Miðvikudagur 12.10.2011 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Hanskinn upp fyrir biskup!

Stundum finnst mér að verið sé að kasta glæpum Ólafs Skúlasonar yfir á eftirmann hans sem er allt öðruvísi manneskja eins og allir vita.

Vissulega er skúffuferðin á  bréfi Guðrúnar Ebbu óboðleg en enginn skal segja mér að  biskup hafi viljað þagga málið niður með því að setja bréf í skúffu.  Maður þaggar ekki mál niður með því að setja bréf í skúffu.  Bréfritarinn er enn til staðar og mun rita önnur bréf á önnur heimilisföng. Maður þaggar niður með ofbeldi og hótunum ekki satt?  Slíkt framferði er Karli ekki tamt.

Ef eitthvað er þá er hann ekki nógu ákveðinn og sterkur leiðtogi.  En var það ekki það sem við vorum að forðast? Á tími slíkra fyrirbæra ekki að vera liðinn?

Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar. Nú verður t.d. að gá í sakaskrá hvenær sem manneskja er ráðin að kirkju. Gunnar Rúnar Matthíasson stýrir fagráði um kynferðisafbrotamál.

Biskup hefur komið ýmsu öðru góðu til leiðar, sálmum og bænum, verið gagnrýninn á misskiptingu auðs.  Stutt áhrif leikmanna innan kirkjunnar.  Lagst gegn klerkaveldi og er á flesta lund ljúfur maður.

Honum hafa samt orðið á eins og t.d. ummæli um hjónaband samkynhneigðra.  En það eru fleiri en hann sem voru hlekkjaðir í hugarfar aldanna en hann má eiga það að hann fylgdi réttindum samkynhneigðra vel eftir þegar pendúllinn sveiflaðist  innan kirkjunnar.

Mál Guðrúnar Ebbu og Sigrúnar Pálínu eru afgerandi mál sem vonandi eru að breyta kirkjunni og samfélaginu sem kirkjan er órjúfanlegur hluti af.  Sá hroði sem þessi mál bera vitni um er samfélagslegur óhroði sem við verðum að svæla út.

En dómharka í garð Karls Sigurbjörnssonar ber ekki vitni um að við séum að fljóta í rétta átt.

Þó ætla ég engum illt hugarfar allra síst Illuga Jökulssyni sem er einn gagnlegast og besti samfélagsrýnir okkar nú um stundir.   

En þessum fleti datt mér í hug að velta upp því að mér finnst að sumu leyti ósanngjörn þessi heljarreiði í garð biskups.

Ég býð mig þó helst ekki fram til aflífunar enda ekki feitur biti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Hilmar Þór Björnsson

    Þakka þér Baldur fyrir að taka upp hanskann fyrir sitjandi biskup. Þetta eru orð í tíma töluð. Það hefur ekki farið framhjá neinum að Karl Sigurbjörnsson hefur orðið fyrir einelti, einkum af hálfu fjölmiðla undanfarið. Að draga sitjandi biskup niður með Ólafi Skúlasyni er ósanngjarnt, ósmekklegt og á engan hátt sæmandi að spyrða athafnir þessara tveggja manna saman eins og gert er. Að tala jöfnum höndum um glæpi Ólafs og hugsanleg mistök sitjandi biskups er ósmekklegt og ljótt.

    Það er ósanngjarnt að halda því fram að það hafi átt sér stað þöggun á skrifstofu biskups vegna bréfs Guðrúnar Ebbu. Bréfið var lesið af fjölda manns í áheyrn hvers annars. Fjöldi fólks vissi um bréfið og því var ekki haldið leyndu. Vandamálið var að fólkið vissi ekki hvernig bregðast átti við og dró lappirnar. Það var auðvitað slæmt.

    Nær væri að velta því fyrir sér hvernig maður af þeirri gerð sem Ólafur Skúlason var hafi komist til slíkra metorða. Hvernig gat ofbeldismaður náð svona langt? Það er aðalvandamálið sem þyrfti að fjalla um. Af hverju klappaði fólk hann upp. Hvaða brögðum beitti hann til þess að blekkja fólk?

