Miðvikudagur 19.10.2011 - 08:57 - 29 ummæli

Vesturbær sunnan Hringbrautar

.

Á morgunn,  fimmtudag,  verður haldinn fundur  á vegum Hvefisráðs Vesturbæjar undir yfirskriftinni: “Hofsvallagatan – íbúafundur um götu og skipulag hverfis” .

Fundurinn hefst klukkan 20.00 í Yale sal á hótel Sögu og stendur til kl 22.00.

Það er um að gera að mæta.  Þetta er ekki bara spennandi fyrir íbúa á svæðinu heldur líka alla sem láta sig skipulag og samráðsferil varða.

Framundan eru breytingar á Hofsvallagötunni. Hverfisráðið vill að íbúar verði með í nýrri hönnun alveg frá byrjun.  Samráðsferlið hefst með fundinum á morgunn og stendur yfir í vetur. Ýmsum spurningum verður varpað fram:

* Hvernig drögum við úr hraða bílanna?
* Hvernig aukum við öryggi barna á leið í skóla, sund og aðrar tómstundir?
* Hvernig stuðlum við að aukinni umferð gangandi og hjólandi?
* Hvernig gerum við götuna fallegri?

Það eru margar spennandi spurningar sem  gaman verður að taka þátt í að finna svör við.

Hofsvallagatan er nú of  breið og kallar á hraða gegnumakstursumferð og  er að margra mati ógn við öryggi og lífsgæði Vesturbæinga.

++++

Fyrir rúmu hálfu ári  hélt  Hverfisráð Vesturbæjar fund undir yfirskriftinni „Vesturbær til framtíðar“ .  Gísli Marteinn Baldursson borgafulltrúi, sem einnig er formaður Hverfisráðs Vesturbæjar átti frumkvæði að fundinum. Gísli Marteinn er mjög áhugasamur um aðra hugsun um skipulags- og samgöngumál í borginni en ríkt hefur og  talað skynsamlega um málaflokkinn. Hann, bað mig sem gamlann og rótgróinn vesturbæing að koma með innlegg á fundinn í vor. Ég átti að reifa hugmyndir mínar um Vesturbæinn sunnan Hringbrautar í framtíðinni.

Það er tilefni nú til þess að rifja eitthvað upp af  þeim hugmyndum sem kynntar voru á fundinum í vor.

Hugmyndirnar gengu út á framtíð Vesturbæjarins sem sjálfbært hverfi með virkri hverfismiðju og lítilli bifreiðaumferð og mikið af gangandi og hjólandi vegfarendum.  Markmiðið var að skapa umhverfi þar sem öll dagleg þjónusta er aðgengileg  í göngufæri frá heimilum fólks.  Matvöruverslun og öll dagleg þjónusta væri færð inn í hverfið og íbúðum og atvinnutækifærum fjölgað.

Megin aflið fólst í því að gera Hofsvallagötuna að vistgötu og skapa þar hverfismiðju með verslun, þjónustu og iðandi mannlífi.  Sýndir voru möguleikar á að fjölga bæði íbúðum um nokkur hundruð í hverfinu og færa fleiri atvinnutækifæri inn í Vesturbæinn sunnan Hringbrautar.

Hjálagðar er  sýnishorn af þeim teikningum sem lagðar voru fram á fundinum um  „framtíð Vesturbæjar“ í fyrravetur.

Efst er yfirlitsmynd yfir hverfið sem var til umfjöllunar,  Reykjavík 107.  Þar má glöggt sjá að miðja hverfisins er milli Sundlaugar Vesturbæjar og Hagatorgs.  Þarna er þegar landfræðileg miðja og starfræn miðja.  Hugmyndin var að skerpa þessa mynd og auka þjónustuna á þessu svæði um leið og umferðaöryggi og mannlíf er aukið og bætt. Lagt er til að borgarhlutinn verði gönguvænni og vistvænni.

