Sunnudagur 15.03.2015 - 15:01 - FB ummæli ()

Lýðræðið er komið með flensu

 

Gott fólk.

 

Þeir sem vilja fyrir alla muni koma í veg fyrir að Íslendingar kynnu að ganga í Evrópusambandið, kannski hafa þeir bara rétt fyrir sér.

 

Kannski er þetta Evrópusamband ekkert fyrir okkur. Kannski er miklu betra fyrir okkur að halda hér úti minnstu sjálfstæðu mynt í öllum heiminum, smámynt sem leikur á reiðiskjálfi í hvert sinn sem hvessir í hinu alþjóðlega fjármálakerfi, eða þá að hún hrynur þegar einhver áföll verða hér innanlands.

 

Já, kannski er miklu betra fyrir okkur að hafa slíka smámynt í vasanum en almennilegan pening.

 

Og kannski er það alveg rétt hjá þeim, sem vilja ekki að við göngum í Evrópusambandið, að það sé miklu, miklu heppilegra fyrir okkur að fá bara senda þykka lagabúnka sunnan úr Brussel og við stimplum þá í fánalitunum, frekar en að við sætum sjálf við borðið suðrí Evrópu og tækjum þátt í að móta þessi lög. Kannski er það rétt hjá þeim að það sé miklu meira sjálfstæði og miklu meira fullveldi í því fólgið að taka orðalaust við lagabúnkunum, frekar en að reyna að hafa áhrif á hvað í þeim stendur.

 

Við getum þá náttúrlega í versta falli reynt að fá þýðendurna til að milda aðeins orðalagið.

 

Og kannski er það ennfremur rétt hjá þeim, sem berjast af öllu afli gegn inngöngu í Evrópusambandið, að það sé betra fyrir okkur að gleyma alveg lægra matarverði og lægri vöxtum, og sambærilegum launum við það sem gerist í nágrannalöndunum og ég tala nú ekki um meiri stöðugleika í okkar viðsjála efnahagslífi, en allt þetta myndi líklega fylgja aðild að ESB, en já, kannski er það alveg rétt að ekkert af þessu henti okkur.

 

Og því ættum við að vera bara áfram hér úti í hafinu og tutla hrosshárið okkar.

 

Og einkum og sér í lagi: Kannski er það alveg rétt að þótt lokasamningum við Evrópusambandið kynni að fylgja miklu betri niðurstaða í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum heldur en menn eru hér einlægt að hræða okkur með, og þótt aðild að ESB kynni að hafa í för með sér að litlu ljótu valdaklíkurnar okkar misstu soldinn spón úr sínum aski – jú, kannski er það samt alveg rétt, sem þeir segja, að þetta henti okkur bara ekki neitt!

 

Já – ég meina það, kannski er það alveg rétt. En – og þetta er stórt „en“ – ég vil bara fá að komast að því sjálfur.

 

Ég vil fá að sjá þann samning sem gerður yrði við Evrópusambandið, ég vil fá að skoða sjálfur öll hin fínni blæbrigði hans, ég vil fá að meta sjálfur hvort undanþágur eða sérlausnir í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum séu nægjanlegar til að ég geti fallist á þær, ég vil fá að ákveða það sjálfur.

 

Ég vil ekki að Gunnar Bragi Sveinsson ákveði það fyrir mig.

 

Og ég vil fá einkum og sér í lagi að krakkarnir mínir fái að taka sína eigin ákvörðun um þetta, enda varðar þetta þeirra framtíð, en að það verði ekki gamlir kallar á kontórum sem ráði framtíð þeirra – gamlir kallar á ýmsum aldri og sjálfsagt í einhverjum tilfellum af báðum kynjum.

 

Ég á strák sem er alveg að verða 16 ára og hann verður kominn með kosningarétt um þær mundir sem viðræðum við Evrópusambandið gæti lokið, og þá vil ég að hann fái að ráða sjálfur hvaða leið hann vill fara í lífinu, hvaða leið hann sér besta fyrir sitt land, fyrir sjálfan sig, vini sína og fjölskyldu og framtíðina.

 

Ég vil að unga fólkið fái að ráða því sjálft.

 

Ég vil ekki að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði þá búinn að skella öllum dyrum útí heim í lás.

 

Kannski mun drengurinn ekki vilja ganga í Evrópusambandið, hvað veit ég, en ég vil bara að hann fái að ráða því sjálfur, ekki ónefndir menn á kontórum, sem eru að passa upp á sína klíku, sína hagsmuni, sitt litla efnahagssvæði.

