Miðvikudagur 25.05.2011 - 08:47 - Lokað fyrir ummæli

Kynt undir fordómum!

Statistik sem sýnir að glæpatíðni sé hærri meðal fólks  sem ekki er búsett í upprunalandi sínu ber að taka af varúð.  Reyndar sýna tölur aðeins slíkt um tiltekna hópa og nýkomna.  En ýmislegt hjálpar þarna til.  Fordómar eru í garð fólks úr þessum hópi meðal almennings, lögreglu og dómara.  Margsinnis hefur verið sýnt fram á það að einstaklingar úr þessum hópi eru sjálfkrafa grunaðir, þeir eru meðal þeirra sem fyrst er athugað með.  Þeir nást sem sagt oftar en hinir. Það skekkir statistikina. Það er margt annað sem telur.  Einstaklingar úr þessum hópi eru oftar atvinnulausir en aðrir, búa iðulega við lélegri skilyrði en meðaljóninn.  Síðastir inn en fyrstir út þegar að kreppir um vinnu. Eiga takmarkaðan og oft engan rétt til bóta.  Fólk úr þessum hópi  stendur iðulega höllum fæti.  Það kann að vera hluti af skýringunni. Enginn fremur afbrot vegna þess að hann er af erlendu bergi brotinn.  Fólk úr þessum hópi á ekki að gjalda þess frekar en við sem erum vestan úr Dölum þó að glæpagengi fari milli landa og beri hér niður. Rétt og skynsamlegt og í samræmi  við gott siðferði og mannréttindasáttmála að líta á innflytjendur sem manneskjur en ekki sem hóp.  Það sama á við um hælisleitendur og flóttamenn og allar manneskjur.

Þess vegna eru fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga til þess fallnar að  auka enn á fordóma í samfélaginu og þar með erfiðleika margra.  Þeir sem bera slíkt fram sá fræjum ófarnaðar í sitt samfélag því að öll eigum við mikið undir því að sá hugsunarháttur sem hópgerir fólk víki fyrir hugsunarhætti sem lítur á manninn sem manneskju.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • „…fordómum“?

  • Baldur Kristjánsson

    Takk Tómas. Falli breytt!

  • Góður pistill.

    Hef þokkalega mikinn amatöráhuga á þessum málum og hlustaði því á innanríkisráðherra í Kastljósi eftir að Íraninn reyndi að kveikja í sér.

    Þar talaði hann um erlenda glæpahópa og hvernig umgjörðin sem við búum við í dag gerir það að verkum að við eigum bágt með að taka við venjulegu fólki frá öðrum heimsálfum en þurfum að búa við að glæpamenn frá löndum nær okkur koma í einhverjum mæli til landsins.

    Eftir því sem ég best man var þetta ekki í fyrsta skipti sem innanríkisráðherra hefur sagt eitthvað í þessa veru.

    Spyr því: Hefur Ögmundur Jónasson verið að kynda undir fordómum síðan hann tók við embætti innanríkisráðherra ?

    Annars endurtek ég það sem ég sagði í gær um að það er skárra að tala um hlutina en að stinga höfðinu í sandinn og láta almenning hafa á tilfinningunni að erlendir ríkisborgarar fremji meirihluta ákveðinna afbrota á Íslandi.

  • Grímur Sæmundsson

    Fyrst: Schengensamkomulagið er ekki gallalaust og það eru til menn sem fremja glæpi annarsstaðar en í upprunalandinu. Það er nauðsynlegt að ræða það og hvernig það snertir Ísland. Öðruvísi getum við ekki tekist a við þau vandamál sem skapast.
    En… Það breytir ekki því að það er margt heimskulegt sagt og margir gera sig seka um fordóma. T.d. er alveg út í hött að reikna hlutfall erlendra fanga sem hlutfall útlendinga búsettra á Íslandi og bera saman við hlutfall kynhreinna íslendinga.
    Í fyrsta lagi hefur hluti þeirra útlendinga sem situr í íslenskum fangelsum aldrei verið búsettur á Íslandi heldur verið a ferð um Ísland eða jafnvel handtekinn strax við komuna til Keflavíkur. Ég held að þetta eigi við um rúm 30% erlendra fanga.
    Í öðru lagi var gegnumstreymi útlendinga búsettra á Íslandi mikið á árunum 2005-8. Þannig að fyrir hverja 10 sem voru búsettir á Íslandi 1. des höfðu kannske 13-4 búið a Íslandi á árinu (þetta er skýringardæmi og tölurnar teknar af handahófi).
    Í þriðja lagi hafa íslenskir krimmar stundum nk. klippikort i fangelsin þannig að þeir eru settir inn eftir nokkur brot a meðan útlendingar eru strax settir inn fyrir samskonar brot.

    En mér finnst þessi staðhæfing vafasöm hjá þér Baldur: „En ýmislegt hjálpar þarna til. Fordómar eru í garð fólks úr þessum hópi meðal almennings, lögreglu og dómara.“

Höfundur