 

Í hugmyndunum er gert ráð fyrir að Hofsvallagata verði með seitlandi bifreiðaumferð frá Hringbraut þar til skömmu áður en komið er að Hagamel.  Þar tekur við hrein vistgata, „shared street“  með seitlandi bílaumferð sem heldur svo áfram að grænu svæði þar sem nú eru skólarnir, kirkjan og Hagatorg.  Á vistgötunni hafa hvorki bílar né gangandi forgang.  Þarna hefst miðhverfi borgarhlutans þar sem er að finna alla þjónustu svo sem fjölbreytta verslun,  veitingastað/hverfisknæpu, heilsugæslu, bókasafn, stjórnsýslu, banka, pósthús, áfengisverslun, bakarí, menningarstarfssemi og hvað annað sem borgarbúar þurfa að sækja. Nú er þarna Melabúðin og Vesturbæjarapótek.

Byggingarnar eru til staðar og þetta er miðsvæðis.  Svæðið er stutt frá öllum skólum hverfisins og í göngufæri frá flestum heimilum borgarhlutans.  Svæðið yrði svo í góðum tengslum við virkt  almenningavagnakerfi borgarinnar.

 

Tillagan lýsti einnig tækifæri sem fellst í að breyta Hagatorg úr núverandi mynd í opið svæði.

Í stað hringtorgsins er skapaður garður hverfisins, „miðgarður“,  þar sem allar helstu stofnanir hans eru staðsettar; Kirkjan,  Leikskóli,  Hagaskólinn og Melaskólinn.  Göturnar milli Melaskóla og kirkju og kirkju og Hagaskóla eru lagðar niður og gerðar að hlykkjóttum garðstígum fyrir gangandi og hjólandi.

Með þessari útfærslu mun hverfið eignast góðan og fallegan garð auk þess að stuðla  að umferðaöryggi og hvetjandi umhverfi án þess að það bitni að marki á bifreiðaumferð. Þessi hugmynd mun heldur ekki draga út mikilvægi þeirra glæsibygginga sem við torgið standa. Þær munu njóta sín enn betur frá skemmtilegu útivistarsvæði sem er öllum til heilla.

Við sameiningu skólalóðanna og lóð kirkjunnar með hringtorginu skapast gríðarleg tækifæri fyrir bæjarhlutann til margskonar útivistarathafna.  Svæðið breytist úr ólögulegu stofnanasvæði með gatnakerfi sem sker það í sundur, í heillegt útivistarsvæði.  Hugsanlega má koma þarna fyrir duftkirkjugarði eða duftvegg fyrir nokkur þúsund ker.

Með þessu skapast einning tækifæri til þess að stækka skólana og mæta þannig vaxandi hús´æðisþörf. Aðalbyggingu Melaskólans má lengja til suðurs þar sem Neshagi er nú og nota um leið tækifærið og gera hann þannig að hann henti fötluðum.

Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu og sjá hvort takist að gera Vesturbæinn  Reykjavík að heilsteyptu sjálfbæru hverfi í daglegum störfum íbúanna.  Þessi fyrirmynd gæti orðið módel til fyrirmyndar fyrir aðra borgarhluta.  Ég efast ekki um að víðast má bæta hverfin verulega.

Svona Vesturbær yrði til fyrirmyndar sem borgarhluti þar sem sjálfbærni og skemmtilegt mannlíf er markmiðið.

Endilega tvísmellið á teikningarnar þá stækka þær og verða skýrari.

Hér strax að neðan kemur svo teikning eftir arkitektana Gretar Markússon og Stefán Örn Stefánsson sem er tillaga að endurgerð umhverfisins við Grásleppuskúrana við Ægisíði. En þeir eru hluti af demöntum borgarhlutans.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.10.2011 - 22:55 - 7 ummæli

Kirkja

Í upphafi var kirkjan þar sem tveir kristnir menn komu saman.  Í  ritningunni segir „……látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús“  Þannig er byggingarefnið ekki timbur, steinar  eða steinsteypa heldur mannlífið og fólkið  sem er   „….musteri Guðs“.

Það er ekki húsið sem er musteri Guðs, heldur mannlífið.  Það má kannski segja að samkvæmt þesssu er það misskilningur að byggja kirkjur.

En kirkjur eru byggðar og verkefni kirkjusmiðanna er að skapa upphafið heilagt rými fyrir Guð og fólk.  Þetta tekst stundum en ekki næstum því alltaf.

