Þriðjudagur 10.06.2014 - 17:03 - Lokað fyrir ummæli

Eru trúarbrögð úrelt?

Ekki hvarflar að mér að bera blak af þeim sem hleyptu mosku umræðu af stað fyrir borgarstjórnarkosningarnar né af þeim sem biðu þar til atkvæði voru komin í hús með að tjá sig (og reyndu þá að leika fórnarlömb). Sagan dæmir slíkt.  En þessi pistill fjallar ekki um það heldur um gjána sem myndast hefur milli mannréttinda og trúarbragða.
Við lifum yfirfærslutíma. Fram um miðja tuttugustu öldina skilgreindu trúarbrögðin hvað væri rétt og hvað rangt, hvað væri satt eða logið, líklegt eða ólíklegt m.ö.o. skilgreindu lífið manns eigið og umhverfisins.
Á þessu hefur orðið breyting. Samfélög okkar eru byggð á mannréttindum og eru þau tryggð með mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins í okkar heimshluta og hundruðum smærri sáttmála um tiltekin viðfangsefni. Þessir sáttmálar, sem eiga rætur m.a. rætur í jákvæðum mannskilningi trüarbragða, eiga að tryggja okkur mat, vatn og félagslegt réttlæti, frið og frelsi til orðs og æðis, líf án þess að okkur sé mismunað vegna þjóðernis, tungu, uppruna, litarháttar, kyns, kynhneigðar, trúar eða nokkurs slíks.
Trúar, já það getur verið verkur. Trúarbrögðin bera inn í samtímann gamlar bábiljur og gera sannanlega upp á milli samkynhneigðs fólks og gagkynhneigðs, ætla fólki ólíkt hlutskipti eftir kynjum svo tvennt eitt sé nefnt. Þá kemur spurningin: má halda fram sjónarmiðum sem gera upp á milli fólks á grundvelli trúar, ef þau leiða til mismunandi meðhöndlunar fólks? Rekast ekki á þarna mannréttindi og trúfrelsi. Umburðarlyndiskrafa mannréttinda og íhaldssemi trúarbragða sem sum hver sækja mannskilning sinn í bækur ritaðar fyrir 2000 árum?
Segja má með að umburðarlyndi setji meginsvip á Íslending nútímans . Er það ávöxtur þúsund ára kristinnar trúar eða eitthvað sem við höfum tileinkað okkur á allra síðustu árum, með tilkomu mannréttindasáttmála og etv. annarra trúarbragða?

Og er ekki lausnarðiðið í þessu sem öðru umburðarlyndi?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sölvi Helgason

    @Baldur Kristjánsson: ,,Fram um miðja tuttugustu öldina skilgreindu trúarbrögðin hvað væri rétt og hvað rangt, hvað væri satt eða logið, líklegt eða ólíklegt, m.ö.o. skilgreindu lífið, manns eigið og umhverfisins.

    Ha?

    Skilgreindu vísindin og heimspekin sem sagt ekkert af þessu fyrr en eftir 1950?

    • Baldur Kristjánsson

      Bættu við, ekkert yfirlæti yfir stuttum pistli. Kv. B

  • Haukur Kristinsson

    Hvort að trúarbrögð séu úrelt eða ekki, fer eftir því hvaða hlutverki þau hafa að gegna í nútíma upplýstu samfélagi.
    Vígi trúarbragðanna voru mörg í gegnum aldirnar, en hefur fækkað mjög, nær ekkert er eftir, nema rituals, sem eru mörg falleg og væri sárt að missa.
    Náttúran í allri sinni dýrð og fjölbreytni hafði lengi verið aðal vígi trúarbragða, en var jafnað við jörðu eftirminnilega með útkomu verks Charles Darwin‘s „On the Orgin of Species“. Mikil áfall fyrir kirkjuna, en „one giant leap for mankind“. Þá var tekið til fótanna í næsta höfuðvígið, sköpun alheimsins, en náttúrunni sjálfri hafði ekki verið treyst fyrir slíku, heldur Seifi, Óðni, Allah eða Jehovah, svo ég nefni aðeins örfáa sem ku hafa lagt hönd að verki.
    Eðlis- og efnafræði, skammtafræðin (quantum mechanics) og afstæðiskenningar Einstein’s hafa nú eytt því vígi. Heimurinn varð nefnilega til fyrir 13,72 milljörðum ára (Big bang) úr engu. Jú, þið lásuð rétt úr „engu“. Tómarúmið (vacuum) er nefnilega ekki tómt, ekki alveg! Síðasta vígið virðist mér svo vera blessaður mórallinn; siðferði, siðgæði. Sem sagt, án boðskapar testamenntsins værum við að drepa og nauðga hvort öðru dagsdaglega.
    Værum við?

