Miðvikudagur 30.09.2015 - 20:25 - FB ummæli ()

Mótmælum Sádi Arabíu

Það er ekki vansalaust hvernig við Íslendingar höfum tekið þátt í því með öðrum vestrænum þjóðum að láta eins og Sádi Arabía sé kjörið bandalagsríki fyrir lýðræðisþjóðir þegar raunin er sú að um er að ræða eitthvert versta kúgunarríki á jarðarkringlunni.

Af því Sádar eiga góðan hluta af þeirri olíu sem hingað til hefur verið brúkuð á Vesturlöndum, þá höfum við og aðrir látið yfir okkur ganga að þar eru stjórnarandstæðingar kúgaðir og jafnvel teknir af lífi, konur sæta einhverri ömurlegustu kúgun sem um getur í nokkru ríki heims, samkynhneigðir mega þakka fyrir ef þeir sleppa lifandi, og svo framvegis.

Að ekki sé minnst á stuðning Sáda við forstokkaða útgáfu íslams sem hefur átt mjög stóran þátt í þeirri útbreiðslu ofsatrúar sem síðan hefur endað með hryðjuverkum og glæpaverkum bæði á Vesturlöndum en þó í mun meiri mæli í löndum múslima sjálfra.

Ég get í fyllstu einlægni ekki séð að stjórnarfarið í Sádi Arabíu sé öllu skárra en í Norður-Kóreu – og það þykir nú ekki par fínt.

Nú ætla Sádar að taka af lífi ungan mann sem var 17 ára þegar hann vogaði sér að mótmæla kúgunarapparatinu sem konungsættin þarna heldur úti.

Hann heitir Ali al-Nimr og það á bæði að krossfesta hann og hálshöggva – mönnum ber ekki saman um í hvaða röð.

Það er algjörlega óboðslegt annað en Íslendingar mótmæli svona svívirðu kröfuglega.

Skrifið endilega undir þessa undirskriftasöfnun hér þar sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti er hvattur til að nota sambönd sín og embætti til að gera kúgunarstjórninni í Sádi Arabíu ljóst að það er fylgst með þeim, og framferði þeirra vekur andstyggð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!