Laugardagur 08.09.2012 - 11:22 - Lokað fyrir ummæli

Íslenskt misrétti og jafnrétti í trúmálum!

Þeir sem vilja veg væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem mestan ættu meta það við þjóðkirkjuna að hún hvetur fólk til þess að láta sig málið varða.  það eykur gildi atkvæðagreiðslunnar í heild sinni.

Þjóðkirkjan tekur þann pól í hæðina að ákvæði um hana sé best komið í stjórnarskrá. En hún lætur ekki þar við sitja.  Hún vill að staða réttindi annarra trú-og lífsskoðunarfélaga verði tryggð.  Ég vil reyndar skoða hvernig Norðmenn leystu málið.  Ákvæði Norðmanna  hefst á ákvæði um að fullt og óskorað trúfrelsi ríki í Noregi.  Síðan kemur ákvæði um að Norska kirkjan sé þjóðkirkja. Þá ákvæði um það að ríkisvaldið skuli styðja hana með ámóta hætti og hún styður önnur trúfélög.

Þetta er sama og að segja.  Allir eru jafnir en við höfum ákveðið að styðjast sérstaklega við siðferðisboðskap og helgihald sem í boði er hjá þessu tiltekna trúfélagi. Þessi hugsunn gerir ráð fyrir því að eitt samfélag þurfi eitthvað slíkt, einhverja ,,æðri“ skipun til að leggja blessun sína yfir þjóðskipulagið og rétt sé að halda sig við farsæla hefð.

Nú er ég ekkert á því að endilega sé rétt að blanda saman veraldlegu og túarlegu valdi.  Ég held að sú leið sem flestar þjóðir allra trúarbragða hafa farið sé farsælust að aðskilja veraldlegt og túarlegt vald og vald með tilvísun í æðri mátt er beinlínis hættulegt og gerir menn ruglaða.  Þannig vil ég hvorki sjá islamista við völd né hægrisinnaða bandaríska guðsmenn. Kerfið okkar er hins vegar hættulaust.  Þjóðkirkjur á norðurslóðum liggja yfirleitt fram á lappir sínar og sleikja á sér tærnar.

Sem sést best á því að ískenska þjóðkirkjan ályktar bara um sjálfa sig og stjórnarskrána. Ekki um auðlindaákvæði stjórnarskrár eða atkvæðisrétt fólks hvortveggja atriði sem snerta grundvallarskilning okkar á tilverunni.  Þetta sýnir að kirkjan er hefðarkirkja ekki  baráttukirkja fyrir því að skapa ,,réttláta“ umgjörð um líf fólks.

Mannréttindanefnd S.Þ.gerðu í sumar tvenns konar athugasemdir við umgjörð trúmála á Íslandi.  Í fyrsta lagi er íslenskum stjórnvöldum bent á það að þeir sem standi utan trúfélaga  greiði líka  kirkjuskatt.  Þeir greiði því hærri skatt en aðrir. (Mannréttindanefndin lítur því þannig á eins og kirkjan að sóknargjöld séu félagsgjöld).  Í annan stað er bent á það að þjóðkirkjan fái á Fjárlögum upphæðir sem önnur trúfélög fái ekki.  Hér mun átt við ca. 600 miljón króna framlag til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs (en ekki laun presta og biskupa sem eru til komin af  jarðarsamningi ríkis og kirkju). Það er mikilvægt hvort sem ákvæði um þjóðkirkju verði áfram í stjórnarskrá eða ekki að ofangreint verði leiðrétt.  þeir sem standi utan túfélaga þurfi ekki að greiða trúfélagsgjald annarsvegar og að umræddum 600 miljónum verði skipt prósentvís milli trúfélaga eftir meðlimafjölda þeirra.

Við viljum lifa í þjóðfélagi án mismununar.  Þjóðkirkjan á að vera í fararbroddi fyrir þeirri hugsjón sem byggist á því að allir menn séu bornir jafnréttháir. Kirkjan hefur orðað þá hugsun þannig að allir séu skapaðir í Guðs mynd og það er flott formúlering hvort sem menn trúa því að Guð sé til eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Sjóður

    „og að umræddum 600 miljónum verði skipt prósentvís milli trúfélaga eftir meðlimafjölda þeirra.“
    Lausnin er ekki að dæla skattpeningum í önnur trúfélög. Lausnin er að hætta þessari vitleysu. Trúfélög geta bara sent út gíróseðla fyrir félagagjöldum og rukkað inn sjálf eins og öll önnur félagasamtök gera á hverjum einasta degi. Það er ekkert sérstakt við trúfélög og það kemur ríkinu ekkert við í hvaða trúfélagi fólk er. Ekkert frekar en í hvaða stjórnmálaflokki eða íþróttafélagi fólk er. Þar fyrir utan er ríkið ekki innheimtuaðili fyrir félagagjöld.

    Annars er þjóðkirkjan algjört rangnefni. Meðan það hefur fjölgað um 50.000 manns á Íslandi síðustu 14 ár þá hefur fjölgað í kirkjunni um ca. 500 manns. Þetta er deyjandi klúbbur og megi hann hverfa að fullu sem allra allra fyrst. Eftir árið í ár þá verður nettó fjölgunin í kirkjunni síðustu 14-15 árin neikvæð uppá nokkur þúsund manns. Nokkur ár af fækkun í viðbót og batteríið hrynur að innan frá og málið leysist nokkurn vegin af sjálfu sér.
    Það kostar ekkert að vera í þessum klúbb, flestir Íslendingar eru skráðir sjálfkrafa og óforspurðir á fæðingardeildinni en fólk gerir sér engu að síður sérstaka ferð og flýr hann í stríðum straumum. Mörg þúsund manns á ári.

    Nú er kominn tími til að koma Íslandi út úr myrkrum miðöldum og inn í framtíðina. Því miður þá gekk stjórnlagaráðið of stutt en þetta verður þá að gerast í skrefum. Fyrsta skrefið er 20. október.

    Alþingismenn eru reyndar svo miklir aumingjar að þeir urðu að láta þessa spurningu snúa vitlaust til að „þvinga“ fram „rétta“ niðurstöðu þannig að þeim er alveg trúandi til að hunsa útkomuna sem verður að sjálfsögðu sú að stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá verður breytt.

  • Sjóður

    „Þessi hugsunn gerir ráð fyrir því að eitt samfélag þurfi eitthvað slíkt, einhverja ,,æðri“ skipun til að leggja blessun sína yfir þjóðskipulagið og rétt sé að halda sig við farsæla hefð.“

    Nei takk. Ómögulega.

  • Það þarf að banna trúarbrögð sem leyfa fjölkvæni.

    Ömurlegri brot á réttindum kvenna er vart hægt að hugsa sér.

    Banna þarf trúarbrögð sem fela í sér lagabálka sem framfylgt skal með valdi.

    Sömu lögin skulu yfir alla ganga og þau lög verða að vera nútímaleg og taka fullt tillit til mannréttinda.

    Fyrir þessu tvennu á þjóðkirkjan að berjast svo og allir þeir sem láta mannréttindi sig varða.

  • Hjalti Rúnar

    Badur, segjum að ég stofni trúfélag með 100 meðlimum, og allir eigum við það sameiginlegt að borga engan tekjuskatt. Þannig að við borgum engin „sóknargjöld“.

    Samt myndi trúfélagið okkar fá næstum því milljón krónur árlega frá ríkinu.

    Þetta gengur náttúrulega ekki upp ef um er að ræða „félagsgjöld“. Málið er nefnilega að sóknargjöld eru ekki félagsgjöld.

Höfundur