  • Tek undur með Sölva – eru upplýsingin, vísindi og rökhyggja fyrirbæri sem urðu til eftir 1950??

    Ef vitleysan er nógu oft endurtekin – þá verða einhverjir sem trúa henni. Er það módelið sem verið er að keyra hér (sem endranær)?

    • Ég geri að því skóna að trúin láti fyrst verulega undan síga á 20. Öldinni. Kv. Bð

  • Segja má að umburðarlyndi setji meginsvip á Íslending nútímans, segir guðfræðingurinn og mat hans að kristin gildi í þúsund ár séu að skila sér inní hugarheim landans. Mannréttindasáttmálar og önnur trúarbrögð kunna svo að skipta einhverju máli í því samhengi, bætir hann við.
    Því miður stenst þessi alhæfing ekki skoðun, heldur virðist byggjast á óskhyggju þess sem trúir á gæsku mannsins og neitar að horfast í augu við veruleikann. Það má vel vera rétt að þorri Íslendinga geti talist umburðarlyndir. Sýni náunganum vinsemd, virði lífsskoðanir annarra manna og hafi sjálfsögð mannréttindi í hávegum. En það á ekki við um þá sem stýra umræðunni á Íslandi, einstaka stjórnmálamenn, fjölmiðla og áberandi pistlahöfunda. Á þeim vettvangi verður ekki séð að boðskapur kristni í tíu aldir hafi haft merkjanleg áhrif og eru dæmin fjölmörg.
    Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna hurfu stórmál í skuggann af ofsafenginni moskuumræðunni eins og þar væri um að ræða mál málanna fyrir íslenskan almenning. Málefni eldri borgara og ungra fjölskyldna sem dansa línudans á fátæktarmörkunum, húsnæðiseklan og velferðarmál almennt fengust varla rædd vegna tilfinningauppnáms og bullsins sem fylgdi umræðunni um staðsetningu bænahúss.
    Í umræðuþáttum á Stöð 2 og RUV kvöldið fyrir kosningar fór bróðurparturinn af takmörkuðum tíma í moskumálið og fór einn þáttastjórnandinn yfrum af taugaæsingi og hefur ekki borið sitt barr síðan í áliti hjá þjóðinni. Verst var, að frambjóðendur margir hverjir létu þetta yfir sig ganga og samþykktu með því, að þar færi meginmál kosningabaráttunnar. Ekki furða að almenningur líti þennan söfnuð meðalmennskunnar hornauga og þyki lítið til hans koma.
    Og þeir sem magna mest upp ólguna eru þekktir vinstri menn sem svífast einskis til þess að koma höggi á andstæðinginn og grípa þá hiklaust til mannorðsskemmandi, persónulegra árása og skiptir þá engu hvort farið er með hreinar lygar og ósannindi. Það er opinbert leyndarmál, að í þeim hópi eru málaliðar sem njóta þess vafasama heiðurs að vera kallaðir aftökusveitin.
    Þegar mikið liggur við í stjórnmálabaráttunni beina þeir samstilltu afli gegn völdu fórnarlambi og yfirleitt ná þeir takmarkinu að merja úr því lífsþróttinn. Það tókst með Þorgerði Katrínu, Steinunni Valdísi og Geir Haarde. Þeir beittu velútfærðri hernaðaráætlun gegn Davíð Oddssyni en þeim brást bogalistin gegn gamla refnum með steinhjartað sem stóð af sér spjótalögin en nokkuð særður. Og nú síðast var það Sveinbjörg Birna sem gekk í gegnum svipugöng aftökusveitarinnar og munaði aðeins hársbreidd að atlagan tækist.
    Af þessu má vera ljóst að alhæfing guðfræðingsins stenst enga skoðun og ljóst að hann hefur verk að vinna á akri drottins. Uppgjöf er ekki inni í myndinni.

Höfundur