Fimmtudagur 05.06.2014 - 17:41 - Lokað fyrir ummæli

Framsókn á endastöð!

Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar var á hraðri leið til framtíðar. Úreltur bændaflokkur sem hafði lent í klónum á spillingu tók sér stöðu fyrir framan aðra flokka. Var á leiðinni að verða framsækinn, alþjóðlega sinnaður, frjálslyndur flokkur líkt og venstre í Danmörku, á svipaðri leið og Frjálslyndi flokkurinn í Bretlandi vill vera á. Í slíkum flokki hefði bændur og bændasinnað fólk sameinast framsæknum öflum í samfélaginu og hiklaust verið í fararbroddi um mótun íslensks samfélags á 21. öldinni.
Í stað þess náðu þeir yfirhöndinni sem vildu horfa afturábak inn til dala í stað fram á veginn og kölluðu þjóðrækni. Ekki var það þó umhyggja fyrir landinu og náttúru þess, fjarriþví. Ekki var það heldur sú heilbrigða þjóðrækni sem Jón Sigurðsson yngri reyndi að koma svo fallega í orð, heldur sú þjóðrækni sem hefur horn í síðu þess sem útlenskt er, leggur áherslu á jafn sjálfsagða hluti og íslenska fánann og íslenskan mat, talar um útlendinga í sömu andrá og sjúkdóma og glæpi, hreinræktaða Íslendinga og fleira í þeim dúr. Samhliða þessu kemur ótti við Evrópusambandið og útlendinga og trú þeirra sem hér setjast að. Hiklaust dæmi um örvinglaðan flokk sem veit ekki fyrir hvað hann stendur og veit ekki hvaða skoðanir bærast með þeim sem hann leiða. Bregst flokkurinn þannig lýðræðislega aðalverkefni sínu að hafa prófað þá alvarlega í innanflokkstarfi, beint eða óbeint, sem flokkurinn síðar teflir fram til að leiða þjóð eða borg.
Þó að ótti við útland og nýkomin verði sjálfsagt alltaf til staðar þá er flokkur sem byggir á neikvæðni og andúð kominn á endastöð enda hafa bæði Samfylking og Björt Framtíð velt framsókn úr sessi sem valkostur fyrir þá sem vilja vera nálægt miðjunni.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (9)

  • Í kosningabaráttunni og hita leiksins lét oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík þau orð falla að afturkalla bæri lóð til félags múslima og fundinn væri annar og minna áberandi staður í borginni.
    Þá upphófst gjörningaveður, magnað af fjölmiðlum með þeim ólíkindum að önnur mikilvæg mál hurfu í skuggann og orð hafa fallið sem eru engum til sóma. Og enn eru fjölmiðlarnir við sama heygarðshornið; halda málinu lifandi og reyna að kreista úr því safann sem raunar er að verða uppurinn. Einstaka pistlahöfundar á Eyjunni hafa gerst sekir um fasíska tilburði í skrifum þar sem ofstæki og þöggun er leiðarljósið.
    Forystumenn Framsóknarflokksins hafa margítrekað bent á stefnu flokksins í málefnum innflytjenda, virðingu fyrir öllum trúarbrögðum og jafnan rétt allra manna.
    En það má einu gilda. Síbyljan heldur áfram með stóryrðum og útúrsnúningum. En það eru að verða vatnaskil sem betur fer og hógværir og skynsamir menn að stíga fram á sviðið með þann boðskap að umræðuna um málefni innflytjenda verði að taka; þöggun og ofstæki verði að ýta til hliðar og ræða af hófsemd um skyldur og umfram allt réttindi þeirra í íslensku samfélagi.
    Formaður félags múslima fagnaði í útvarpsviðtali umræðunni í þeirri von að um síðir leiddi hún til sátta. Orð eru til alls fyrst, sagði hann.
    Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra dró fram í sjónvarpsviðtali áherslur Framsóknarflokksins í fyrrgreindum málum og benti jafnframt á alvarlegar brotalamir í málefnum innflytjenda sem ráða verði bót á. Stór hópur, einkum drengir falla útúr námi áður en kemur að framhaldsnámi. Fjölskyldur fá ekki nægilegan stuðning til þess að aðlagast samfélaginu. Og lokaorð hennar: „Á þessum grunni eigum við að ræða þessi mál og koma okkur saman um leiðir sem bæta stöðu innflytjenda jafnframt því sem við sýnum uppruna þeirra, siðum og trúarbrögðum virðingu“.
    Og því má bæta við, að eðlilegast væri, að þetta viðkvæma mál verði tekið til meðferðar í þinginu og þingmenn reyni eftir föngum að sammælast um hófsama stefnu í innflytjendamálum sem tryggi innflytjendum stuðning í aðlögunarferlinu og sjálfsögð réttindi til lífs og afkomu hér á landi.
    Aðeins þannig og með jákvæðu hugarfari er unnt að skapa eftirsóknarverðan frið. Og láti fjölmiðlar af æsifréttamennskunni í jafnviðkvæmu máli sem þessu og styðji viðleitni hófsamra manna mun staða innflytjenda styrkjast er fram líða stundir svo um munar. Í því ferli væri æskilegt og raunar afar aðkallandi, að menn á borð við Illuga Jökulssson haldi sig fjarri umræðunni.

