Sunnudagur 15.11.2015 - 11:55 - FB ummæli ()

„Hvílið í friði englar“

Isobel Bowdery er 22ja ára stúlka frá Suður-Afríku sem var inni á hljómleikastaðnum sem hryðjuverkamennirnir réðust inn á í París í fyrradag. Hún skrifaði Facebook-færslu sem mér fannst ástæða til að þýða.

Þetta skrifaði hún:

Screen Shot 2015-11-15 at 11.54.36

Isobel Bowdery

Þér dettur aldrei í hug að það geti komið fyrir þig. Þetta var bara föstudagskvöld á rokktónleikum. Andrúmsloftið var fullt af hamingju og allir voru dansandi og brosandi. Og svo þegar mennirnir komu inn um aðalinnganginn og byrjuðu að skjóta vorum við þau flón að halda að þetta væri hluti af sýningunni.

En þetta var ekki bara hryðjuverkaárás, þetta var blóðbað. Margir tugir voru skotnir til bana beint fyrir framan mig. Blóðpollar voru um öll gólf. Neyðaróp fullorðinna karla sem héldu um lík vinstúlkna sinna skáru loftið á þessum litla tónleikastað. Framtíðin í molum, fjölskyldur sundurkramdar. Á einu augnabliki.

Miður mín og alein þóttist ég vera dáin í meira en klukkustund, lá innan um fólk sem horfði upp á ástvini sína hreyfingarlausa. Ég hélt niðri í mér andanum, reyndi að hreyfa mig ekki – vildi ekki opinbera þessum mönnum óttann sem þeir þráðu að sjá. Ég var ótrúlega heppin að lifa af. En svo margir gerðu það ekki.

Fólkið sem hafði komið þangað af sömu ástæðu og ég – til að skemmta sér á laugardagskvöldi – það var saklaust. Þessi heimur er grimmur. Og svona verknaður ætti að opinbera hvað manneskjan er grimm og myndin af þessum mönnum þegar þeir hringsóluðu kringum okkur eins og gammar mun aldrei líða mér úr minni. Hvernig þeir miðuðu vandlega og skutu fólk á gólfinu allt í kringum mig án þess að leiða einu sinni hugann að lífi þess.

Þetta var óraunverulegt. Á hverri stundu bjóst ég við að einhver segði að þetta væri bara matröð. En af því að ég lifði þennan hrylling af get ég varpað ljósi á hetjurnar.

Manninn sem hughreysti mig og lagði líf sitt í hættu til að reyna að hylja höfuðið á mér ef ég skyldi fara að snökta.

Parið sem skiptist á ástarorðum á sinni hinstu stundu gerði mér kleift að trúa á það góða í veröldinni.

Lögreglumennirnir sem náðu að bjarga hundruðum mannslífa.

Ókunnugi maðurinn sem tók mig upp af götunni og huggaði mig þær 45 mínútur sem ég var sannfærð um að drengurinn sem ég elska væri dáinn.

Særði maðurinn sem ég hafði haldið að væri sá drengur og þegar það rann upp fyrir mér að hann væri ekki Amaury tók hann utan um mig og sagði mér að þetta yrði allt í lagi þótt hann væri sjálfur aleinn og hræddur.

Konan sem opnaði dyr sínar fyrir þeim sem lifðu af.

Vinur minn sem bauð mér húsaskjól og fór út að kaupa ný föt svo ég þyrfti ekki að vera í þessu alblóðugu blússu

Þið öll sem hafið sent mér hlý skilaboð og stuðning.

Þið öll gerið mér kleift að trúa því að heimurinn gæti batnað, svo þetta gerist aldrei aftur. En aðallega skrifa ég þetta fyrir þær 80 manneskjur sem voru myrtar inni á staðnum, sem voru ekki eins heppnar og ég, og sem vöknuðu ekki í morgun, og vinir þeirra og fjölskyldur sitja uppi með sársaukann.

Mér finnst þetta svo hræðilegt. Ekkert getur læknað sársaukann. Mér er heiður að því að hafa verið viðstödd á dánarstund þeirra, fullviss um að ég myndi á hverri stundu deyja með þeim, og ég get lofað ykkur að síðustu hugsanir þeirra voru ekki um þær skepnur sem ollu þessu.

Þær snerust um fólkið sem þau elskuðu.

Þar sem ég lá í blóði annars fólk og beið eftir kúlunni sem myndi binda endi á mín ekki nema 22 ár, þá sá ég fyrir mér andlit hverrar sálu sem ég hef elskað og hvíslaði: Ég elska þig. Aftur og aftur og aftur. Ég hugsaði um stóru stundirnar í lífinu. Ég vonaði að þau sem ég elska vissu hve mikið ég elskaði þau, og vissu að sama hvað hefði komið fyrir mig, þá héldi ég áfram að trúa á það góða í fólki. Að láta ekki þessa menn sigra.

Í gærkvöldi breyttist líf svo margra og það veltur á okkur að verða betra fólk. Að lifa því lífi sem hin saklausu fórnarlömb þessa harmleiks létu sig dreyma um en verður nú aldrei að veruleika. Hvílið í friði englar. Þið gleymist aldrei.

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!