Miðvikudagur 21.12.2011 - 11:49 - FB ummæli ()

Það sækir enginn orðstír sinn til dómstólanna

Það verður að fara að stöðva hina vaxandi tilhneigingu til meiðyrðamála.

Nú hafa tveir kaupsýslumenn stefnt Ragnari Önundarsyni fyrir að hafa sagt að þeir væru „féflettar“ en ekki „fjárfestar“.

Ég tek það skýrt fram að ég veit nákvæmlega ekkert um málið.

Ég þekki hvorki mennina tvo, né Ragnar.

Það getur vel verið að orð Ragnars hafi verið móðgandi.

Það getur líka vel verið að þau séu ósanngjörn.

Ég hef bara ekki hugmynd.

Ekki minnstu hugmynd.

En þessi orð eru greinilega sett fram sem niðurstaða af röksemdafærslu í grein sem Ragnar skrifaði um hátterni kaupsýslumannanna.

Og þá VERÐUR að leyfa fólki að orða skoðanir sínar skýrt og skorinort – án þess að eiga á hættu meiðyrðamál.

Ég vil beina því til fjárfestanna tveggja að draga mál sitt þegar í stað til baka.

Ég hef ekki haft neina sérstaka skoðun á þessum tveimur mönnum hingað til.

Þeir ráða því sjálfir hvort þar verður breyting á.

Þessir tveir menn eru áhrifamiklir kaupsýslumenn í samfélaginu, og þeir eiga að þola það þó ekki séu allir yfir sig hrifnir af þeim.

Ef á þá er deilt eiga þeir að svara fyrir sig með orðum, ekki stefnuvottum.

Hættið þessu!

Ég vil reyndar beina þessu til allra þeirra sem nú um stundir sveifla um sig ryðguðum atgeirum meiðyrðalöggjafarinnar.

Þá atgeira á aðeins að brúka þegar allt um þrýtur, ef menn kunna ENGIN önnur ráð sér til varnar.

En alls ekki annars.

Hvað oft á ég að segja það: Það sækir enginn orðstír sinn til dómstólanna!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!