    • Brynjólfur Þorvarðsson

      Baldur, þetta er flottur pistill hjá þér.

      SSG, margt sem þú segir get ég tekið undir. Við þurfum að hlúa betur að þeim sem hingað koma, annað hvort til að leita sér að atvinnu (mikill meirihluti) eða sem flóttamenn. Ein fyrsta forsenda þess að nýbúar aðlagist íslensku samfélagi er að samfélagið taki þeim opnum örmum.

      En þú virðist eitthvað hafa misskilið umræðuna sem orðið hefur. Sveinbjörg sagðist ekki vilja leyfa mosku af því að við værum með Þjóðkirkju! Ummæli hennar snerust ekki um skipulagsmál, ekki um staðsetningu, heldur mismunun gagnvart nafngreindum minnihlutahópi.

      Rasistar og múslímafóbar skildu hana þannig að hún væri að styðja málstað þeirra. Enda voru þeir fljótir til að lýsa yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn, og Sveinbjörg birti stolt og lækaði stuðningsyfirlýsingar þessa ófagra liðs.

      Þessi litli minnihluti öfgamanna telur Framsókn tala sínu máli, og að fyrst flokkur með forsætisráðuneytið styður útlendingahatur, að þeirra mati, þá er útlendingahatur bara allt í lagi og menn fá þor til að tjá það hvar og hvenær sem þeir vilja. Auðvitað hafa þeir margir hrokkið í kút yfir þeirri miklu andstöðu sem hugmyndir þeirra mæta meðal almennings.

      Sveinbjörg vísaði ekki frá sér þessum skilningi útlendingahatara, frekar að hún hafi bætt um betur daginn fyrir kosningar með ummælum sínum um nauðungarhjónabönd múslíma. Eins og borgarstjórn Reykjavíkur hafi eitthvað um það að segja!

      Aðrir forystumenn flokksins samþykktu hina nýju stöðu með þögninni, þeir fáu Framsóknarmenn sem mótmæltu voru kveðnir í kútinn, samanber yfirlýsingu FUS.

      Eftir kosningar hefur Sigmundur Davíð lýst því yfir að hann sé ekki mótfallinn moskubyggingu í Reykjavík. En það er bara of seint, atkvæðin voru þegar veidd úr hinum hugmyndafræðilega drullupolli.

      Skoðanir þær sem Sveinbjörg gaf vísvitandi byr undir fótinn eru svo andsnúin skoðunum meirihlutans að ekki var hægt annað en að mikill fjöldi manna hafi brugðist við. Eða var það kannski ósk Framsóknar að skoðanir haturshópa ættu að fá að hljóma óáreittar? Áttum við öll að samþykkja með þögninni þegar stjórnmálaflokkur hvetur til mismununar og mannrétindabrota?

      Niðurstaða kosninganna voru svo þær að Framsókn tókst að krækja í eitt til tvö þúsund atkvæði út á daður sitt við hatursöfl samfélagsins, því það var aldursdreifing stuðnings ásamt kosningaþátttöku sem skilaði þeim minnst helmingi þeirrar fylgisaukningar sem raunin varð. Um leið fékk flokkurinn á sig stimpil sem mun seint mást af, ef forystan þá hefur yfirhöfuð áhuga á því.

      Framsóknarmenn skammast sín skiljanlega yfir framkomu forystunnar. Þeim svíður undan umræðunni og vilja þagga hana niður.

