Laugardagur 12.09.2015 - 15:04 - FB ummæli ()

„Þarna fer ríka fólkið“

Áðan flugu tvær þyrlur vestur yfir.

Ég var í Laugardalslauginni að svamla mína kílómetra og þegar ég kom upp að bakkanum dólaði þar á að giska hálfáttræður karl, og hann gjóaði augunum upp að þyrlunum tveimur sem voru stórar og pattaralegar eins og fiskiflugur á sólardegi.

Og hann sagði stundarhátt:

„Þarna fer ríka fólkið.“

Þetta var hraustlegur maður og bar með sér að vera brosmildur. Hann hefur verið strákur á fyrstu árum lýðveldisins þegar þjóðin trúði því í raun að Ísland væri stéttlaust samfélag, eða svo til.

Jafnvel alla mína grunnskólatíð og lengur var því trúað að hér ríkti jafnrétti að mestu óháð eignum og peningum. Gögn og landsins gæði stæðu öllum jafnt til boða – og þá sérstaklega þau sem mestu skiptu, menntun, heilbrigði og velferð.

Samkvæmt því hefur karlinn í sundlauginni ugglaust alið upp sín börn.

Og þess konar samfélag hefur hann viljað skilja eftir sig handa barnabörnunum.

Kannski var stéttleysið aldrei alveg raunverulegt, en það var alla vega það sem að var stefnt, það vissi hann.

En á efri árum hans tekur skyndilega nýrra við.

Græðgi verður góð.

Og þær raddir heyrast að samhjálp sé úrelt og hlægileg.

Og þótt þessar raddir valdi hruni, þá þagna þær ekki.

Þvert á móti komast þær aftur til valda.

Silfurskeiðungar og krókamakarar, sægreifar og auðvaldsherrar.

Sko.

Sjálfsagt voru erlendir ferðamenn á þessum þyrlum.

En við höfum látið líðast að hér verði til samfélag þar sem roskinn maður lítur upp eftir langa starfsævi og segir með sjálfum sér:

„Þarna fer ríka fólkið.“

Eigum við að þola þetta?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!