    Ólafur Skúlason var sérstakur maður sem hafði fólk í greypum sér, heljargreypum. Hann blekkti alla sem umgengust hann. Hann blekkti ekki bara kirkjuþing, kirkjuráð, alla kirkjunnar þjóna, heldur alla sína samstarfsmenn og stjórnvöld. Hann blekkti sóknarbörn sín og í raun þjóðina alla. Hann naut virðingar. En hann lék tveim skjöldum.

    Hann hafði slík tök á sinni nánustu fjölskyldu að hún hylmdi yfir með honum vegna þeirra glæpa sem hann er ásakaður um.

    Það má segja að hann hafi verið ofurmenni hvað þetta varðar. Hann hafði óhugnanlegt vald á fólki sem hann misnotaði.

    Nú hrökklaðist Ólafur frá völdum vegna málsins og er dáinn fyrir nokkru. Fólkið sem tekur þátt i umræðunni vill að einhver fái að líða fyrir þetta allt saman og er í reiði sinni að leita að sökudólg. Það er ófullnægður hefndarþorsti hjá fólki. Kannski skiljanlega. En það er ekki hægt að dæma látinn mann og fangelsa. Fólki finnst að einhver þurfi að gjalda ódæðanna. Mér virðist eins og menn hafi valið þann sómamann Karl Sigurbjörnsson til þess að taka á sig byrðarnar. Allavega eru ekki aðrir nefndir. Þetta er ótrúlaga villimannsleg aðför að biskup og þjókirkjunni allri.

    Þeir félagar í stjórnlagaráðinu Illugi Jökulsson og sóknarprestur minn Örn Bárður Jónsson eru samherjar í umræðunni og fara mikinn. Illugi á bloggi sínu og Örn Bárður með greinarskrif í blöð og á fésbókarsíðu sinni. Annar er utan þjókirkjunnar og hinn er þjónn hennar. Látum okkur í léttu rúmi liggja að Illugi sé að tjá sig. Öðru máli gegnir um sóknarprestinn sem var sérstakur trúnaðarmaður Ólafs þegar þessi ógeðslegu mál voru að koma upp á yfirborðið. Sóknarbörnin eru í öngum sínum vegna málsins. Sóknarpresturinn á að sinna þeim á þessum erfiðu tímum. Hann er þjónn safnaðarins, kirkjunnar og á að upplýsa og hugga, sýna samúð og fyrirgefa þeim sem iðrast í stað þess að skipa sér í raðir þeirra sem annað hvort eru ekki í þjóðkirkjunni eða vilja úr henni.

    Ég vil endurtaka þakkir til Baldurs Kristjánssonar fyrir að opna tækifæri til þess að segja skoðun mína um þetta leiðinlega mál.

  • Ragnheiður Davíðsdóttir

    Ég velti því fyrir mér hvort meirihluti almennings í þessu landi og fjölmiðlafólk sé svo vitlaust og dómgreind þessa fólks svo brengluð að fara þess á leit að æðsti yfirmaður Kirkjunnar segi af sér.

  • Hvað er að því Ragnheiður? ég sný þessu bara við að minnihluti þjóðarinnar sem styður svona háttalag sé brenglað. Þessi æðsti maður kirkjunnar er ekki meiri heldur hver annar.

  • Ágæti Hilmar Þór. Það er augljóslega mikið í húfi fyrir kirkjuna á Íslandi hvernig núverandi biskup bregst við og hvort hann axlar ábyrgð. Hvernig getur biskupinn sagst trúa á Guð, sem í raun enginn maður í heiminum veit hvort er til, en neitað að trúa frásögnum nokkurra kvenna um kynferðislegt ofbeldi fyrrverandi biskups? Það var m.a. í hans verkahring að meðhöndla þetta mál á sínum tíma. Núverandi biskup kaus að láta líta svo út að konurnar væru að ljúga sökum upp á Ólaf Skúlason. Hvernig heldur þú að fórnarlömpunum, konunum, hafi liðið alan þennan tíma sem leið þar til kirkjan neyddist til að viðurkenna sannleikann? Kirkjan og biskupinn verða augljóslega að hugsa sín mál.

Höfundur