Mánudagur 11.06.2012 - 18:59 - FB ummæli ()

Leiðréttur, fitusprengdur og eðlilegur

Sjálfstæðisflokkurinn er aftur kominn til valda í Kópavogi.

Og þar er nú byrjað að „leiðrétta“.

Það er vonandi engin þörf á að segja neitt um viðtalið sem DV tekur við Ármann bæjarstjóra.

Það er nóg að birta það bara eins og það kemur af skepnunni.

Í DV segir:

„Að sjálfsögðu höfum við skorið niður allstaðar,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og á þar við þá grunnþjónustu sem bærinn veitir.

Á sama tíma hefur bæjarstjórnin í Kópavogi samþykkt 23 prósenta hækkun á eigin launum, en sú hækkun tók gildi 1. mars síðastliðinn.

„Þessi 23 prósenta hækkun er í raun ekki hækkun. Þetta er leiðrétting – ekki hækkun,“ segir Ármann. Laun bæjarfulltrúa Kópavogsbæjar voru lækkuð um 10% stuttu eftir hrun og um leið aftengd þingfararkaupi.

Aðspurður segist hann halda að hann sé að fá rúmlega eina og hálfa milljón í laun á mánuði þegar allt er talið. „Þetta hljóta að vera eðlileg laun miðað við aðra í sambærilegum stöðum,“ og á þar við aðra bæjarstjóra.

Ármann segir að mikil fita hafi verið á grunnþjónustunni: „Við skárum niður allskonar lúxus, sameinuðum skóla til dæmis og hagræddum á ýmsan hátt. – ég man þetta ekki alveg akkúrat núna enda á leiðinni í flug.“

Svo mörg voru þau orð. Svo fór hann í flugið – leiðréttur, fitusprengdur og eðlilegur.

En hlakkiði ekki til þegar Sjálfstæðisflokkurinn verður kominn aftur til valda á Íslandi öllu?

Eins og maðurinn sagði: Þá verður aldeilis farið að leiðrétta!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!