Í kirkju sem teiknuð er af Jörn Utzon hefur þetta tekist.  Það er sóknarkirkja í Bagsværd norðan Kaupmannahafnar sem vígð var árið 1976.  Í Bagsværd hafði ekki verið kirkja síðan á  sautjándu öld. Allir sem koma í kirkjuna finna strax fyrir mikilfenglegu andrúmi sem þarna er í þessu andans húsi. Þetta er upphafið rými sem gefur gestinum tilfinningu fyrir heilagleika og fær hann til þess að losa úr huga sér hugsanir frá veraldlegum hversdagsleika.

Eins og í upphafi var sagt þá er kirkjan sóknarbörnin, ekki húsið.  Prestarnir eru þjónar sóknarbarnanna og Guðs, ekki stofnunarinnar eða hússins,  þó svo virðist á stundum.

Nú þegar íslenska kirkjan er í kreppu þurfa prestarnir að sinna sóknarbörnum sínum í grasrótinni, þ.e.a.s. kirkjunni, samkvæmt ritningunni.  En það gera þeir ekki á þessum erfiðu tímum.  Spurt er hvort þeir séu að svíkja söfnuðinn og kirkjuna með aðgerðarleysi sínu?  Þeir sitja  í musterunum og láta sanngjarna reiði bitna á  alsaklausum manni,  sitjandi biskup.  Prestarnir jafnvel styðja og klappa upp ósanngjarnar árásir á þjóðkirkjuna og biskup.  Þeir horfa  aðgerðarlausir á að skiljanleg reiði fólks  er beint að einstaklingi sem ekkert hefur til sakar unnið annað en að vista ekki  bréf eins og verklagsreglur segja til um.

Kirkjunnar þjónar eiga að breyta í samræmi við boðunina og góða siði.  Prestarnir eiga að hjálpa  söfnuðinum til að fá útrás fyrir reiði sína og beina henni í skynsamlega átt.  Skipuleggja síðan fyrirgefningarferli.  Prestar eru sérfræðingar í huggun og fyrirgefningu.

Að draga sitjandi biskup niður með Ólafi Skúlasyni er ósanngjarnt, ósmekklegt og á engan hátt sæmandi að spyrða athafnir þessara tveggja manna saman eins og gert er.  Að tala jöfnum höndum um glæpi Ólafs og hugsanleg mistök sitjandi biskups er ósmekklegt og ljótt.  Að prestar skuli láta þetta átölulaust og bregðast ekki til varnar er auðvitað villimansleg hegðun svipuð og tíðkaðist á hinum myrku miðöldum þegar galdrabrennnur áttu sér stað.  Þetta minnir á þegar öskrandi alþýðan heimtaði  blóraböggul sem var líflátinn til þess að ró færðist yfir þjóðfélagið.  Er þetta ekki úrelt aðferð til að skapa frið um mál?

Ég skil ekki fálæti presta og finnst þeir bregðast boðuninni um umburðalyndi og fyrirgefningu.  Sóknarbörnunum líður illa vegna þessa meðan prestarnir sitja eins og í Hruninu aðgerðarlausir og máttlausir með hendur í skauti og bíða þess sem verða vill.

Í stað þess að velta fyrir sér hvernig á því geti staðið að fyrrverandi biskup hafi komst til metorða, var klappaður upp og tókst að blekkja alla þjóðin horfa prestarnir aðgerðarlausir á þegar grafin er gjá milli kirkju og þjóðar.  Þeir  taka sumir jafnvel þátt í greftrinum.

Prestarnir fljóta eins og korktappar ofaná almenningsálitinu og skortir alla festu þjóðkirkjunni til varnar og sóknarbörnum til huggunnar og heilla.

Eru kirkjunnar menn kirkjunni verstir?

Þetta var útúrdúr sem samt tengist efninu sem er Kirkja.  Kirkjan er þar sem tveir kristir menn koma saman,  kirkjan er söfnuðurinn.

Kirkjubyggingin í Bagsværd var fyrsta verk Utzon eftir að hann sneri til baka frá Sydney þar sem hann vann að Operuhúsinu. Kirkjan var í byggingu frá árinu 1968-1976.  Kirkjubyggingar eru eitthvað það alskemmtilegasta verkefni sem arkitekt er fengið í hendur og kemur þar margt til.  Það þekki ég sjálfur.