 

Það er eflaust til fullt af fólki sem í einlægni trúir því að það sé Íslandi fyrir bestu að standa utan Evrópusambandsins – en ég vona og ég heiti á það fólk að fallast á að það sé réttlátt, sjálfsagt og eðlilegt að við fáum öll að taka um þetta sameiginlega upplýsta ákvörðun, byggða á raunverulegum samningi, ekki flugufregnum, ekki hræðsluáróðri, ekki hurðaskellum.

 

Við skulum fá að ráða okkur sjálf, hversu langt og á hvaða forsendum við viljum stíga útí heim, við skulum ekki láta það ráðast á kontórum og í bakherbergjum eða útí móa einhvers staðar.

 

Mér finnst í rauninni slík svívirða að ákveðið fólk í þessu samfélagi sé að róa því öllum árum að koma í veg fyrir að við getum sjálf tekið svo mikilsverða ákvörðun um framtíð okkar, að ég trúi því varla að það sé að gerast í raun og veru.

 

En svo virðist þó vera, og þá verðum við sjálf að koma í veg fyrir að hurðum sé skellt í lás, því þetta eru okkar hurðir á okkar húsi, og við eigum að ráða því hverjir ganga þar um.

 

En – svo snýst þetta mál núna auðvitað alls ekki um Evrópusambandið. Það er í rauninni alls ekki útaf Evrópusambandinu sem við erum komin hér saman núna, 15. mars 2015. Nei, við erum komin hér saman til að mótmæla því að framið sé eitthvert fáránlegasta, subbulegasta og ruddalegasta tilræði við lýðræði í þessu landi sem við höfum orðið vitni að.

 

Og þá gildir einu hvernig ber í rauninni að túlka hið furðulega bréf Gunnars Braga Sveinssonar, bréf sem ábyggilega verður skráð á spjöld sögunnar sem einhver undarlegasta ritsmíð Íslendings. Það gildir samt einu hvernig er hægt eða mögulegt að túlka það, því við vitum öll hver var tilgangurinn með þessu bréfi – að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi, og þjóðinni, af því þeir – þeir sem vilja ráða, þeir sem húka á kontórunum – þeir treysta sér ekki í þær umræður sem myndu fylgja sambærilegri tillögu á Alþingi, aftur, eins og í fyrra, og þeir þora ekki í umræður sem myndu eiga sér stað í þingsölum og þaðan af síður útí samfélaginu.

 

Þeir treysta sér ekki í þá mótmælafundi sem verða haldnir gegn því að öllum dyrum verði endanlega skellt í lás og á svona ólýðræðislegan hátt.

 

Þeir leggja ekki í að upplýsa hve lýðræðisvitund þeirra er veik en tilhneigingin til valdníðslu og valdhroka sterk í brjósti þeirra.

 

Þess vegna átti að afgreiða þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar allrar, okkar og barnanna okkar, þess vegna átti að afgreiða það með einu bréfi sem var afhent útí Evrópu og svo stökk Gunnar Bragi uppí flugvél og enginn þar úti skildi neitt í neinu.

 

En við hér, við skiljum þetta. Við erum farin að þekkja þessa kauða. Við skiljum að það er verið að vega að lýðræðinu, það er ekki bara verið að skella í lás, heldur er verið að negla slagbrand fyrir dyrnar, næsta skref verður að setja hlera fyrir gluggana, svo við verðum öll innilokuð, eins og inná þeim sama kontór, þar sem þeir ráða ríkjum, klíkubræðurnir sem vilja ráða framtíð okkar og barnanna okkar.

 

Þetta snýst ekki lengur um Evrópusambandið, þetta snýst um að við látum ekki stjórna okkur með tilskipunum, með óskiljanlegum bréfum í kansellístíl, og svo mætir Bjarni Benediktsson bara í Kastljósið og segir í reynd að lýðræðislegur framgangsmáti skipti engu máli, af því það viti allir hvað ríkisstjórnin vilji.

 

Og þá sé réttast að gera bara það sem ríkisstjórnin vill.

 

Jahérna. Þvílíkar röksemdir, það held ég að alnafni Bjarna og frændi, forsætisráðherrann og lagaprófessorinn sálugi, hefði blygðast sín fyrir þau stjórnskipunarfræði sem nú þykja bersýnilega fullgóð í Sjálfstæðisflokknum!

 

Og þegar fólk lýsir áhyggjum yfir því að svona eigi ekki að fara að hlutunum, hvað er þá framlag forsætisráðhera? Hverjum bregst hann við áhyggjum þjóðar sinnar?

 

Jú, með hótfyndni og yfirlæti, eins og venjulega, það er alltaf leið Sigmundar Davíðs til að sigla framhjá gagnrýni.

 

Eigum við virkilega skilið að hafa slíkan forsætisráðherra?