      Sé það vilji Framsóknarmanna að opna fyrir umræðu um innflytjendamál á þeim nótum sem þú boðar, SSG, hefðu þeir ekki átt að byrja á einhverju öðru en að gera sér dælt við öfgahópa og hatursöfl?

    • Stefán Þór Sigfinnsson

      GSS:

      Sveinbjörg kemur fram með sín ummæli,ekkert heyrist frá forystunni,Sveinbjörg bætir í og kátína er í herbúðum Skúla Skúlasonar og félaga og ekkert heyrist í forystunni. Svo kemur Simmi fram þegar skoðanakannanir sýna að Framsókn er að græða á þessum málflutningi og gagnrýnir það hversu vondir allir eru við Framsóknarflokkinn. Er hann sammála orðum Sveinbjargar ? Ekki orð um það.

      Sigrún Magnúsdóttir tjáir sig lítilega fyrir kosningar um þetta og segir þetta gegn stefnu flokksins en virða beri skoðanir Sveinbjörgu og í sama streng tekur Gunnar Bragi Sveinsson. Ekkert heyrist í Eygló né Sigurði Inga og oddvitar flokksins um land allt þeygja þunnu hljóði.

      Akurinn hefur verið plægður,öfgahópum gefið skotleyfi og skaðinn skeður.

      Svo dirfist þetta lið að koma fram kortéri eftir kosningar og leika fórnarlamb og væla yfir því hvað allir séu vondir við Framsókn.

      Halló þið höfðuð heila viku fyrir kosningar til þess að hreinsa ykkur af þessu en kusuð að gera það ekki og þá þýðir ekkert að koma eftirá þegar þegar málflutningurinn hefur skilað ykkur atkvæðum og mönnum inn og væla og leika fórnarlömb.

  • Leifur Björnsson

    Flottur pistill Baldur.

  • Ásmundur

    SDG þarf að skýra mál sitt betur. Hvers vegna hefur hann ekki mótmælt ummælum oddvitans í Reykjavík sem fara gegn stefnu framsóknar og stjórnarskránni?

    Með því að taka ekki fram fyrir hendurnar á oddvitanum er hann sem flokksformaður að leggja blessun sína yfir ummæli sem eru ekki bara brot á stefnu flokksins og stjórnarskrá heldur hljóta að flokkast undir rasisma í viðtækri merkingu þess orðs.

    SDG segist vera á móti mosku á þessum stað. Hans einkaskoðun skiptir hins vegar engu máli og færi því best á að hann héldi henni fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að búið er að úthluta lóðinni.

    SDG hefur viljað líta á sig sem sérfræðing í skipulagsmálum. Það er hann hins vegar alls ekki enda hefur hann enga formlega menntun á því sviði.

    Hann hefur skreytt sig með tiltlinum skipulagshagfræðingur og komist upp með það þrátt fyrir prófleysið enda er það starfsheiti ekki lögverndað.

  • Kjartan Eggertsson

    ..“sem vilja vera nálægt miðjunni“. Baldur Kristjánsson: það eru svona hugtök sem eru úrelt. Þau segja manni ekkert. Áður aðhylltust menn í meira mæli en nú á tímum, flokka, sem kenndu sig við stefnur (isma) og stöður (hægri, vinsti, miðja). Í ríkari mæli vilja menn nú ræða málefnin og þá skiptir engu máli hver flokkurinn er eða hvað hann var undir forystu manna sem voru „börn síns tíma“. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir almennan hæfileikaskort í liði stjórnmalamann, þá eru það helst fókl úr liði Framsóknarmanna sem um þessar mundir hefur frumkvæði að breytingum og nýrri atvinnusköpun. Samfylkingin og Björt framtíð tala falleg orð, en eru í flestum tilfellum dragbítar á framfarir. Það er ekki nóg að hafa fallega hugsun og talsmáta, menn verða að hafa hæfileik í stjórnun og rekstri, innsæi, heildasÿn og framtíðarsýn. Gott dæmi um skort á heildarsýn og framtiðarsýn og skilning á grunnþáttum í rekstri samfélagsins er að láta sér detta í hug að ætla að leggj niður flugbraut og flugbrautir í Reykjavík, án þess að vera búinn að leggja aðrar í staðinn á höfuðborgarsvæðinu.

Höfundur