Fimmtudagur 16.01.2014 - 19:31 - FB ummæli ()

Svínað á þjóðinni

Fyrir einu ári og nokkrum mánuðum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi um nýja stjórnarskrá. Þrátt fyrir mikinn áróður valdamikilla afla í landinu um að þetta skipti engu máli, þá mætti helmingur kjósenda á kjörstað og niðurstaðan var mjög afgerandi.

Tveir þriðju lýstu þeirri skoðun sinni að það stjórnarskrárfrumvarp sem fyrir lá skyldi verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands.

Maður skyldi ætla að í lýðræðisríki væri tekið skilyrðislaust mark á slíkri niðurstöðu í svo mikilsverðu máli.

Jafnvel meðal þeirra sem væru kannski ekki sammála hverju smáatriði í stjórnarskrárfrumvarpinu.

En núverandi ríkisstjórnin gefur ekki hót fyrir þessa skýru niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Hún hefur svæft málið svefninum langa með því að setja spurninguna um nýja stjórnarskrá í hendur nýrrar þingskipaðrar nefndar undir stjórn Sigurðar Líndals.

Núverandi stjórnarflokkar gengu báðir til kosninga í fyrra með þau skýru og afdráttarlausu kosningaloforð að setja spurninguna um áframhald aðildarviðræðna við ESB í hendur þjóðarinnar.

Áreiðanlega hafa þó nokkuð margir talið óhætt að kjósa flokkana tvo út á þau loforð.

Maður skyldi ætla að í lýðræðisríki væri skikkanlegum stjórnmálaflokkum kappsmál að efna skýr loforð sín við kjósendur í svo mikilsverðu máli.

En nú gefa flokkarnir reyndar ekki hót fyrir þetta loforð sitt til þjóðarinnar.

Skýr meirihluti þjóðarinnar virðist vera fylgjandi því að aðildarviðræður við ESB verði kláraðar, og samningur við sambandið svo lagður í dóm hennar sjálfrar.

Það hefur komið fram í marktækum skoðanakönnunum aftur og aftur, og maður skyldi ætla að í lýðræðisríki væri lýðræðisþenkjandi stjórnvöldum kappsmál að fara eftir svo eindregnum vilja þjóðarinnar.

En ríkisstjórn Sigmundar Davíðs gefur ekki hót fyrir þá skoðun þjóðarinnar.

Sá mikli leiðtogi Ásmundur Einar Daðason hreykir sér meira að segja af því að ef ríkisstjórnin yrði knúin til þess af þjóðinni að klára aðildarviðræðurnar, þá myndi hún bara senda þá menn til samningaviðræðna við ESB sem tryggðu að samningar færu út um þúfur – eða þá að svo vondir samningar yrðu gerðir að þjóðin myndi aldrei samþykkja þá.

Þetta finnst Ásmundi Einari flott og sniðugt trix.

„Svínað á þjóðinni“ myndi ég kalla það.

Mér sýnist reyndar af þeim dæmum sem ég hef nú nefnt (og gæti nefnt fleiri) að þessi ríkisstjórn hiki hvergi við að svína á þjóðinni.

Og ég verð að viðurkenna að ég hef allþungar áhyggjur af því að landstjórnin sé nú komin í hendur fólks sem hefur svo klénan skilning á lýðræði.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!