Föstudagur 03.01.2014 - 19:57 - FB ummæli ()

Hinir mikilfenglegu stjórnmálaflokkar

Þegar ég sat í stjórnlagaráði, þá vorum við í ráðinu stundum skömmuð fyrir það af íhaldsömum fræðimönnum og pólitíkusum að vilja auka svo mjög möguleika á persónukjöri að stjórnmálaflokkarnir sem stofnanir myndu stórskaðast af.

Og það mætti ekki því þar færi lýðræðisleg umræða fram.

Já, það er nefnilega það.

Núna standa Íslendingar frammi fyrir örfáum kostum í gjaldmiðilsmálum, í rauninni aðeins tveimur.

Annars vegar getum við haldið okkur við íslensku krónuna, en það þýðir meðal annars að hinum lamandi gjaldeyrishöftum verður ekki létt af í bráð.

Hins vegar getum við tekið upp evru með því að samþykkja inngöngu í Evrópusambandið ef viðunandi samningur næst.

Og hvað eru nú hin miklu lýðræðisvirki – íslensku stjórnmálaflokkarnir – að gera í því að hjálpa okkur sauðsvörtum almúganum að ráða fram úr þessu?

Innan Vinstri-grænna er lítið sem ekkert talað um málið – flokkurinn er bara á móti – en samt vita allir að innan flokksins er stór hópur sem vill að minnsta kosti klára viðræður við ESB, ef ekki beinlínis ganga í sambandið.

(Þessari fullyrðingu hefur verið mótmælt harðlega af sómamanni einum úr VG. Þvert á móti hafi ESB verið mikið til umræðu innan flokksins. Hann veit áreiðanlega meira um það en ég, svo ég hlýt að taka fyllsta mark á því. En þær umræður hafa þá líklega skilað sér heldur illa út í samfélagið, að minnsta kosti hef ég ekki heyrt mikið af þeim síðustu misserin.)

Í Framsóknarflokknum er ekkert talað um málið, nema endurteknar möntrur um að „ESB-aðild henti Íslandi ekki“. Næstum ekkert er rætt um hvað það kynni að vera við ESB-aðildina sem ekki „hentaði okkur“.

„Við“ í þessu tilfelli er ekki endilega íslenska þjóðin.

Og flokkurinn leggur sig sérstaklega fram um að koma í veg fyrir umræður um málið, með því að reyna að slíta viðræðunum við ESB án þess þó að leggja í að gera það opinberlega – enda búinn að lofa öðru.

Hér skal þó undanskilinn væntanlegur fundur framsóknarmanna á Akureyri sem ætla ótrauðir að ræða hugsanlegt framhald aðildarviðræðna!

Í Sjálfstæðisflokknum er mjög stór og vaxandi hópur sem vill ganga í ESB en ekki má samt ræða málið opinberlega innan flokksins, af því það hentar ekki tilteknum smákóngum.

Er þessi frammistaða þessara stjórnmálaflokka eitthvað til að hrópa húrra fyrir? Og fá stjörnur í augun yfir því hvernig þeir gegna lýðræðislegu hlutverki sínu?

Flokkarnir ættu allir að vera kraumandi af umræðum um hvort og hvernig ESB-aðild hentar eður ei, kosti hennar og galla – en innan þessara þriggja flokka ríkir þögnin ein, að minnsta kosti á ytra byrði.

Má ég heldur biðja um persónukjör ef hin „lýðræðislega umræða“ innan stjórnmálaflokkanna felst helst í að bæla niður umræður um mjög mikilvæg þjóðþrifamál, bara af því einhverjar valdahlussur í þessum flokkum eru á móti því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!