Frumskissa Utzon þar sem hann leggur fram sína skýru sýn á aðalrými kirkjunnar. Himininn, sjóndeildarhringurinn og krossinn.

Grunnmynd og snið. Á grunnmyndinni má sjá hvað hið klassíska heilaga rými er lítill hluti kirkjunnar. Enda eru hefðbundnar athafnir nú á dögum aðeins brot kirkjustarfsins.


Gengið er inn kirkjuna til austurs beint að altari

Loftið leiðir hugan að kúmulus skýjabólstrum og himninum

Útlit kirkjunnar er umdeil. það virkar veraldlegt. minnir kannski á iðnaðarbyggingu. Þegar inn er komið er andstaðan mikil…og áhrifamikil.

Hliðarbirta um mikla þakglugga er áberandi þegar inn er komið

Jörgen Utzon lést 90 ára gamall árið 2009

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.10.2011 - 14:28 - 7 ummæli

Fiskimarkaðs tilraun í Reykjavík 2010

Í framhaldi af umræðu um matarmarkað við höfnina í Reykjavík þá var gerð ágætis tilraun sumarið 2010 með fiskmarkað fyrir almenning við grænu verbúðirnar við Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd hér að ofan fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar.  Hún var tekin þegar markaðurinn var í rekstri í fyrrasumar.

Tilraunin tókst vel og það er synd að hún hafi ekki verið endurtekin s.l. sumar.

Að lokinni tilrauninni var unnin skýrsla þar sem lokaorðin eru þessi:

“Eftir tvo rekstrarmánuði Fiskmarkaðar við Gömlu höfnina er ljóst að takmarkaður áhugi er á seljendahlið markaðsins. Mikinn áhuga má merkja hjá almenningi og hafa þeir sem selt hafa varning sinn á markaðnum í sumar orðið varir við mikla umferð um svæðið og góða sölu. Lítill árangur hefur verið af úthringingum og kynningu á markaðnum meðal þeirra er höndla með sjávarafurðir. Margir hafa sýnt því áhuga að vera með varning sinn í boði á markaðnum en kæra sig ekki um söluhliðina. Að líkindum væri betra ef einn söluaðili tæki að sér rekstur markaðsins og væri með söluvarning sinn á öllum básum og gæti einnig leigt þá út líkt og málum er háttað á fiskmörkuðum erlendis”.

Lykilorðin eru: „Mikinn áhuga má merkja hjá almenningi og hafa þeir sem selt hafa varning sinn á markaðnum í sumar orðið varir við mikla umferð um svæðið og góða sölu“.

Ef fundinm yrði staður í skjóli, umfangið aukið og gert fjölbreyttara er vafalaust grundvöllur fyrir svona markað  í Reykjavík allt árið  um kring eins og við þekkjum víða annarstaðar í borgum á stærð við Reykjavík.

Þetta var merkileg tilraun sem sýnir okkur að full ástæða er til þess að koma upp fullburða matarmarkaði í Reykjavík á borð við þann sem lýst var í færslu  sem  hér er vísað til:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

Hér er slóð að skýrslu sem var undanfari tilraunarinnar.  Hún er unnin af þeim Þóru Valsdóttur, Brynhildi Pálsdóttur og Theresu Himmer. Slóð að henni er þessi:

http://www.matis.is/media/matis/utgafa/32-09-Smasolu_Fiskmarkadur.pdf

Það er mikil áhersla lögð á ferðamannaþjónust til framtíðar hér á landi. Matarmarkaðir hvarvetna í heiminum eru fjölsóttir af ferðamönnum allstaðar og það sama yrði hér í Reykjavík.  Ég sneiði sjaldan framhjá matarmörkuðum á ferðum mínum um heiminn og sé að það gera fleiri túristar en ég.  Í raun ætti að vera forgangsmál ferðamannaborgarinnar Reykjavík að koma upp matarmarkaði hér sem fyrst.  Hér að neðan eru nokkrar ljósmyndir af matarmörkuðum sem sýna fjölbreytileikann. Þetta eru myndir frá mörkuðum sem við hjónin höfum heimsótt undanfarið.

