Þriðjudagur 15.09.2015 - 11:23 - FB ummæli ()

Sagan um pabba

Karl faðir minn hefði orðið 82ja ára í gær og ég minntist þess á Facebook með því að birta gamla mynd af honum. Þá fékk ég bréf frá konu sem sagði mér fallega sögu um hann. Ég fékk leyfi hennar til að birta hana á Facebook-síðunni minni og sagan fékk fádæma góð viðbrögð. Af því að Facebook-færslur tínast fljótt í ljósvakanum, þá birti hana hér líka – svo hún sé aðgengileg þeim sem vilja.

Svona var FB-færslan:

Faðir minn Jökull Jakobsson hefði orðið 82ja ára í dag en hann lést langt fyrir aldur fram 1978. Það mun flestum kunnugt að hann átti við sína púka að stríða og var ekki alltaf bestur sjálfum sér. En þegar ég birti mynd af honum áðan vegna afmælisdagsins, þá fékk ég þessa fallegu sögu af honum senda að norðan, og fékk síðan leyfi til að deila henni. Mér þykir nú þegar ansi vænt um hana.

Bréf konunnar var á þessa leið:
„Í tilefni dagsins langar mig að segja þér smá sögu. Þannig var að eitt vorið á áttunda áratugnum dvaldi ég á Borgarspítalanum um nokkurra vikna skeið, nánar tiltekið á geðdeildinni. Ég var barnshafandi og alein og rétt skriðin í 19 árin. Á hverjum degi var ég tekin á teppið hjá einni hjúkku deildarinnar þar sem ég var hvött til að gefa barnið. Ég var skíthrædd og þunglynd en það hafði aldrei hvarflað að mér að gera það, ekki frekar en að fara í fóstureyðingu. Það var aðeins ein manneskja á deildinni sem ég gat deilt þessu með og það var faðir þinn. Hann dvaldi þar inni á sama tíma og ég og varð eini vinur minn og mín eina stoð og stytta. Hann var sá eini sem náði sambandi við þennan sveitakrakka sem ég var.

Svo yfirgaf ég þessa stofnun og sá hann aldrei aftur. Eignaðist drenginn minn sem var skírður um jólin, og þá hringdi ég að norðan í föður þinn og lét hann vita að hann ætti lítinn nafna í dalnum bjarta. Þetta er einkasonur minn Jökull. Langaði bara að segja þér þessa litlu sögu. Sumir geta ekki hjálpað sjálfum sér en er lagið að gefa til annarra.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!