Á morgunn, fimmtudag, verður haldinn fundur á vegum Hvefisráðs Vesturbæjar undir yfirskriftinni: “Hofsvallagatan – íbúafundur um götu og skipulag hverfis” .
Fundurinn hefst klukkan 20.00 í Yale sal á hótel Sögu og stendur til kl 22.00.
Það er um að gera að mæta. Þetta er ekki bara spennandi fyrir íbúa á svæðinu heldur líka alla sem láta sig skipulag og samráðsferil varða.
Framundan eru breytingar á Hofsvallagötunni. Hverfisráðið vill að íbúar verði með í nýrri hönnun alveg frá byrjun. Samráðsferlið hefst með fundinum á morgunn og stendur yfir í vetur. Ýmsum spurningum verður varpað fram:
* Hvernig drögum við úr hraða bílanna?
* Hvernig aukum við öryggi barna á leið í skóla, sund og aðrar tómstundir?
* Hvernig stuðlum við að aukinni umferð gangandi og hjólandi?
* Hvernig gerum við götuna fallegri?
Það eru margar spennandi spurningar sem gaman verður að taka þátt í að finna svör við.
Hofsvallagatan er nú of breið og kallar á hraða gegnumakstursumferð og er að margra mati ógn við öryggi og lífsgæði Vesturbæinga.
++++
Fyrir rúmu hálfu ári hélt Hverfisráð Vesturbæjar fund undir yfirskriftinni „Vesturbær til framtíðar“ . Gísli Marteinn Baldursson borgafulltrúi, sem einnig er formaður Hverfisráðs Vesturbæjar átti frumkvæði að fundinum. Gísli Marteinn er mjög áhugasamur um aðra hugsun um skipulags- og samgöngumál í borginni en ríkt hefur og talað skynsamlega um málaflokkinn. Hann, bað mig sem gamlann og rótgróinn vesturbæing að koma með innlegg á fundinn í vor. Ég átti að reifa hugmyndir mínar um Vesturbæinn sunnan Hringbrautar í framtíðinni.
Það er tilefni nú til þess að rifja eitthvað upp af þeim hugmyndum sem kynntar voru á fundinum í vor.
Hugmyndirnar gengu út á framtíð Vesturbæjarins sem sjálfbært hverfi með virkri hverfismiðju og lítilli bifreiðaumferð og mikið af gangandi og hjólandi vegfarendum. Markmiðið var að skapa umhverfi þar sem öll dagleg þjónusta er aðgengileg í göngufæri frá heimilum fólks. Matvöruverslun og öll dagleg þjónusta væri færð inn í hverfið og íbúðum og atvinnutækifærum fjölgað.
Megin aflið fólst í því að gera Hofsvallagötuna að vistgötu og skapa þar hverfismiðju með verslun, þjónustu og iðandi mannlífi. Sýndir voru möguleikar á að fjölga bæði íbúðum um nokkur hundruð í hverfinu og færa fleiri atvinnutækifæri inn í Vesturbæinn sunnan Hringbrautar.
Hjálagðar er sýnishorn af þeim teikningum sem lagðar voru fram á fundinum um „framtíð Vesturbæjar“ í fyrravetur.
Efst er yfirlitsmynd yfir hverfið sem var til umfjöllunar, Reykjavík 107. Þar má glöggt sjá að miðja hverfisins er milli Sundlaugar Vesturbæjar og Hagatorgs. Þarna er þegar landfræðileg miðja og starfræn miðja. Hugmyndin var að skerpa þessa mynd og auka þjónustuna á þessu svæði um leið og umferðaöryggi og mannlíf er aukið og bætt. Lagt er til að borgarhlutinn verði gönguvænni og vistvænni.
Í hugmyndunum er gert ráð fyrir að Hofsvallagata verði með seitlandi bifreiðaumferð frá Hringbraut þar til skömmu áður en komið er að Hagamel. Þar tekur við hrein vistgata, „shared street“ með seitlandi bílaumferð sem heldur svo áfram að grænu svæði þar sem nú eru skólarnir, kirkjan og Hagatorg. Á vistgötunni hafa hvorki bílar né gangandi forgang. Þarna hefst miðhverfi borgarhlutans þar sem er að finna alla þjónustu svo sem fjölbreytta verslun, veitingastað/hverfisknæpu, heilsugæslu, bókasafn, stjórnsýslu, banka, pósthús, áfengisverslun, bakarí, menningarstarfssemi og hvað annað sem borgarbúar þurfa að sækja. Nú er þarna Melabúðin og Vesturbæjarapótek.
Byggingarnar eru til staðar og þetta er miðsvæðis. Svæðið er stutt frá öllum skólum hverfisins og í göngufæri frá flestum heimilum borgarhlutans. Svæðið yrði svo í góðum tengslum við virkt almenningavagnakerfi borgarinnar.
Tillagan lýsti einnig tækifæri sem fellst í að breyta Hagatorg úr núverandi mynd í opið svæði.
Í stað hringtorgsins er skapaður garður hverfisins, „miðgarður“, þar sem allar helstu stofnanir hans eru staðsettar; Kirkjan, Leikskóli, Hagaskólinn og Melaskólinn. Göturnar milli Melaskóla og kirkju og kirkju og Hagaskóla eru lagðar niður og gerðar að hlykkjóttum garðstígum fyrir gangandi og hjólandi.
Með þessari útfærslu mun hverfið eignast góðan og fallegan garð auk þess að stuðla að umferðaöryggi og hvetjandi umhverfi án þess að það bitni að marki á bifreiðaumferð. Þessi hugmynd mun heldur ekki draga út mikilvægi þeirra glæsibygginga sem við torgið standa. Þær munu njóta sín enn betur frá skemmtilegu útivistarsvæði sem er öllum til heilla.
Við sameiningu skólalóðanna og lóð kirkjunnar með hringtorginu skapast gríðarleg tækifæri fyrir bæjarhlutann til margskonar útivistarathafna. Svæðið breytist úr ólögulegu stofnanasvæði með gatnakerfi sem sker það í sundur, í heillegt útivistarsvæði. Hugsanlega má koma þarna fyrir duftkirkjugarði eða duftvegg fyrir nokkur þúsund ker.
Með þessu skapast einning tækifæri til þess að stækka skólana og mæta þannig vaxandi hús´æðisþörf. Aðalbyggingu Melaskólans má lengja til suðurs þar sem Neshagi er nú og nota um leið tækifærið og gera hann þannig að hann henti fötluðum.
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu og sjá hvort takist að gera Vesturbæinn Reykjavík að heilsteyptu sjálfbæru hverfi í daglegum störfum íbúanna. Þessi fyrirmynd gæti orðið módel til fyrirmyndar fyrir aðra borgarhluta. Ég efast ekki um að víðast má bæta hverfin verulega.
Svona Vesturbær yrði til fyrirmyndar sem borgarhluti þar sem sjálfbærni og skemmtilegt mannlíf er markmiðið.
Endilega tvísmellið á teikningarnar þá stækka þær og verða skýrari.
Hér strax að neðan kemur svo teikning eftir arkitektana Gretar Markússon og Stefán Örn Stefánsson sem er tillaga að endurgerð umhverfisins við Grásleppuskúrana við Ægisíði. En þeir eru hluti af demöntum borgarhlutans.