Matarmarkaður undir berum himni í Kína

Kryddsölumaður á matarmarkaði í Tyrklandi

Fisksali. Ég man ekki hvar.

Fisksali  á götu í Suður Afríku forstjóralegur með hálstau og skósvein hans sem sér um alla vinnuna. Skósveinninn var að vísu kona (!)

Fisksali á Farmers Market í Seattle vesturströnd Bandaríkjanna

Matarmarkaður á götu í Tékklandi. Maður kaupir sér bita og fer með heim í kvöldmatinn (Take away)

Fisksali í Shanghai

Gamall yfirbyggður matarmarkaður í St. John í Canada

Þetta er frá markaði í Indónesíu þar sem verið er að selja lifandi furðudýr  úr sjónum til matar

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2011 - 10:17 - 2 ummæli

Skemmtilegt, frumlegt og fallegt framtak

10 manns, 18 plötur af krossviði, 119 snið og 120.000 ísl kr. (1000 US dollarar) og óstöðvandi vinnugleði og sköpunargáfa.

Þetta voru forsendurnar fyrir þessari hönnun. Stúdentar við Columbia University sköpuðu þetta og settu saman. Þetta er útisófi með liðamótum.

Að neðan er að finna skemmtilega kvikmynd sem tekin var við smíðina.

Framtakið minnir nokuð á aðgerðarsinnana í Borghildi

Sjá:

http://borghildur.info/

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.10.2011 - 15:10 - 17 ummæli

Vill nýtt kort af höfuðborgarsvæðinu

.

Sveitarfélagið Álftanes skuldar um sjö og hálfan milljarð króna.

Í tengslum við endurskipulagningu á fjárhagi Álftaness  hefur  Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagt að hann vilji sjá höfuðborgarsvæðið stokkað upp. Þetta er eitthvað sem allir sem hugsa um skipulagsmál hafa rætt áratugum saman.

Það eru góð tíðindi að ráðherrann skuli beina augum manna að þessu.

Ögmundur Jónasson segir að byrja skuli á að sameina Álftarnes við annað sveitarfélag.

Leggja þarf áherslu á að það á ekki að sameina sveitarfélögin á fjármálalegum forsendum, heldur ekki á landfræðilegum forsendum og alls ekki á pólitískum forsendum.

Það á að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á skipulagslegum forsendum. 

Núverandi skipting í 7 sveitarfélög hafa valdið okkur miklu tjóni hvort sem litið er til skipulagsmála eða hreinna fjárhagslegra hagsmuna sveitarfélaganna eða þeirra sem þar búa.

Það má leiða líkum að því að meginorsök vandræðagangsins í skipulagmálum á höfuðborgarsvæðinu sé  af þessum rótum ásamt sundurlyndi og hreppapólitík í sveitarfélögunum sjö.

Hefði eitt sveitarfélag verið á höfuðborgarsvæðinu öllu frá upphafi væru umferðamál með öðrum hætti en nú er og almenningssamgöngur virkari. Það má leiða að því líkum að Háskólanum í Reykjavík hefði ekki verið fundinn staður á einu fallegasta og besta útivistarsvæði borgarinnar. Það má líka gera ráð fyrir að umræðan um að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni hefði aldrei kviknað. Efra Breiðholt hefði sennilega ekki verið byggt. Líklegt væri að umræðan um staðsetningu Landspítalans væri með öðrum hætti og svo má lengi halda áfram.

Nú er bara að vona að innanríkisráðherran taki skrefið til fulls til þess að finna þessu máli farveg öllum til heilla, fylgi málinu eftir og láti kjósa um það í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.10.2011 - 23:07 - 2 ummæli

Herbergi 606

.

Á sjöttu hæð á SAS hótelinu í Kaupmannahöfn er eitt herbergi sem hefur verið haldið í sinni upprunalegu mynd frá því hótelið var opnað árið 1960.

Þetta er herbergi nr.: 606

Herbergið er tíl sýnis fyrir áhugasama ef það er ekki í útleigu.

Hótelið var teiknað af arkitektinum Arne Jacobsen sem flestir þekkja vegna húsgagnahönnunar hans.

