Þriðjudagur 31.12.2013 - 09:56 - FB ummæli ()

Svo skal böl bæta

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa hafið stórsókn nú um áramótin.

Óvænt snýst sóknin ekki um framtíðarmarkmið, heldur er spólað aftur til fortíðar og hamast sem aldrei fyrr á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Henni er nú fundið allt til foráttu.

Kannski er ástæðan fyrst og fremst hið gamalkunna: Svo skal bölið bæta að benda á annað meira.

Eða það sem á að vera meira.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þurfa náttúrlega að breiða yfir tvær verulega óþægilegar staðreyndir.

Í fyrsta lagi ætlar ríkisstjórnin ekki að efna hin mikilfenglegu kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Þær aðgerðir í skuldamálum sem kynntar voru með svo miklum bravúr í byrjun desember eru jú allt annars eðlis en Framsókn básúnaði í kosningabaráttunni (sumir segja sem betur fer).

Í öðru lagi ætlar ríkisstjórnin hins vegar að efna loforð Sjálfstæðisflokksins til sægreifanna og auðmanna landsins, um að létta af þeim álögum.

Sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að feta er raunar orðin augljós:

Ef hún hefur um tvo kosti að velja, þá velur hún alltaf þann sem hentar hinum betur stæðu.

Það er náttúrlega prýðilegt að geta ráðist á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þegar maður reynir að breiða yfir þetta tvennt.

Tala um allt hennar klúður, haha, lítiði bara á kvótamálið, endurreisn bankanna, stjórnarskrána. Hí á þessa ræfla, Jóhönnu og Steingrím!

Segja stuðningsmenn ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar.

Það held ég þá að þeim tvímenningum hefði tekist betur upp við landstjórnina rétt eftir hrun – eða hitt þó heldur!!

Maður fær hroll við tilhugsunina.

En sem sagt.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Jóhönnu hafi vissulega verið mislagðar hendur á ýmsum sviðum.

Látum þau þó liggja milli hluta að sinni – nema eitt.

Stjórnarskrármálið.

Stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs.

Stuðningsmenn ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs hlakka nú mikið yfir því hvað það hafi verið mikið klúður, alltof mikið í fang færst, já, var þetta ekki bara rugl og þvæla, og svo öllu hent á haugana, strax og „eðlilegt ástand“ komst á að nýju.

Og hér verð ég að mótmæla – af því mér er málið skylt.

Sannleikurinn er sá að stjórnarskrármálið var svo sannarlega ekkert „klúður“ af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þvert á móti var það mjög merkileg lýðræðistilraun sem menn ættu nú eiginlega að viðurkenna, frekar en að fnæsa enn úti í horni.

Ótrúlegustu aðilar.

Undirbúningur var mjög vel ígrundaður, þjóðfundur haldinn, sett saman mjög vönduð skýrsla stjórnlaganefndar þar sem byggt var á öllu því mikla starfi sem fram hafði farið áður.

Almennar kosningar þar sem allir gátu boðið sig fram, allir tekið þátt í og svo skyldu 25 karlar og konur setja saman nýja stjórnarskrá fyrir allra augum, með hjálp okkar fínustu sérfræðinga.

Allt ferlið eins opið og gegnsætt og kostur var, almenningur gat fylgst með og tekið þátt, eins og hver vildi.

Síðan skyldi öllu ferlinu ljúka með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég meina – hvernig gat þetta ferli verið betra og lýðræðislegra og opnara?

En nú flissa sem sagt ótrúlegustu stuðningsmenn ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs yfir því hvað þetta hafi verið mikið „klúður“.

Jahérna.

Vissulega varð þetta allt töluvert erfiðara í framkvæmd en ætlað var.

En var það ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að kenna?

Jóhönnu er nú legið á hálsi fyrir að hafa ekki farið fram með málið í nægilegri „sátt“.

Þá er átt við sátt við nokkra stjórnmálamenn á Alþingi, en ekki sátt við þjóðina.

En það var jú einmitt markmiðið allan tímann að taka málið úr höndum Alþingis, sem hafði reynst ófært um að láta semja nýja stjórnarskrá í áratugi.

Og gat ríkisstjórnin endilega búist við því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi berjast af næstum villimannlegum krafti gegn nýju stjórnarskránni – nánast alveg óháð því hvað í henni stóð?

Og gera stjórnarskrána þannig að flokkspólitísku bitbeini, alveg að óþörfu.

Gat ríkisstjórnin endilega búist við því að Framsóknarflokkurinn, sem hafði fengið öllu sínu framgengt í stjórnarskrárferlinu, myndi snúast gegn því í miðju kafi og taka að hamast gegn því – líka óháð því hvað í nýju stjórnarskránni stóð?

Gat ríkisstjórnin virkilega gert ráð fyrir því að Hæstiréttur myndi á sinn hátt taka þátt í hráskinnaleik stjórnarandstöðunnar með því að dæma ógildar kosningar til stjórnlagaþings á grundvelli tæknilegra smáatriða sem engin áhrif höfðu á niðurstöðuna?

(Þótt síðar hafi réturinn einmitt neitað að ógilda kosningar, þrátt fyrir annmarka, vegna þess að þeir höfðu engin áhrif á niðurstöðuna.)

Og gat ríkisstjórnin endilega gert ráð fyrir því að hluti fræðasamfélags íslenska myndi taka starfi stjórnlagaráðs af furðulegri fáskiptni og neikvæðni – í stað þess að fagna tækifærinu til að taka þátt í tilrauninni?

Gat ríkisstjórnin gert ráð fyrir því að stjórnarandstaðan myndi hóta og beita einhverju ömurlegasta og fáránlegasta málþófi sem sögur fara af – og það gegn máli, sem markvisst hafði verið stefnt að því að ætti að vera sem mest í höndum þjóðarinnar sjálfrar?

Ég fór stundum á þingpalla þegar málþófið stóð sem hæst.

Og því sorglega andsvararugli mun ég seint gleyma.

Úff.

Ég veit ekki hvort hefði verið hægt að knýja allt málið í gegnum þingið þegar svona var komið.

Kannski ekki.

En hitt er ég þó sannfærður um að þegar nýr formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, ákvað að gefa allt stjórnarskrármálið upp á bátinn kortéri fyrir kosningar í fyrra – og reyna ekki einu sinni að berjast fyrir málinu – hafi það verið mjög afdrifarík pólitísk mistök.

Því þar með var borin von um að sá hópur kjósenda sem lét stjórnarskrármálið sig mestu varða gæti stutt þann flokk – með alkunnum afleiðingum þegar talið var upp úr kjörkössunum.

En látum það liggja milli hluta – það snýst jú um íslenska flokkapólitík – aðalatriðið er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stóð vel og lýðræðislega að gerð nýju stjórnarskrárinnar.

Enda vakti ferlið aðdáun í útlöndum þar sem menn voru ekki fastir í íslenskri flokkapólitík eða smákóngakerfi.

Og niðurstaðan var góð – þótt nýja stjórnarskráin hafi vissulega ekki verið fullkomið verk, þá var hún og er svo miklu, miklu betri en núverandi stjórnarskrá.

Og það var ekki „klúður ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur“ að allir steinar sem fyrirfundust skyldu lagðir í götu málsins af pólitískum andstæðingum hennar.

Bara svo það sé á hreinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!