftir þeim.
Enginn svaraði í fyrstu svo ég endurtók bón mína til sérfræðinganna nokkrum dögum seinna.
++++
Þá kom eitt svar .
Það var frá ágætum kollega mínum úr teyminu sem vann að deiliskipulaginu sem nú liggur fyrir og er væntanlega vel að sér í þessu máli.
Hann byrjaði á því að hnýta í okkur sem erum að leita svara við sjálfsögðum faglegum og velrökstuddum spurningum vegna staðarvalsins og sagði orðrétt að það væri „auðvelt að strá ryki í augu almennings með einföldum upphrópunum sem er vitað að valda ursla. Ábyrgðarlaus gagnrýni fagmanna getur tafið mál eins og bráðnauðsynlega uppbyggingu Landspítalans“.
Það er ekki beint málinu til framdráttar að byrja svona. Hann segir mig og fl. vera með ófaglega og óábyrgar upphrópanir til þess eins að valda usla!!!. Þessi tilvitnun upplýsir ekkert og er einungis til þess fallin að draga úr umræðunni. Þarna virðist reynt að þagga niður í fólki og kæfa umræðuna.
Svona ummæli draga úr áhuga fólks fyrir að ræða arkitektúr og skipulagsmál opinberlega. Maður missir eiginlega áhuga á samtalinu þegar svona svar birtist frá fagmanni sem ætti að þekkja vel til málanna og hefur af þessu atvinnu.
Maður sem ber samfélagslega ábyrgð vegna vinnu sinnar og á að sýna þeim sem borgar honum launin virðingu og þakka þann áhuga sem viðkomandi sýnir verki hans.
Skipulagshöfundurinn vísaði ekki í nein gögn máli sínu til stuðnings eða skipulagsrök vegna staðsetningarinnar, sem kom á óvart og er varla boðlegt.
Það verður samt að geta þess að hann fann þrjár ástæður fyrir því að byggja skyldi við Hringbraut. Engin þeirra byggði á skipulagslegum forsendum.
Atriðin þrjú voru þessi, orðrétt:
“Hafa ber í huga að ekki er um nýja lóð að ræða. Landspítalinn tók til starfa 20. des. 1930. Það er því bráðum komin 85 ára reynsla af staðsetningunni við Hringbraut.”
Í öðru lagi:
“Ekki verður séð að gagnrýnendur núverandi staðsetningar séu sammála um neinn annan ákveðinn kost. “
Og að lokum:
“Verði hætt við frekari uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og hann byggður annarsstaðar mun það óhjákvæmilega seinka opnun á nýjum spítala um að a.m.k. 3 ár.”
Svo kom „læk“ hjörðin sem lækaði eins og um væri að ræða íþróttakappleik þar sem menn halda auðvitað með sínu liði skilyrðislaust og oftast líka umhugsunarlaust.
++++++
Því hefur verið haldið fram að við sem erum í vafa um staðsetninguna við Hringbarut „skellum skollaeyrum við staðreyndum“ og „sjáum ekki heildarmyndina“. Mér sýnist þvert á móti að aðstandendur framkvæmdarinnar skjóti skollaeyrum við gagnrýninni og velja að svara engu eins og dæmin sanna. Þögn þeirra hefur komið málinu í þá stöðu sem það er nú í. Fullkomna óvissu!
Að ofan eru dæmi um svörin sem fást. Þau eru ekki faglegs- eða skipulagslegs eðlis heldur bera einkenni flótta frá málefnalegri umræðu.
Forsvarsmenn verkefnisins hafa líka sagt okkur að þeir hafi fengið það verkefni frá Alþingi að undirbúa byggingu spítalans við Hringbraut og ekki annarsstaðar (Þarna virðist Alþingi hafa tekið til sín skipulagsvaldið). Það er að segja að þeir vilja ekki ræða staðsetninguna með faglegum hætti og bera fyrir sig boð frá Alþingi. Þarna er á ferðinni alger skortur á hinni svokölluðu „samfélagslegu ábyrgð“ hjá fagfólkinu, sem er mikið rómuð um þessar mundir og mikið kallað eftir.
Það má líka skjóta því hér inn að við sem erum í vafa um staðsetninguna skoðum þá heildarmynd sem Aðalskipulag Reykjavíkur hefur dregið upp. Við skoðum líka þá félagslegu mynd sem við blasir og þá fjárhagslegu mynd sem nýlega var dregin upp.
Fylgjendurnir sýnist mér vera að skoða heildarmynd sem þeir sjálfir hafa skapað og er að margra mati ekki lengur í tengslum við þann veruleika sem blasir við í dag. Það hefur verið sýnt fram á að hinar svokölluðu staðarvalsskýrslur, sem eru þrjár, standa ekki undir nafni þó stundum sé vitnað í þær. Ég er til dæmis fullur efasemda um hvort borgarstjórinn og heilbrigðisráðherra hafi nokkurntíman lesið skýrslurnar og kynnt sér þó þeir hafi vitnað í þær. Til þess eru þeir of vandaðir menn. En þeir fara ekki rangt með því skýrslurnar benda á Hringbraut.
+++++
Draga má þá ályktun af því sem að ofan stendur að það virðist ekki nokkur leið að ná upp faglegri og málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga mál. Menn ýmist svara ekki eða hlaupa útundan sér.
Manni fallast hendur.
++++++
Myndin efst í færslunni er eftir Leonardo da Vinci en tilvitunin er meira en 2000 ára gömul og er eftir Marcus Vitruvius Pollio (70-80 f.kr – 15 e.kr) sem var fræðimaður sem einbeitti sér að byggingalist.