Hann teiknaði tvo  af  heimsfrægum stólum sínum sérstaklega fyrir þetta hótel. Það er Eggið og  Svanurinn.  Stóll sem kallaður er Dropinn er ekki jafn þekktur var líka teiknaður sérstaklega fyrir hótelið. Dropinn en er áhugaverður fyrir þá hugmynd sem að baki honum liggur,  hann átti að sýnast nánast eins hvortheldur einhver situr í honum eða ekki!

Hjálagt eru nokkrar nýlegar ljósmyndir úr herbergi 606


Eggið í forgrunni og svefnaðstaða að tjaldabaki.


Dropinn

Mynd úr anddyri hótelsins

Arne Jacobsen í sköpunarverki sínu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 18:00 - 16 ummæli

Matarmarkaður við Reykjavíkurhöfn

Fyrir réttum mánuði opnaði nýr matarmarkaður á Israels Plads í miðborg Kaupmannahafnar. Þetta er matarmarkaður þar sem seld er gæðamatvara sem ekki tengist stóru búðarkeðjunum.

Aðdragandinn var ein 13 ár. Frumkvöðullinn var Hans Peter Hagen arkitekt sem stofnaði Köbenhavns Torvelaug árið 1998.

Israels Plads á sér 122 ára sögu sem markaðstorg. En þar var opnaður matarmarkaður árið 1889 þar sem framleiðendur komu með vöru sína og buðu borgarbúum til kaups.

Nú er víða verið að endurskapa þetta viðskiptaform með matvörur. Í tengslum við vakninguna hefur verið búin til aðstaða sem hentar nútímanum.

Torvehallen á Israels Plads hefur fengið góðar móttökur  og gengur vel. Því hefur þó verið haldið fram að byggingin sé aðeins yfirhönnuð og gefi viðskiptavininum tilfinningu um að þarna sé dýrt að versla, en það er misskilningur.

Fyrir nokkrum mánuðum benti ég núverandi stjórnarformanni Faxaflóahafna á að þetta væri kannski hugmynd sem Reykjavíkurhöfn ætti að skoða. Það þurfi að rækta hafnsækna starfsemi við Reykjavíkurhöfn. Hugasnlega væri þarna tækifæri fyrir fiskimarkað fyrir neytendur.  Þ.e.a.s. að neytendur gætu keypt fisk nánast beint uppúr bátunum við höfnina. Það mætti líka tengja þetta matvælum til neytenda beint frá bónda og fiskverkanda.

Bygging Brims við hafnarbakkann í Reykjavík hentar vel fyrir svona starfssemi. Ég færði stjórnarformanninum sem einnig situr í skipulagsráði borgarinnar gögn um málið.  Gögnin fjölluðu um hugmyndafræði markaðarins í Kaupmannahöfn ásamt frumdrögum.

Stjórnarformaðurinn sem er afar meðvitaður um staðaranda og gæði borgarsamfélags virtist áhugasamur um málið.

Hús Brims er vel staðsett hvað varðar aðföng bæði frá landi og sjó. Hún er í góðum tengslum við miðborgina og það má gera ráð fyrir að þarna verði góð léttlestartenging (eða „Bus Rapit Transit“) þegar þar að kemur.  Staðsetningin mun styrkja Kolaportið og starfsemina í verbúðunum grænu. Hún er líka gott mótvægi við Hörpu og fyrirhugað lúxushótel í grenndinni.

Á Israels Plads selja framleiðendur smáskammta og vín til smökkunar sem eru í raun litar máltíðir. Þetta er í anda þess sem víða má finna sunnar í Evrópu, t.d. í Parísarborg.

Tæknilega er Brimhúsið ákjósanlegur kostur.  Einungis þyrfti að fjarlægja steypueiningarnar utaná húsinu sem eru nánast ónýtar og setja glerveggi í staðinn og koma upp sæmilegu stoðkerfi með rafmagni, hita, frárennsli o.þ.h.

Er nokkuð yndislegra en að labba þarna við eftir vinnu og kaupa kjöt og grænmeti beint frá bónda eða sjómanni sem leggur upp  þarna við hafnarbakkann við hliðina á húsinu. Þarna yrðu auk kúa-, sauðfjár-, kjúklinga-, svína-, og matjurtabænda nokkrar sælkerabúðir á borð við Ostabúðina, Pipar & Salt, Kjöthöllina, Boutiqe fisk og nokkur handverksbakarí auk að sjálfsögðu  vínbúðar og kaffihúsa.