 

Og svo eru dregnir fram stjórnarþingmenn og almennir ráðherrar, þar á meðal ýmsir sem maður hélt að væru grandvart fólk, og það er látið vitna um að þetta sé nú bara allt í góðu lagi, það þurfi ekkert að ræða þetta mál í utanríkismálanefnd eða á Alþingi yfirleitt, ríkisstjórnin vill hafa þetta svona, og hún ræður, ha?

 

Skítt með hefðir, lög, stjórnarskrá, ekki einu sinni nefna hana, en skítt með þjóðina líka, ríkisstjórnin vill þetta, þeir á kontórunum vilja þetta, þá verður það svo!

 

Og þetta segja þeir grandvöru án þess að blikna eða blána, þeir fyrrverandi grandvöru réttara sagt, þótt við vitum öll að þeir myndu reka upp ramakvein af hneykslun, ef það svo mikið sem hvarflaði að pólitískum andstæðingum þeirra að haga sér svona.

 

En þetta er ríkisstjórnin þeirra, og hún ræður, segja þeir, lýðræðisvitund þessa fólks er ekki sterkari en þetta, vistin við kjötkatlana er svo ljúf, og þingveislurnar svo skemmtilegar, þeir láta sig hafa það að renna niður sannfæringu sinni með veigunum þar. Því þegar húsbændurnir á ríkisstjórnarkontórnum og öðrum kontórum skipa, þá hlýða óbreyttir þingmenn og ráðherrar – að minnsta kosti alveg ótrúlega og furðulega margir.

 

Og þeir láta sig einu gilda hin skýru loforð, sem svikin eru, alveg kristalskýr loforð, þau eru svikin af því skipanir berast af kontórunum.

 

Hvaða álit hefðu ýmsir fyrri leiðtogar þeirra flokka sem hér um ræðir haft á slíkum svikum, menn sem höfðu sómatilfinningu hvað sem öðru leið?

 

Hvaða álit hefðu þeir haft á svo blygðunarlausum og bláköldum svikum á skýrum loforðum?

 

Eysteinn Jónsson afabróðir minn, formaður Framsóknarflokksins á sínum tíma, einstakur og ærlegur drengskaparmaður, hvaða augum hefði hann litið núverandi formann Framsóknarflokksins eða utanríkisráðherra hans?

 

Og forystumenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson eldri, þeir voru menn sem gátu hvað sem allri pólitík leið alltaf náð sambandi við stjórnmálaandstæðinga og verkalýðshreyfingu, því allir vissu að þeir tveir voru heiðursmenn.

 

Hvernig hefðu Ólafur og Bjarni litið þau svik sem núverandi kjósendum flokksins er ætlað að kokgleypa? Ég tel mig reyndar vita svarið. Þeir hefðu auðvitað fyllst fyrirlitningu á þeim sem nú eiga að heita arftakar þeirra. En litlu dátarnir í stjórnarflokkunum hlýða samt, að því er virðist, langflestir, því skipanir af kontórunum eru svo lokkandi, ríkisstjórnin vill hafa þetta svona, og húsbændur hennar.

 

En gott fólk – við þurfum að átta okkur á að það skiptir ekki máli hvað ríkisstjórnin vill gera, það þarf reyndar einhver að segja ríkisstjórninni það, það skiptir máli hvað við viljum gera, og það vill svo til að ég veit alveg hvað við hér viljum gera – og við viljum burt með valdníðslu smákónganna, burt með hlerana fyrir gluggunum, rífum niður slagbrandana sem ríkisstjórnin ætlar að nota til að loka okkur inni og halda okkur í skefjum.

 

Hvaða skoðun sem við höfum á framtíðarskrefum þjóðarinnar, þá getum við ekki látið svona vinnubrögð líðast, því þá dimmir við dyrin, og lýðræðið í landinu er komið með flensu, og lýðræðisflensa, hún getur endað með ósköpum, það er hin sára reynsla annarra þjóða, svo gætum okkar, hreinsum til, látum ekki vaða yfir okkur og læsa okkur inni, opnum allar dyr uppá gátt, því ríkisstjórn sem virðir ekki fulltrúasamkundu þjóðarinnar, Alþingi, hrifsar þar með til sín völd sem henni eru ekki ætluð.

 

Og við skulum ekki og megum ekki leyfa henni að taka sér þau völd, ég vil ekki að börnin mín alist upp í landi þar sem slíkt er talið eðlilegt af valdhöfum og einhverjum skuggaböldrum á kontórum og svo látið líðast af þjóðinni.

 

Það er þetta sem má ekki, það er aðalatriði málsins, það má alls ekki gerast, við þurfum að taka af þeim völd sem kunna ekki með þau að fara, því við þurfum að búa börnunum okkar sómasamlega framtíð í sómasamlegu, heiðarlegu og lýðræðislegu landi, við þurfum að ráða okkur sjálf, burt með freku kallana, þeir eru hættulegir …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!