Maður verslar og tekur  svo léttlestina heim og eldar  matinn úr fyrsta flokks hráefni og dreitir á víninu. Veltir fyrir sér hvort sé betra lambakjötið frá Bjarteyjarsandi eða frá KS eða SS!

Oft þarf ekki annað en eina góða hugmynd og tvo til þrjá eldhuga og málið er orðið að veruleika öllum til gagns og yndisauka.

Líkan af frumhugmyndum Hans Peter Hagen arkitekts


Fiskur beint frá trillukarli

Grænmeti beint frá bónda o.s.frv.

Finna þarf Brimhúsinu nýtt og líflegra hlutverk

Markaður hefur verið á Israels Plads frá árinu 1889

Hér er áhugaverður tengill um efnið eftir Sigurveigu Káradóttur;

http://sigurveigkaradottir.wordpress.com/2011/10/04/alvoru-kaupholl-med-fe-a-faeti/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.10.2011 - 20:51 - 6 ummæli

Sumarbústaðalegur sumarbústaður

Á eyju skammt frá Gautaborg í Svíþjóð hefur verið byggður sumarbústaður sem fangar anda gömlu sumarhúsanna.

Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð er löng og djúp hefð fyrir sumarhúsum. Þjóðirnar byggðu sér afdrep í sveitinni sem hafði allt annað andrúm en heimili þeirra í borgunum.

Fólkið  vildi skipta um lífsstíl og umhverfi í frítíma sínum.

Hér á landi sýnist mér fólk skipti um stað en ekki lífsstíl þegar farið er í sveitina. Nútíma sumarbústaðir hér á landi eru oft minnkuð útgáfa af heimilinu í borginni.

Sama umhverfi, sami lífsstíll með sömu efnum og húsgögnum. Bara minna og á stærri lóð.

Þetta hús sem hér er kynnt er um 80 fermetrar og nánast algerlega byggt úr furukrossviði. Þetta er svoldið sveitalegt, án stæla augnabliksins, billegt og  án nokkurra arkitektóniskra tenginga við hýbýli fólks í þéttbýlinu. Lúxus allskonar er vísað á dyr.

Húsið er teiknað af ungum arkitekt sem heitir Johannes Norlander.

Takið eftir efnisvalinu, rússnesku ljósakrónunni á myndinni að neðan, ofureinfaldri grunnmyndinni og litunum. Húsið lítur reyndar út eins og hús sem lítil börn teikna þegar þau eru að leika sér. Einfalt, barnalegt ……. gott hús.

Glæsilega einfalt og rökrétt.

Slóðin að heimasíðu arkitektsins er:

http://www.norlander.se/index.asp

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 09:15 - 20 ummæli

Upphafið af endalokum einkabílismans í Reykjavík

Það er ekkert svo vont að það boði ekki eitthvað gott.

Hrun efnahagslífsins hér á landi markaði stefnubreytingu hvað varðar ferðavenjur fólks innan höfurðborgarsvæðisins. Kannski var hrunið upphafið að endalokum einkabílismans á höfuðborgarsvæðinu?

Meðan á góðærinu stóð var mikið framboð af ódýru fé til fjárfestinga.

Þetta kom ekki síður fram í hugmyndum manna um fjárfestingu í framkvæmdum til þess að greiða einkabílnum leið innan borgarinnar en annarsstaðar.

Allir sem eitthvað hugsa um samgöngur í þéttbýli vita að einkabíllinn leysir ekki samgönguvandamál í borgum, heldur auka þau.

En í góðærinu svokallaða fékk bíllinn (blikkbeljan sem tekur um þriðjung af heimilistekjunum til sín og sama hlutfall landrýmisins) algeran forgang.

Þetta gekk svo langt að manni finnst þegar áætlanirnar eru skoðaðar að þarna hafi verið um vísindaskáldsögur að ræða.

Verkfræðingar réðu ferðinni í áætlunargerðinni og gengu þeir út frá þeirri forsendu að atburðarrásin hefði völdin og réði ferð. Allar tölur voru framreiknaðar á úreltum forsendum. Verkfræðinga setti  niður við þetta. Þeir hafa nú  áttað sig á því að hugmyndafræði og hugsjón er megin aflið.

Ekki exelskjöl og reiknilíkön.

Verkfræðiningar eru búnir að átta sig á þessu enda eru  minnisstæðar  videomyndir af hinum ýmsu mislægu gatnamótum horfnar af  vefsíðum verkfræðistofanna. Skrýtið!

Nú hafa hjólareiðamenn, gangandi fólk og aðgerðarsinnar með stuðningi hugmyndavinnu arkitekta sett aðra mælistiku á gæði lífsins og leitað annarra úrræða.

Liður í þessari þróun eru áætlanir Landspítalans um að leggja áherslu á annan ferðamáta en nú tíðkast og hefur verið skipulagður. Vonandi gengur Landspítalanum vel í sínum áætlunum þó svo að frumkvæðið hefði átt að koma frá borginni og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Það er viss niðurlæging fyrir sveitarfélögin og fulltrúa borgaranna  að frumkvæðið komi frá opinberu hlutafélagi úti í bæ. Því er samt ekki að neita að Landspítalinn sýnir þarna frumkvæði sem ber að fagna þó augljós sé að spítalann á alls ekki að endurbyggja við Hringbraut.


Hér er slaufa sem veitir einkabílnum greiðan áðgang í smáúthverfi í jaðri Reykjavíkur

Þessar hugmyndir og helgunarsvæði hraðbrautanna eru ógnvekjandi.

Hvað með sundin blá?  Er þeim fórnandi fyrir einkabílsmann?

Það hefur komið fram að ekki séu til neinar framsæknar og samþykktar áætlanir í skipulagsáætlunum höfuðborgarsvæðisins um almenningssamgöngur á svæðinu.   Teikningin að ofan sýnir hugmyndir hugsjónamanns sem gengur út á lestarkerfi. Maður veltir fyrir sér hvort kerfi sem þetta sem byggðist  á léttlestarkerfi þar sem tíðnin væri svona 3-5 mínutur milli vagna  mundi ekki létta á gatnakerfinu? Kannski gerði þetta það að verkum að áhyggjur af  umferðamálum Landspítalanum væru óþarfar. Teikningin er fengin af vef Kjartans Péturs Sigurðarsonar sem hefur þessa slóð:

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/474061/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.10.2011 - 19:59 - 17 ummæli

Léttlestarkerfi – Er það lausn?

Í Seattle í Washington í Bandaríkjunum er unnið að því að leggja niður hraðbraut eina í miðbænum. Hugmyndin er að í stað hraðbrautarinnar verði komið upp léttlestarkerfi.

Efst í færslunni er mynd sem sýnir samanburð sem gerður var  í Seattle sem á að sýna okkur hver flutningsgeta léttlestar er miðað við einkabíl og það rými sem ferðamátinn krefst.  Ein léttlest flytur jafn mikið og 177 einkabílar.

Til viðbótar minni ég á mengun, bæði loft og hávaðamengun.  Svo er það betra fyrir heilsuna að ferðast með almenningssamgöngum, minni samfélagskostnaður til langs tíma og minni slysahætta.

Ég tel mig fylgjast ágætlega með skipulagsmálum hér á landi en ég veit samt ekki hvaða áætlanir eru uppi á borðinu í almenningsflutningamálum hér á höfuðborgarsvæðinu. Hinsvegar er ég sæmilega upplýstur um hvað er að gerast í þeim málum í Kaupmannahöfn og Seattle!!!!

Hvernig ætli standi á því?

Ég tek eftir að það er óvissa í umræðunni þegar verið er að ræða lestar annarsvegar og léttlestar hinsvegar.  Svo blanda menn sporvögnum í umræðuna.  Hér að neðan koma  nokkrar myndir af léttlestum víðsvegar að úr heiminum.  Neðsta myndin er svo sporvagn með loftlínu.

Léttlestar í Reykjavík þyrftu kannski ekki að vera á járnteinum. Bara að þær hefðu skilyrðislausan forgang á sinn sérmerktu akrein og á vegi þeirra væri ávalt grænt ljós. Ætli borgin sé eitthvað að velta þessu fyrir sér?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn